Hún lá endilöng á gangstéttinni í Bakarabrekkunni og skrifaði nafnið sitt á grasið við götukantinn. Hún skrifaði með rauðu bleki svo nafnið væri vel sýnilegt á grænu grasinu. Hún var algerlega klæðlaus en hafði gömlu snjáðu sængina sína yfir sér eins og kápu og vonaði að enginn tæki eftir því að þetta var sæng en ekki kápa. Hún var hálfhrædd um að einhver myndi amast við henni þar sem hún lá á maganum þvert yfir gangstéttina og páraði út grasið. Jafnvel saka hana um að fremja skemmdarverk á borginni. En fólkið virtist ekki taka eftir henni heldur gekk óhikað yfir hana. Það var ekki þægilegt að láta traðka svona á sér . En hún lét það yfir sig ganga vegna nafnsins. Hún var búin að skrifa næstum því alla leið frá kvennaklósettinu niður að Lækjargötu og hún tók sér smáhvíld og leit yfir verk sitt. Hún gat ekki annað en dáðst að því hve nafnið tók sig vel út í grænu grasinu. Það var einna líkast því sem götubrúnin væri alþakin rauðum rósum. Hún hélt áfram að skrifa og hú flýtti hún sér meira en áður því sólin var horfin og dökkir kólgubakkar að hrannast upp á himninum. Veðurfréttirnar höfðu sagt að það ætti að verða sól í dag og nú leit einna helst út fyrir rigningu.Einmitt þegar hún var loksins að ljúka við að skrifa nafnið sitt. Hún leit upp þegar hún skrifaði síðustu stafina. Það stóðst á endum . Það var byrjað að rigna.