Sólin er sest
Og dagurinn er búinn
Börnin eru orðin stór
Og enginn veit hvað varð af tímanum.

Hún er ein
Gömul
Í lítilli íbúð í úthverfi
Og enginn hringir.

Svefninn er freistandi
En hún vill vaka
Og bíða eftir þakklæti
Fyrir að gefa líf sitt einhverjum öðrum.

Hún á erfitt með að skilja
Að eftir allt erum við ein.
Hversu sárt það er að sættast við þann sannleika.

Við erum hér til að vinna verk
Og að vinnudegi loknum
Eiga allir að fara heim.

En hvar er það?

Síminn hringir ekki meira
Og róluvöllurinn var rifinn í vor
Til að koma fyrir félagsmiðstöð
Fyrir aldraða
-Geymslustöð fyrir útbrunna verktaka.