sorgin skríður inn á köldum kvöldum
skjálftinn hreykir sér að sínum völdum
vindur gólar hæst á mínum glugga
geð mitt stendur greipt í svörtum skugga…

myrkrið sýnir máttinn þessar nætur
með hjartasting ég staulast æ á fætur
sumrið hefur horfið burt úr trjánum
höfugur ég bið um náð á hnjánum…

Guð minn hvar er griðin sem þú átt?
geturðu opnað ríkið upp á gátt?
ég kem þar brátt og ber á háar hurðir
brotinn eftir lífsins úfnu urðir…

…ég kem þar brátt og ber á hæstu hurðir
brotinn eftir lífsins úfnu urðir…

-pardus-






*** Var að horfa á Jesus Christ Superstar (eina af mínum uppáhalds) og fylltist andagift eftir hana… Í einu atriðinu (rétt áður en Jesús endar á krossinum) biður hann til guðs og krefst þess að vita af hverju hann þarf að deyja fyrir málstaðinn og verða píslarvottur. Allavega… þetta ljóð fjallar kannski ekki um nákvæmlega sama efnið en sumar af þessum setningum duttu inn í kollinn á mér meðan ég horfði á myndina ;) Ég er alls ekki leiður eða þunglyndur (eins og ljóðið gæti gefið til kynna), fannst þessar setningar bara kúl og ákvað að skella þeim saman í þetta ljóð ;) ***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.