Á gráum kvöldum, kyrrðin rofin
komstu til mín, slagandi,dofin.
Föður minn sagðir sekan vera
af sorginni sem við máttum bera.

Svo liðu dagar, svo liðu ár
síaðist inn veruleikinn hrár.
Engum að treysta, allir svíkja
-alltaf að berjast, aldrei víkja.

Stundum komu dagar, sem deyddu
og drauma mína til slátrunar leiddu.
Svo varstu komin, birtist von
í verunni einskis manns son.

Hvítur í glæru, kærleikur þinn
köld flaskan staðgengill minn.
Liggjandi nakin með lakið undir þér
lamandi óttinn í hjarta mér.

Enginn gat átt nokkur svör
ástarorðin lýgi á þinni vör.
Þó hendurnar héngju niður með síðum
hnefar mínir krepptir í eilífum stríðum.

Í fleiri ár en fært er að muna
færðumst nær og nær vítisbruna.
Með hendur mínar um háls á þér
hjóstu aftur og aftur í hjarta mér.

Drafandi slefandi og sljó
slepptirðu því sem í hjartanu bjó.
Drekktir ástinni í enn einni flösku
allt okkar brenndir til ösku.

Liggjandi emjandi ælandi
einskis nýt vælandi.
Alltaf sagðist elska mig
en að allir hötuðu þig.

Því verð ég stundum verri en ég ætla,
er vondar minningar úr skuggunum vætla.

Fyrirgefðu mér ef ég fell á ný
en fjarri er stundum vonin hlý.
Gríptu karfann!