ALTARI LJÓÐANNA


Það rignir og rignir,
ætlar aldrei að stoppa.
Samt get ég ekki hugsað
um annað en að fara til hans.

Ég fórna honum á altari ljóðanna
því þegar ég sé hann
- get ég ekki talað við hann.
Sný mér bara undan og gretti mig.

Viltu lyfta upp sænginni
og geyma mig hjá þér?
Er pláss í hjarta þínu
fyrir enn eina týnda sál?

Og blærinn hvíslar ekki lengur,
þögnin ærandi.
Veggirnir koma nær
og loftið þyngist.

Það er allt bannað
og það má ekki neitt.
Þú ræður engu
og færð ekkert að gert.

Sæt og seiðandi lykt
sem lokkar öll dýrin
til þín -
Ég kann ekki neitt.

Heilsar blíðlega,
glampi í augum.
Baklás og ég kasta kveðjunni
aftur til baka eins fast og ég get.