Þótt Fedora Core 5 sé mjög fullkomið kerfi með mörgum möguleikum þarf stundum að bæta við það og uppfæra. Til þess notum við yum uppfærslukerfið og yum notast við svokölluð “repositories” eða pakkasöfn til að nálgast efnið.

Fedora Core 5 kemur forstillt með pakkasöfn sem úthlutað er af handahófi og er þá eiginlega spurning um heppni hvort hraðinn sé viðunandi eður ei. Þá er ágætt að eiga hauk í horni sem kallast www.fedora.is sem er með Fedora pakkasöfnin innanlands.
Einnig er að finna á fedora.is svokallað Freshrpms pakkasafnið sem inniheldur marga pakka sem Fedora getur ekki dreift sjálft vegna lagalegrar óvissu svo sem mp3 stuðningur og fleira.

Einnig setjum við upp ýmis margmiðlunarforrit og gerum NTFS drif aðgengileg.

1. Um skeljanotkun og skráarvinnslu

Margar skipanir þarf að framkvæma sem root notandinn en hægt er að stökkva í rótarham með því að opna skel (terminal) og skrifa su - (ess u bil mínus) og ýta á Enter. Þá ertu beðinn um lykilorð og þú slærð inn rótarlykilorðið.
[jreykdal@tsunami ~]$ su -
Password:
[root@tsunami ~]#

Til að flakka um í skráarkerfinu í skel notar maður skipunina cd og svo slóðina sem maður ætlar að fara í.
[root@tsunami ~]# cd /home
[root@tsunami home]#

Til að fara upp um eina möppu í skel þá notar maður skipunina cd .. (cd bil punktur punktur).
[root@tsunami home]# cd ..
[root@tsunami /]#

Það kemur fyrir að slá þarf inn löng og leiðinleg skráarnöfn en það er hægt að láta skelina hjálpa sér við að fylla út nöfnin. Það er gert með því að skrifa fyrstu stafina í skráarnafninu og ýta á TAB takkan á lyklaborðinu og þá ætti skelin að klára nafnið eða sýna þau nöfn sem eru í boði.

Einnig þarftu að breyta textaskrám sem root og er frekar einfalt að gera það úr skelinni með ritlinum vim.
Prófaðu eftirfarandi til að læra einfalda notkun á vim.

opnaðu skel (terminal).
skrifaðu vi rusl.txt og ýttu á Enter.
Þá opnast vim ritilinn með hinni nýju skrá rusl.txt.
Þegar vim opnast þá er hann í skoðunar- og skipanaham og til þess að geta skrifað inn í skrána þá þurfum við að fara í “insert mode” sem er framkvæmt með því að ýta á stafinn i. Þá ætti að standa neðst niðri “–INSERT–”.
Þá geturðu skrifað af hjartans lyst í skjalið.

Þegar þú hefur skrifað nóg þá þarftu að fara úr “insert mode” yfir í skoðunar- og skipanaham og gerir þú það með því að ýta á Escape. Þá ætti “–INSERT–” að hverfa.
Til þess að framkvæma skipun í vim þarf að byrja á því að skrifa : (tvípunktur). Skipunin fyrir að vista er w (write) og til þess að hætta er q. Mundu að gerður er greinarmunur á stórum og litlum stöfum.

Sem sagt, til að vista skjalið skrifarðu :w og ýtir á Enter og þá ættirðu að sjá niðri eitthvað eins og “”rusl.txt" [New] 1L, 8C written".
Svo til að hætta í forritinu þá skrifarðu :q og ýtir á Enter.

Einnig er hægt að framkvæma skipanir saman eins og að vista og hætta og skrifar þú þá :wq og þá vistast skjalið og þú hættir í forritinu.

Munið:
vi skráarnafn
i til að fara í insert mode
Esc til að hætta í insert mode
:wq til að vista og hætta.

Ekkert svo flókið. :)

2.Pakkasöfnin fyrir Fedora Core, Fedora Extras, Uppfærslur og Freshrpms á www.fedora.is

Eins og áður sagði kemur Fedora Core 5 forstillt með handahófskenndum uppfærslupakkasöfnum og því þurfum við að slökkva á þeim pakkasöfnum og bæta við fedora.is pakkasöfnunum.

Farið er eftir leiðbeiningum Fedora.is.


Hvernig stilla skal Fedora Core 5 vél til að nota fedora.is spegilinn:

#1: Fara inn í /etc/yum.repos.d Þar eru nokkrar skrár:
-rw-r–r– 1 root root 840 mar 14 23:20 fedora-core.repo
-rw-r–r– 1 root root 1549 mar 14 23:20 fedora-development.repo
-rw-r–r– 1 root root 780 mar 14 23:20 fedora-extras-development.repo
-rw-r–r– 1 root root 763 mar 14 23:20 fedora-extras.repo
-rw-r–r– 1 root root 486 mar 14 23:20 fedora-legacy.repo
-rw-r–r– 1 root root 790 mar 14 23:20 fedora-updates.repo
-rw-r–r– 1 root root 865 mar 14 23:20 fedora-updates-testing.repo

MIKILVÆGT er að breyta “enabled=1” í fedora-core.repo, fedora-extras.repo
og fedora-updates.repo í “enabled=0” til að tryggja að yum sæki ekki pakka
af erlendum þjónum. “grep enabled *” í þessari möppu er góð leið til að
finna hvort erlendir miðlarar eru virkir.

Framkvæma svo eftirfarandi:
cd /etc/yum.repos.d
wget http://www.fedora.is/stillingar/5/fedora.is-core.repo
wget http://www.fedora.is/stillingar/5/fedora.is-extras.repo
wget http://www.fedora.is/stillingar/5/fedora.is-updates.repo
wget http://www.fedora.is/stillingar/5/freshrpms.is.repo

Þessar skrár innihalda yum stillingar sem nota fedora.is spegilinn.

#2: Setja inn freshrpms.net, Fedora og Fedora Extras lyklana.

setja þá inn t.d. með:

rpm –import /usr/share/doc/fedora-release-5/RPM-GPG-KEY
rpm –import /usr/share/doc/fedora-release-5/RPM-GPG-KEY-fedora
rpm –import /usr/share/doc/fedora-release-5/RPM-GPG-KEY-fedora-extras
rpm –import http://www.fedora.is/freshrpms/RPM-GPG-KEY

Ekki er þetta mjög flókið

Svo til að uppfæra kerfið skrifarðu yum update í skel og þá ætti slatti af uppfærslum að sýna sig.
Einnig er hægt að nota nýja uppfærsluforritið Pup sem hægt er að nálgast úr valmyndum.

3. Macromedia Flash pakkasafnið

Eins og áður sagði leyfir Macromedia ekki speglun á Flash pökkunum sínum en er þó með yum pakkasöfn í samstarfi við lykilfólk í Fedora verkefninu. Til að setja inn Flash pakkasafnið og setja inn Flash þarf að gera eftirfarandi (sem root).
cd /etc/yum.repos.d
wget http://macromedia.mplug.org/macromedia-i386.repo
yum install flash-plugin

Yum biður svo um að setja inn lykil fyrir macromedia pakkasafnið og þú samþykkir það. Svo þarftu að samþykkja notkunarskilmálana og endurræsa svo Firefox til að Flash virki rétt.

4. Margmiðlun

Af ýmsum lagalegum ástæðum kemur Fedora Core ekki fullbúin fyrir margmiðlun “úr kassanum” og þarf því að bæta úr því með hjálp freshrpms.

Opnið skel sem root og setið inn eftirfarandi pakka til að hressa aðeins við kerfið með skipuninni “yum install pakkanafn”. Athugið að hægt er að setja inn marga pakka í einu með því að gera “yum install pakkanafn pakkanafn pakkanafn” og svo framvegis.
Ef það vantar einhverja pakka sem pakkinn þarf á að halda þá sér yum um að sækja þá úr þeim pakkasöfnum sem sett eru upp.

Pakkar sem gott er að hafa inni (ekki tæmandi listi):
mplayer (vídeóspilari sem getur spilað margt)
ogle (DVD spilari)
ogle_gui (viðmót fyrir ogle)
xmms-mp3 (mp3 stuðningur fyrir xmms tónlistarspilarann)
bmp-mp3 (mp3 stuðningur fyrir Beep tónlistarspilarann)
videolan-client (VLC vídeóspilarinn góðkunni)
gstreamer08-plugins-extra-audio (viðbætur fyrir gstreamer margmiðlunarkerfið)
amarok (einn flottasti tónlistarspilari í heimi. Þarf KDE kerfið.)

Skipunin í heild sinni væri sem sagt:
yum install mplayer ogle ogle_gui xmms-mp3 bmp-mp3 videolan-client gstreamer08-plugins-extra-audio amarok

Þessir pakkar draga svo með sér fullt af aukapökkum þannig að þetta gæti tekið smá tíma, sérstaklega ef amarok er settur inn án þess að KDE grunnkerfið sé til staðar.

Til þess að geta notað svo mplayer til fulls er gott að setja inn codeca pakka svo að hann geti spilað myndbönd af ýmsum toga.
Slíkan pakka er t.d. að finna hérna en til að setja hann inn þarf að gera eftirfarandi:

wget http://static.hugi.is/essentials/codecs/video/mplayer/all-20050412.tar.bz2
tar -xvjf all-20050412.tar.bz2
cd all-20050412
cp * /usr/lib/win32

Að lokum sækjum við vibót fyrir Firefox sem tengist mplayer til að spila sem dæmi Fyndnar klippur á www.hugi.is/hahradi
Viðbótin heitir mplayerplug-in og finnum við hana á http://mplayerplug-in.sf.net/download.php
Gallinn er að þegar þetta er skrifað er ekki komin inn útgáfa fyrir Fedora Core 5 en ég smíðaði útgáfu sem virðist virka og hægt að notast við hana tímabundið þar til að forritararnir koma með alvöru útgáfu. Þessa tímabundnu útgáfu má finna hérna en ég ábyrgist alls ekki virknina.

Annars eru svona rpm pakkar settir inn með skipuninni “rpm -ivh nafnápakka” og munið að það er hægt að nota TAB til að flýta fyrir innslætti á löngum titlum.

5. NTFS stuðningur

RedHat og núna Fedora hafa aldrei haft NTFS (Windows NT/2000/XP/2003 skráarkerfið) stuðning inni í sínum kjörnum og þarf því að bæta honum handvirkt við. Hægt er að nálgast RPM pakka fyrir Fedora á www.linux-ntfs.org.
Til þess að geta sett inn þessa pakka þarftu að vita hvaða kjarnaútgáfu þú ert með og gerum við það með skipuninni “uname -a”.
[root@tsunami ~]# uname -a
Linux tsunami 2.6.15-1.2054_FC5smp #1 SMP Tue Mar 14 16:05:46 EST 2006 i686 i686 i386 GNU/Linux

Þarna kemur fram að ég er að keyra 2.6.15-1.2054_FC5smp útgáfuna af kjarnanum en þessi útgáfa breytist með uppfærslum og slíku þannig að þú verður að athuga hvað þú ert að keyra.

Ég sæki viðkomandi skrá sem í mínu tilfelli heitir “kernel-module-ntfs-2.6.15-1.2054_FC5smp-2.1.26-0.rr.10.0.i686.rpm” og ég set hana inn með rpm -ivh.
[root@tsunami ~]# rpm -ivh kernel-module-ntfs-2.6.15-1.2054_FC5smp-2.1.26-0.rr.10.0.i686.rpm
Preparing...                ########################################### [100%]
   1:kernel-module-ntfs-2.6.########################################### [100%]
[root@tsunami ~]#

Athugið að þar sem að NTFS driverinn er tengdur kjarnanum þá þarf að sækja nýjan rpm pakka í hvert skipti sem kjarninn er uppfærður.

Svo þarf ég að ákveða hvert ég ætla að setja Windows skráarkerfið hjá mér og ég hef vanið mig á að setja slíkt undir /media en aðrir setja það undir /mnt.
Ég bý til möppu undir /media til að tengja windows diskinn inn á og opna aðgang að henni fyrir öllum.
[root@tsunami ~]# cd /media
[root@tsunami media]# mkdir windows
[root@tsunami media]# chmod 777 windows
[root@tsunami media]#

Svo prófum við hvort NTFS driverinn virki ekki rétt og slíkt með því að tengja windows diskinn á /media/windows og förum inn, listum skrár, förum út aftur og aftengjum.

[root@tsunami media]# mount -t ntfs /dev/sda1 /media/windows/
[root@tsunami media]# cd windows
[root@tsunami windows]# ls
Hérna á að koma innihald windows disksins.
[root@tsunami windows]# cd ..
[root@tsunami media]# umount windows
[root@tsunami media]#

Athugið að í mínu tilfelli er ég með serial-ATA diska og því koma hörðu diskarnir fram sem /dev/sdaX en ef þú ert með venjulegt ATA (IDE) þá kallast þeir /dev/hdaX (X er númer disksneiðarinnar). Windows er sem sagt á fyrstu diskneið fyrsta disks hjá mér.

Næst göngum við frá því að drifið sé mountað í ræsingu og að venjulegur notandi geti komist inn á það.
Farið í console, rótarréttindi sótt, farið í /etc möppuna og skráin fstab opnuð með vi:

[jreykdal@tsunami ~]$ su -
Password:
[root@tsunami ~]# cd /etc/
[root@tsunami etc]# vi fstab

Í fstab skránni er skilgreint hvar diskahlutarnir lenda í skráarkerfinu og ýmsar stillingar.
við förum neðst í skjalið, förum í insert mode og bætum við eftirfarandi línu:

/dev/sda1        /media/windows     ntfs,  ro,umask=0222  0 0

Munið eftir því að breyta sda í hda eftir ykkar þörfum.

Athugið að bilin á milli eru gerð með TAB en ekki bilslánni.
Svo vistið þið skrána (ýtið á ESC, skrifið :wq og ýtið á enter).
Núna á að vera hægt að gera bara “mount /media/windows” en galdurinn gerist sjálfkrafa við næstu ræsingu. Prófaðu að fara í gegnum skráarkerfið með grafísku viðmóti sem venjulegur notandi og athugaðu hvort þú komist ekki í skjölin.


Núna ætti þetta að vera sæmilega fjölhæf uppsetning fyrir margskonar notkun.

Þakka þeim sem lásu.
JReykdal