Fedora Core 5: Uppsetning (með myndum) Til þess að setja upp Fedora Core 5 þarftu eftirfarandi:
Diska með stýrikerfinu en þá er hægt að sækja þá á www.fedora.is .
Til að nálgast DVD diskamynd þarf að fara í gegnum FTP þjón fedora.is (ftp.fedora.is) þar sem að Apache vefþjónar eldri en útgáfa 2.2 ráða ekki við skrár stærri en 2GB. Diskamyndirnar eru svo brenndar á geisladiska eða DVD með því að nota “burn image” aðgerðina í Nero eða öðrum skrifaraforritum.

Einnig þarftu að vera með tölvu sem hefur annað hvort ekkert stýrikerfi, lausan harðan disk eða laust pláss á hörðum disk. Þessi grein fer ekki út í hvernig hægt er að losa um pláss á hörðum disk og minnka windows disksneiðar en ég bendi á forritið Partition Magic.

Tölvan er stillt á að ræsa upp af geisladrifi (gert í BIOS), fyrsti diskur eða DVD diskurinn settur í drifið og haldið er af stað.

Fyrst kemur upp lítil valmynd sem hægt er að nota til að setja inn skipanir fyrir uppsetninguna en við látum það eiga sig núna og höldum bara beint af stað. Ýtið á Enter þegar þið sjáið boot: á skjánum.

Þegar spurt er hvort þið viljið láta villuprófa uppsetningardiskana þá má sleppa því í fyrstu tilraun (tekur óratíma) en hægt er að nota það síðar ef grunur er um að eitthvað sé að diskunum (en vonum að slíkt gerist ekki).

Þá ræsist að lokum Anaconda uppsetningarviðmótið.
Mynd: Fyrsti skjárinn þar sem gefur að líta nýtt lógó Fedora

Næst er valið tungumál og að sjálfsögðu veljum við íslensku.
Mynd: Mikil vinna hefur verið lögð í þýðingar á Fedora Core í sjálfboðavinnu
Mynd:Íslenskt lyklaborð kemur sjálfvalið ef við veljum íslensku sem tungumál

Næst er valið að setja upp nýtt kerfi eða uppfæra núverandi. Þeir sem eru með eldri útgáfur af Fedora geta valið uppfærslu en við setjum upp nýtt núna
Mynd: Uppsetning eða Uppfæra.

Núna kemur að því eina sem kalla má flókið og þarfnast smá hugsunar en það er diskasneiðing (partitioning).

Linux kerfi gera út á að lágmarki tveimur diskasneiðum. Eina fyrir kerfið og eina fyrir diskminni (swap). Hægt er að fara mun flóknari leiðir. Boðið er upp á nokkra valmöguleika en þar sem ég hef mínar hugmyndir um hvernig ég geri þetta þá vel ég “custom layout”.
ATH! Gætið vel að hvað þið veljið þarna ef þið eruð að setja upp á vél samhliða öðru stýrikerfi!
ENGIN ÁBYRGÐ ER TEKIN Á ÞVÍ EF ÞIÐ SKEMMIÐ EITTHVAÐ!

Ef þið eruð að setja upp á sér vél þá er ágætt að láta kerfið ráða þessu fyrir ykkur.
Mynd: Ég vel sérsniðna sneiðingu og ætla bara að nota A harða diskinn (sda)
Mynd:Um 40GB laust pláss á sda.
Mynd:Ég bæti við disksneið fyrir diskminni (swap) og nota þumalfingurregluna um að stærðin á því er tvöfalt innra minni vélarinnar.
Mynd: Þetta mun verða Desktop vél og þar af leiðir set ég gott pláss fyrir /home og á sér diskasneið.
Það að setja /home á sér diskasneið getur verið þægilegt. Auðvelt er að setja upp nýtt kerfi á vélina en öll gögn á /home eru látin ósnert og þar með allar þínar persónulegu stillingar fyrir t.d. póst, bookmarks og svo framvegis.

Mynd:Næst bý ég til sneið fyrir rótina sjálfa (/) og læt hana fá allt pláss sem er eftir
Uppsetningin hjá mér er því eftirfarandi:
Diskur sda:
sda1 er um 200GB (Windows)
sda2 er um 16GB (rótarskráarkerfi linux eða / )
sda3 er um 20GB (heimasvæði notenda eða /home)
sda4 er svokallað extended partition sem getur innihaldið margar disksneiðar.
sda5 er svo 2GB (swap).

Mynd: Svona lítur uppsetningin út

Mynd: GRUB ræsistjórinn er settur upp á fyrsta diskinn (/dev/sda) með Windows XP sem sjálfgefna kerfið
Aðrir fjölskyldumeðlimir nota þessa tölvu meira en ég og þeir nota Windows. Ég þurfti að smella á “breyta” til að breyta nafninu í Windows XP en annars heitir það “Other”.

Mynd: Netuppsetningin
Flestir hafa í dag ADSL beina sem nota DHCP til að úthluta IP-tölum og slíku og því snerti ég ekki við þessu.

Mynd:Tímabeltið valið. Atlantshafið/Reykjavík er forvalið út af tungumálinu
Ég haka við “klukkan í vélinni er á UTC” því Ísland er nánast eina landið í heiminum sem er alltaf á UTC (Coordinated Universal Time).
Mynd: Hægt er að stækka landakortið til að ná að hitta betur á réttan stað

Mynd: Lykilorð rótarnotandans (root) er valið. Veljið það vel og hafið það öruggt.

Næst er komið að því að velja hugbúnaðinn sem setja á inn með kerfinu. Boðið er upp á forvalda pakka auk þess sem það er hægt að sérsníða pakkavalið.
Ég vel að setja inn “Hugbúnaðarþróun” og svo vel ég frekari sérsnið til að setja inn nokkra hluti sem ég vil fá inn aukalega.
Mynd: Hugbúnaðaruppsetningin

Gnome er sjálfgefna viðmótið með Fedora en auðvelt er að setja inn KDE með sérsniðinu og er það bara eitt hak.
Mynd: Nánari valmynd fyrir hugbúnaðaruppsetningu

Mynd: Þá er kerfið tilbúið til að setja inn stýrikerfið.
Enn sem komið er hefur ekkert verið átt við tölvuna og hefst það ferli núna.
Mynd: Skráarkerfið forsniðið
Mynd: Pakkar settir inn. Þetta tekur frá 15-45 mínútum og fer eftir hraða vélarinnar.
Mynd: Uppsetningu lokið.

Næst er svo endurræst og kerfið ætti að rúlla af stað því næst og þá kemur að stillingum fyrstu ræsingar.
Mynd: Fyrsta ræsing
Mynd: Hinir óumflýjanlegu notkunarskilmálar
Ólíkt öðrum notkunarskilmálum fyrir stýrikerfi þá líður manni ekki illa eftir að hafa samþykkt þessa.
Mynd: Stillingar eldveggs
Ég hef opið fyrir SSH og Samba inn á vélina en annað er lokað og læst.

SELinux er öryggiskerfi sem ættað er frá NSA. Þetta er mjög öflugt og öruggt kerfi sem byggist upp á að negla enn harðar niður hver má gera hvað. Ég hef það í gangi því það er öruggara og það er sett þannig upp að það flækist ekki fyrir manni í daglegri notkun. Ítarlegri skýringar á SELinux er samt efni í aðra grein.
Mynd: SELinux stillingar
Mynd: Klukkan athuguð
Klukkan orðin allt of margt hjá mér :)
Mynd: Stillingar fyrir grafíska viðmótið
Mynd: Kerfisnotandi settur upp
Það er regla að nota venjulegan notanda í alla daglega vinnslu og fara einungis í rótarham tímabundið til að stjórna kerfinu þegar við á. Annað er bara vitleysa.

Þá er stillingum lokið og kerfið er tilbúið til þess að skrá sig inn sem notanda.

Næstu skref eru svo að setja upp örfáa hluti sem gera lífið þægilegra og skemmtilegra en það er efni í næstu grein um Fedora Core 5.
JReykdal