Jæja! Eftir tveggja vikna slag við netkortið mitt hef
ég getað fengið eitthvað annað distro í gang annað en
Debian.

Ég setti upp Mandrake, og eins og kunnugir vita getur
Mandrake verið svoddan sorp. Svo ég ákvað að prófa
eitthvað nýtt, og prófaði dreifingu sem ber heitið
“ROOT Linux” og er við þessi rit í útgáfu 1.2.

ROOT Linux er byggt á Slackware, sem miðar meira við
BSD uppsetningu heldur en SystemV uppsetningu eins og
nánast öll önnur distro.

Uppsetningin er frábær. Hún er einföld, hrein, gerir
það sem gera þarf, ekki minna og ekki minna. Jafnvel
það að haka við allt og að velja alla pakka er mjög
fínt vegna þess að maður er eingöngu spurður um pakka
sem skipta nokkru máli. Þ.e.a.s. það er grófara en
t.d. í RH/Mandrake/Debian, þar sem þú ert beðinn um
að annaðhvort fara grófustu eða fínustu leiðina.

Hún leitaði að netkortinu mínu og fann reyndar 8390,
sem er einmitt kolrangt. En við öðru var varla að
búast, þetta er (Tulip-like) Xircom R2BE PCMCIA kort,
og eina distroið sem hefur skynjað það rétt var
Mandrake. Það vill svo til einmitt með Mandrake að
það er rokk innsetning, en á restina er einmitt
áberandi ábótavant.

Allavega, græjan spyr mig hvort ég eigi DVD drif. Það
kom mér skemmtilega á óvart, en því miður er ég ekki
eigandi slíks drifs svo ég gat ekki svarað því
játandi.

Ég stilli mína IP tölu og stilli mitt drasl *áður* en
hún spyr mig hvort hún eigi að skanna eftir netkorti,
sem þýðir einmitt að maður þarf ekki að hafa áhyggjur
af því að allt configið hverfi ef græjan finnur ekki
netkortið eftir allt saman.

Dreifingin kemur með hreinum 2.4.5 kjarna sem er bæði
mjög nýlegur, og ó-patchaður. Þetta þýddi auðvitað að
ég gat farið beint í /usr/src/linux og vistþýtt
kjarna með þeim reklum sem ég þurfti. Ekkert var
ábótavant að þróunartólum (þar sem ég hafði jú að
sjálfsögðu hakað við ‘Development’ í innsetningu).

Ég valdi að hafa KDE með, og XFree86 4 (að sjálfsögðu,
enda karlmenni). Þá kom reyndar eitt leiðindafyrirbæri
í ljós. Græjan notar gamla ‘xf86config’ tólið sem
fylgir Slackware, og þó að félagi minn hafi í sama
herbergi verið að fá það til að virka, náði ég frekar
í skrá mína af Netinu frá öðrum sem eiga Inspiron
5000 (þar sem Dell I5K er einmitt með hina
pervertísku 1400x1050 skjáupplausn).

Netuppsetningin er frábær. Inni í /etc/rc.d eru skrár
fyrir hvert “interface”. rc.inet1 (fyrir localhost) og
rc.inet2 (fyrir eth0). Allt þar inni er mjög
skiljanlegt og mjög auðbreytanlegt, svo maður þarf
ekki að synda í gegnum mörg kílóbæti af þvaðri eins og
t.d. í Red Hat. Reyndar fíla ég persónulega betur
netuppsetninguna í Debian, en þessi er þó litlu eða
engu síðri.

Ekkert fór inn af pökkum sem ég valdi ekki með í
innsetningu (sem gerist einmitt nánast
undantekningalaust þegar mðaur t.d. setur inn RH eða
Mandrake), og ekkert vantaði heldur. Auðvitað mætti
taka aðeins til eins og alltaf, en aldrei hef ég séð
distro ganga jafn snyrtilega frá sér.

Þegar ég síðan kom inn í KDE sá ég einfaldan, lítinn
lista yfir hvaða skjástjóra ég vildi. Sem karlmanni
(eins og áður var tekið fram) tók ég að sjálfsögðu
KDE, og viti menn! Það er *ekki* með pínulítinn
taskbar, það er *ekki* allt baðað í drasli sem ég hef
ekkert við að gera á skjáborðinu, og það kom með
anti-aliasing með. Sem er notlega æði. Það vantar
reyndar Íslensku þýðinguna í þetta eins og skilja
getur, en Íslenska lyklaborðið fór auðvitað strax í
gang eftir viðkomu í Control Panel.

Ég get eiginlega ekki lýst því nákvæmlega hvað það er
sem er svona heillandi við þetta distro, en núna
eftir klukkutíma notkun er ég gáttaður á því hversu
hreint er gengið til starfa og allt er haft á
útreiknanlegum og góðum stað.

Mæli endilega með því að menn prófi þetta. Allur
hugbúnaður er mjög nýlegur og þó að Slackware sé nú
ekki kennt við vinnustöðina, myndi ég kenna þetta
distro við það að vera sem næst góðri vinnustöð og
Linux kemst.