Evrópskir lesendur tímaritsins Reader´s Digest hafa útnefnt Linus Torvalds, höfund Linux-stýrikerfisins, Evrópubúa ársins 2001.

Janúarblað tímaritsins lýsir Torvalds, sem er 31 árs, sem einmana, hlédrægum snillingi sem á stóran þátt í að móta tölvunotkun alheimsins.

Ritstjóri Reader´s Digest, Eric W. Schrier, segir Linus Torvalds hafa unnið ótrúlegt afrek með uppgötvun sinni. Hann sagði Torvalds hafa nýtt sér tækifærið og hannað stýrikerfi sem var aðgengilegt almenningi, jafnvel áður en Netið varð þekkt.

Torvalds hannaði Linux-stýrikerfið árið 1991. Hann er finnskur en er búsettur í Kaliforníu og starfar hjá Transmeta Corp. Hann er að margra mati tæknigrúskari sem upp á eigin spýtur, að því er virðist, ögrar veldi Microsoft á tölvumarkaðnum.

Í viðtali við Reader´s Digest sagðist Torvalds ekki vera í nöp við Microsoft. ?En ég er hlynntur Darwinisma. Ég trúi því að betra stýrikerfið muni að lokum standa uppi sem sigurvegari," sagði Torvalds einnig.

Torvalds er sjötti maðurinn sem kjörinn hefur verið Evróumaður ársins. Verðlaunin hljóða uppá 10.000 bandaríkjadali.

Höfuðstöðvar Reader´s Digest eru í Bandaríkjunum en er dreift til 25 milljón manns og kemur út á 19 tungumálum.