Eftirfarandi bréf var sent menntamálaráðherra, Tómasi Inga
Olrich, þann 26. janúar kl. 22:10.

Hæstvirti menntamálaráðherra,

Fyrst ber að taka fram að þetta er opið bréf til þín og mun það ásamt svari þínu við því verða birt á vefsvæðinu www.hugi.is undir Linux
áhugamálinu (www.hugi.is/linux).

Í kjölfar nýrra (og að margra mati vafasamra) notkunarskilmála Microsoft
á vörum þess og nýlegrar niðurstöðu samkeppnisráðs um möguleg ólögmæti
þeirra á Íslandi
(http://www.samkeppni.is/akvardanir_alit_umsagnir/akvardanir/2002/akv2502.pdf)
hefur skapast umræða um hvort það sé möguleiki á því að breyta um áherslur í hugbúnaðarkaupum íslenska menntakerfisins og skipta yfir í svokallaðan frjálsan eða opinn hugbúnað eins og Linux í skólum landsins.

Ég ætla ekki að fara í langar útskýringar á fyrirkomulagi við framleiðslu á þessum hugbúnaði en frekar að minnast á kostnaðarhagræðingu vegna hans.

Í fyrsta lagi ber að nefna að leyfisveitingar Microsoft eru eingöngu
miðaðar við það að Microsoft gefur viðkomandi leyfishafa notkunarleyfi á
hugbúnaði sínum en ekki eignarétt og eru ströng skilyrði sett við notkun
hans. Einnig ber að geta að í bandaríkjunum hefur Microsoft ákveðið að miða gjaldtöku sína við allar þær tölvur innan skóla sem mögulega gætu
keyrt hugbúnað þeirra. Óþarfi er að taka fram að það geta verið nokkuð
margar tölvur innan hverrar stofnunar.

Ef notaður yrði opinn hugbúnaður þá yrði kostnaður minni á hverja vél og
margföldunaráhrif út í þjóðfélagið yrðu mikil ef nemendur myndu halda
áfram að nota opinn hugbúnað eftir að skólagöngu lýkur því verð þess
hugbúnaðar sem notaður er í Windows umhverfi í dag getur hlaupið á tugum þúsunda á hverja vél. Það eitt að nota aðra skrifstofuvöndla s.s. OpenOffice.org á Windows getur sparað mikinn pening.

Að sjálfsögðu yrði einhver kostnaður við endurmenntun kennara og þjálfun
nemenda á þessum hugbúnaði en í raun er notkun þeirra ekki ólík
Microsoft hugbúnaði og samhæfni við Microsoft hugbúnað er nánast
algjör.
Og að auki hefur það sýnt sig að þeir sem lært hafa á stýrikerfi
eins og Linux eiga mjög auðvelt með að aðlaga sig að öðrum kerfum s.s. Windows og MacOS.

Einnig verður að benda á að hægt er að fá opinn hugbúnað að fullu þýddan
á íslensku sem gert hefur verið í sjálfboðavinnu áhugasamra einstaklinga
án opinberra styrkja. Og ef ekki er þýðing fyrir hendi er í flestum
tilfellum auðvelt að þýða hugbúnaðinn því megnið af honum er framleiddur
með það í huga.
Að vísu stóð forveri þinn í starfi, Björn Bjarnason, fyrir áhugaverðri
tilraun með að þýða Windows umhverfið yfir á íslensku, en því miður tókst sú tilraun ekki sem skyldi vegna ýmissa ástæðna. Í dag er þannig fyrir þeirri útgáfu komið að ekki er hægt að gefa hana því enginn virðist vilja nota hana.

Einnig er opinn hugbúnaður talinn mun öruggari en sambærilegur hugbúnaður frá Microsoft og ef gallar finnast þá eru þeir lagfærðir nær undantekningalaust innan nokkurra daga í stað margra vikna eða aldrei
eins og margoft hefur gerst með vörur frá Microsoft. Einnig má benda á
að vírusar og skyld fyrirbæri eru mun sjaldgæfari í Linux.

Ég er ekki með þessu bréfi að berjast fyrir opnum hugbúnaði á allar
tölvur landsmanna heldur einungis að benda þér á þennan valmöguleika sem
að margra mati hentar afskaplega vel í menntakerfið. Get ég m.a.bent á ýmis norræn verkefni sem í gangi eru um þessar mundir (hlekkir í enda
bréfs).

Því spyr ég: Hver er stefna íslenskra stjórnvalda í þessum málum og hefur verið litið á opinn hugbúnað sem valmöguleika í íslensku menntakerfi? Er það á stefnuskrá stjórnvalda að gera könnun á þessum
valmöguleika fyrir íslenskt menntakerfi?

Fyrir hönd áhugasamra einstaklinga,
Jóhannes Reykdal



Hlekkir:
http://skolelinux.no/
http://www.linuxiskolen.no /
http://www.gnuskole.dk/
http://www.linuxiskolan.com /(svíþjóð)


Útlitsvillur eru af völdum huga en ekki mínar. :)
JReykdal