Sjálfshjálparhópur fyrir félagsfælna

Stofnun fyrsta sjálfshjálparhópsins hér á landi sem er eingöngu ætlaður fyrir félagsfælna:
Stofnfundurinn fer fram miðvikudagskvöldið 9. október kl. 20 í húsi Geðhjálpar.
Fundirnir verða semsagt á miðvikudagskvöldum í vetur í húsi Geðhjálpar, Túngötu 7.

Hvernig fer þetta fram?

Formið verður einfalt og frekar kerfisbundið. Hver og einn fær að tjá sig um sína líðan, hvað hann hefur gert í vikunni sem leið til að takast á við fælnina, hvað er framundan og hvaða skref hann hyggst taka í framhaldinu. Fólk er ekki skyldugt að tjá sig og segir bara pass eða bendir áfram ef það vill ekki tjá sig þegar það fær sitt tækifæri. Löggð er áherslu á að taka lítil skref fram á við. Áherslan er á nútíðina og á hluti sem skipta okkar bata máli. Þarna fara engir galdrar fram og skyndilausnir verða ekki á boðstólnum. Ákveðið þema verður á hverjum fundi sem hópmeðlimir ákveða sameiginlega t.d. sjálfstraust, skömm, fjölskyldutengsl og þunglyndi. Fundirnir verða ein og hálf klst. Byrja kl. 20 og enda 21:30. Í hálftíma eftir fundina gefst tækifæri fyrir hópmeðlimi að kynnast betur innbyrðis og styrkja tengslin. Þar hvet ég fólk að tala saman. Þar er hægt að tala um hvaðeina er hugurinn æskir. Húsið lokar kl 22. Þegar ákveðinn kjarni fólks hefur myndast verður smám saman farið út í hegðunaræfingar fyrir þá sem það vilja og treysta sér til, en það verður ekki fyrst um sinn.

Er þetta bara fyrir alvarlega veikt fólk?

Nei þetta er fyrir alla þá sem þjást af félagsfælni hvort sem vandamálið er mikið eða lítið. Þetta þýðir að fólk verður með mismikla félagsfælni á fundunum. Það sem einn getur er öðrum um megn. Hópurinn er fyrir þá sem vilja vinna í því að minnka sinn félagskvíða.. Margir eru óöryggir í hópnum og er það allveg eðlilegt en það mun örugglega draga úr því ef fólk mætir reglulega. Þarna getur fólk þjálfast í því sem því finnst erfitt eins og að tala fyrir framan aðra, sem skilja hvað þetta er erfitt.

Er þetta rétti hópurinn fyrir mig?

Ég ráðlegg félagsfælnum sem eru tilbúinir að vinna með sitt vandamál að gefa þessum hópi séns í 3 skipti og meta svo hvort fólk telji að hann geti hjálpað. Mjög óráðlegt er að mæta einu sinni og dæma svo eftir það skipti. Það gerist voða lítið á einum fundi. Fundirnir verða líka svoldið misjafnir eftir mætingu og hversu fólk er viljugt að tjá sig. Í svona hópi fær maður stuðning til að ýta sér áfram, skilning fólks sem hefur upplifað sama vandamál, deilir eigin reynslu með öðrum, fær að tjá sínar tilfinningar, mynda félagsskap og brjóta einangrun eða bara hlusta og æfa sig að vera innan um fólk. Þetta mun ekki kosta neina fasta upphæð en æskilegt er að fólk komi með lítil framlög einstaka sinnum sem fer í sjóð hópsins og stendur straum af smákostnaði er fellur til. Fjárhagur er engin hindrun fyrir þátttöku. Hugmyndir og framtak hvers og eins skipta máli. Í þessum hópi verður ekki hægt að verða sér til skammar því það skilja allir óöryggi annarra. Að vera óöruggur þarna er eðlilegt. Umburðarlyndi og tillitsemi verða í hávegum höfð.

Ég veit að það er stórt skref fyrir marga að mæta í svona hóp. Við fáum mörg skjálfta um okkur við það eitt að heyra orðið. En munið að í svona hópi er fólk sem er að fara í gegnum svipaða hluti og þið þ.e. félagskvíða við ýmsar aðstæður og er því mjög líklegt til að skilja ykkur umfram þann sem ekki hefur upplifað þetta. Það er hægt að minnka félagskvíða og er það eitt aðalmarkmið hópsins.
Ég tel að fólk eigi ekki að pína sig til að mæta en ákveðin ýtni getur verið nauðsynleg því það er svo miklu auðveldara jafnan að vera heima en að mæta þar sem í fyrstu er ókunnugt fólk. Gerið allt sem auðveldar ykkur að mæta. Fáið vini eða fjölskyldumeðlimi til að fylgja ykkur eða aðra sem þið kannist við og ætla að mæta. Sjálfir fundirnir eru þó eingöngu fyrir félagsfælna.

kærar kveðjur og vonast til að sjá einhver ykkar.

Elís V. Árnason
netfang: elli@isl.is
(s: 551 / 0243)