Í tilefni af kork sem ég var að lesa um talsettar myndir, verð ég að segja að ég er alveg sammála því að það ætti ekki að talsetja kvikmyndir á íslensku. Með því glatar persónan í myndinni miklu af sínum einkennum og húmor, fyrir utan það að setningar á íslensku eru sjaldan nákvæmlega jafn langar og sömu setningar á ensku, og eru þ.a.l. yfirleitt allt of langar eða allt of stuttar. Ég bjó í Þýskalandi í mörg ár og tala þýsku reiprennandi, en aldrei gat ég vanist því að heyra, eftir því sem ég best heyrði, sömu þrjá leikarana fara með öll hlutverk, og Friends… afsakið, “Freunde” voru bara ekkert fyndnir á þýsku. En þrátt fyrir að þýddir miðlar séu að mínu og margra annarra mati af hinu verra, finnst mér samt að við megum mörg hver hérna á Íslandi líta nær okkur í málrækt og verndun tungumálsins. Ég fór á mjög svo áhugaverða tungumálaráðstefnu í háskólanum á síðasta ári, og þá kom fram að 95% Íslendinga á aldrinum 18- eitthvað töldu sig tala ensku “mjög vel”. En sú enskukunnátta sem Íslendingar líta á sem “mjög góða” er í raun fremur lítil, og takmarkast nánast eingöngu við daglegt mál, en nær ekki til tækni-, stjórnmála-, viðskipta-, osfrv málfars. Enskukennarar í framhaldsskólum landsins taka í sama streng og einn slíkur talaði á ráðstefnunni, og fullyrti að það héldist mjög í hendur léleg íslenskukunnátta og léleg enskukunnátta. Það er að segja, þá nemendur sem töluðu hvað enskuskotnustu íslensku sökum skorts á orðaforða í móðurmálinu, skorti einnig helst orðaforða í ensku, og þeir hafa meiri tilhneigingu til að gera málfræðivillur á prófum.
Það er því ekki ofsögum sagt að góð kunnátta í eigin tungumáli er algjör undirstaða til þess að geta orðið góður í erlendum tungum. Ég er alveg sammála öllum þeim sem segja að góð enskukunnátta kemur sér vel og er mikilvæg í alþjóðasamskiptum, en finnst alls ekki að hún þurfi endilega að vera á “kostnað” íslenskunnar. Þannig að þeir sem vilja vera nútímalegir í hugsun og leggja rækt við tungumálakunnáttu sína ættu helst að byrja á því að fínpússa málfar sitt og losa sig smám saman við útlenskuslettur, og þá verða þeir betur í stakk búnir til að takast á við það vandasama verk að læra ensku “mjög vel” (það er að segja, í alvöru mjög vel).