Oftar en ekki hefur sú umræða skotið upp kollinum um staðalmyndir, tísku, og allt það sem ræður því hvernig okkur finnst að við eða aðrir eigi að vera. Í okkar stóra heimi sem þó virðist minnka og minnka með tækniframförum (internetið, bættar samgöngur o.fl.), virðist það vera fræga fólkið sem skapar þessar staðalmyndir, hvort sem það eru leikarar, tónlistarmenn eða fyrirsætur. Ósjálfrátt dæmum við svo út frá stjörnunum hvernig ,,venjulegt” fólk á að vera.

Mörgum finnst auðvitað ekkert nema fáránlegt að fylgja þessum staðalmyndum, en þó komumst við varla hjá því. Af eigin reynslu get ég sagt frá því að mér var alltaf heldur betur sama hvað fólki fyndist um mig, ég væri bara eins og ég er, ómáluð, með náttúrulegan háralit, í hljómsveitabolum og bara nokkuð strákaleg. Þegar ég var í níunda bekk fór að bera nokkuð á því að fólk héldi að ég væri strákur, t.d. afgreiðslukonurnar á flugvellinum, og einhver ókunnugur á Lækjartorgi sem orðaði það svo skemmtilega: ,,fyrirgefðu en ég hélt að þú værir karlmaður”. Takið eftir þessu: ,,karlmaður”. Mér brá örlítið í brún við þetta og varð í rauninni svolítið móðguð, mér sem hafði verið alveg sama þótt fólk gerði þessi mistök í fljótfærni. Eftir þetta fór ég að mála mig oftar, og klippti hárið á mér nokkuð stutt og litaði það, en ég hafði verið með nokkuð sítt hár. Nú hélt ég að ég væri komin í góða stöðu og ekki bólaði á þessum kommentum í þónokkurn tíma. Gerðist það svo að ég kíkti í partý með nokkrum vinum mínum, hjá fólki á tvítugsaldri sem ég hef aldrei hitt, og var ómáluð, í nokkuð stórri peysu og bara venjulegum hermannagrænum kvenmannsbuxum! Fékk ég svo að heyra það eftir partýið að hópur manna þarna hafi verið með veðmál um það hvort ég væri karlkyns eða kvenkyns! Ég lá næstum því í þunglyndi allt kvöldið og hugsaði mikið um þetta næstu dagana, ef ekki vikurnar. Mér fannst að ég væri kærastanum mínum til skammar og fékk þá tilfinningu að fólk sæi mig allt öðruvísi en ég hélt.

Þetta er gott dæmi um það að sama þó svo við reynum að líta framhjá fyrirmyndunum þá komumst við ekki hjá því að reyna að líkjast þeim, því það gengur ekki að einn eða tveir geri það, það verða allir að gera það. Þar sem allir í kringum mig voru með þá ímynd í huganum að stelpa ætti að vera máluð, helst með strípur og ,,stelpu-klippingu” eða í pilsi, fékk ég ekki færi á því að vera eins og ég vildi vera. Auðvitað hefði mér alveg getað verið sama um þessa dóma, en ég er ekki þannig gerð, mér var farið að líða virkilega illa út af þessu og sjálfsálitið hrapaði niður um nokkrar hæðir.

Einnig vil ég nefna það hversu fljótfært og dómhart fólk getur verið. Ég hef tekið eftir því í kringum mig að fólk dæmir manneskju sem það þekkir ekkert, eftir kannski fötunum sem hún gengur í, hvernig hún talar, eða við hvaða fólk hún talar. Sem dæmi um þetta get ég nefnt það að stelpa sem ég þekki var úti að reykja um daginn og sá vin minn reykja og hósta. Kom hún svo inn og spurði vinkonu mína hvaða ógeðslega wannabe þetta væri(semsagt wannabe cool að vera að reykja). Mér fannst þetta auðvitað heimskulegt þar sem hún vissi ekkert af hverju hann var að hósta. Svona ykkur til fróðleiks þá var hann búinn að vera með hálsbólgu og hósta sem hann er ekki enn búinn að jafna sig á. Þarna var hún búin að stimpla hann viljaveru út frá þessu eina skipti sem hún sá hann hósta. Þetta er ekkert nema rökleysa og bið ég fólk um að forðast slíkar fordæmingar. Fólk þarf í alvörunni að hugsa út í það að dæma fólk ekki út frá einhverju sem það vill ekki sjálft vera dæmt út frá.

Að lokum vil ég minna fólk á það hversu mikilvægt það er að hugsa með opnum huga og tilgangsleysi þess að dæma aðra vegna fáránlegra hluta, og baktala svo út af einhverju sem mætti svo auðveldlega sleppa. Ég vona að fólk taki verulegt mark á því sem ég hef að segja og reyni að bæta hag sinn ef þörf er til þess.
“I'm one of those regular weird people” - Janis Joplin