Síðan Microsoft tilkynntu heiminum að þeir ætluðu að stíga inn í leikjatölvuheiminn hefur þeim ýmist verið tekið með nokkurri ró og velþóknun eða skæðu hatri vegna fyrri afreka. Ég sjálfur hef ávallt tilheyrt fyrri hópnum og verið nokk rósamur þegar umræða um XBox hefur verið í gangi og hef aldrei haft neinn sérstakan móral út í Microsoft.

Nú hinsvegar byrjar ný sýn að opnast fyrir mér: Að Microsoft ætlar að halda áfram fyrri starfsháttum í hugbúnaðarheiminum og koma með þá inn í leikjatölvubissnessinn: Að kaupa út samkeppnina. Nú skal höfundur viðurkenna að bæði Sony og Nintendo, sem hann hefur haldið hollustu við hingað til(ekki af fanboyisma þó), hafa að sjálfsögðu líka tekið yfir fyrirtæki sem þeim líkar við til að tryggja markaðsstöðu sína. Nýlegt dæmi er kaup Nintendo á Retro Studios sem framleiðir fyrir þá leikinn Metroid Prime. Á síðustu vikum hefur Microsoft hinsvegar keypt Rare, sem hefur lengi verið dyggur Nintendo framleiðandi(ég geri mér þó að sjálfsögðu grein fyrir að Nintendo klúðraði svolítið þeim málum sjálfir), og nú virðast Microsoft ætla sér að setja klærnar í Capcom sem hefur verið mér ástkært síðan fyrsti Mega Man leikurinn kom út. Ég er ekki endilega að segja að Microsoft sé nú að vaða yfir okkur með djöfulgangi heldur langar mig að spyrja hvort öðrum finnist þetta vera aðeins of yfirþyrmandi. Ég sjálfur er í það minnsta ansi fúll og er kominn með þó nokkra biturð út af þessu máli. Er einhver annar á sama máli, hvort sem er Nintendo eða Sony loyal(eða bara bæði að sjálfsögðu)?