Oddworld: Stranger's Wrath [XBOX] Þú ert the Stranger (sá Ókunnugi) og þú eltir uppi eftirlýsta glæpamenn; mannveiðari sem veiðir ekki menn og er ekki heldur mennskur sjálfur. Líklega eru engir menn í Oddworld heiminum, en það er heimurinn sem persóna okkar lifir í. Það eru til fleiri leikir sem gerast í Oddworld heiminum og er leikurinn sem ég skrifa um, “Oddworld Stranger’s Wrath”, sá nýjasti í seríu leikja sem kenna sig við Oddworld heiminn og eru gerðir af leikjastúdíóinu “Oddworld Inhabitants”. Fyrri Oddworld leikir eru t.d. “Abe’s Oddworld” og “Munch's Oddyse”.
Oddworld sem þýðir furðuveröld er hentandi nafn fyrir leikina, því veröldin er vægast sagt stórfurðuleg og ágætis dæmi um gott hugmyndaflug. The Stranger, aðalpersónan, er einhverskonar vera sem mætti lýsa sem einhverskonar blöndu af elg og Clint Eastwood-týpu kúreka; harðgerð, tóbakstyggjandi og gengur með hatt. Mjög ólík persóna frá aðalpersónum fyrri Oddworld leikja.

"Stranger’s Wrath" er fyrstu persónu skotleikur með þriðju persónu hasar og ævintýra eiginleikum í sér. Spilunn leiksins gengur að mestum hluta út á að drepa eða fanga eftirlýsta glæpamenn og skila þeim í bæjarfangelsið gegn verðlaunafé. Maður fær verkefnin á stöðum er nefnast ´bounty store´ (verðlaunafés verslun) í þeim bæjum sem eru í leiknum. Bæirnir eru einskonar bækistöðvar leiksins, þar getur maður uppfært skotfæri, spurt sér til vegar, fengið upplýsingar um óvini sem maður á að ná og fleira. Flestir óvinir í leiknum eru einhverskonar ljót froskmenni; vopnaðir öllu frá hnífum upp í sprengjuvörpur og vélbyssur. Til að ná óvinunum, notar maður ekki byssu, heldur lásaboga. Sá lásbogi er eina vopn spilara leiksins (þó er hægt að nota hnefana og aðra hluta líkama the Stranger til ofbeldis), en þetta er enginn venjulegur lásbogi með örvum. Þessi er tvíhleypa (ef segja má boginn sé með hlaup) og í hann eru aðeins notuð lifandi skotfæri, sem er skemmtileg tilbreyting frá þeim dauðu skotfærum sem notuð eru venjulega í skotleikjum (byssukúlum). Skotfærin eru margvísilegar lífverur, má þar nefna: íkorna sem tælir til sín óvini, skúnka sem notaðir eru sem efnavopn, rafmagnaðar flugur sem rota óvini, kóngulær sem spinna óvini í vef og geitunga sem skjótast út úr boganum á ógnahraða eins og vélbyssa, stingandi óvininn til dauða.
Fjölbreytileiki skotfærana bíður upp á ýmsar skemmtilegar aðferðir við að sigra óvini. Þó er oft þægilegast að fara í þriðju persónu og einfaldlega hlaupa niður óvini og þar með rota þá, eða þá berja þá með hnefunum, en venjulegur óvinur rotast yfirleitt fljótlega. Þegar óvinurinn er rotaður eða dauður þá sogar maður hann upp í sekk með einhverskonar sugu og þar verða þeir uns maður skilar þeim í bæinn til að fá greitt fyrir; það er greitt hærri upphæðir fyrir lifandi óvini en dauða, en í staðinn er erfiðara að ná þeim lifandi. En það borgar sig að leggja það á sig að ná þeim lifandi fyrir meiri pening til að geta keypt dýrar uppfærslur fyrir skotfærin. Það er í helstu atriðum spilunn fyrri hluta leiksins, fyrir utan nokkrar hopp og skopp þrautir inn á milli. Seinna í leiknum breytist gangur hans og fer persónan að sinna öðrum takmörkum, eins og að hljálpa þjóðflokk lítilla skrítinna vera í útrýmingarhættu að komast af og verjast illu stórfyrirtæki; og fær persóna okkar til verksins ógurlega brynju og bát.

Stór hluti leiksins gerist á eyðimerkursvæði með þema frá villta vestrinu og eru þar oft stór opin svæði, en einmitt um það leiti sem maður er að verða þreyttur á því umhverfi færist leikurinn yfir í líflegt, grænt og fallegt skógarumhverfi. Seinna í leiknum mætir maður öðruvísi umhverfum, eins og snjó, en leikurinn missir þó aldrei villta vesturs fílinginn. Öll eiga svæði leiksins það sameiginlegt að vera mjög flott, lifandi (sandstormar í eyðimörk, lauf falla af trjánum, flugur fljúga um, ryk og kóngulógarvefir í húsum) og tölvan keyrir þau öll mjúklega, það er sjaldan sem aldrei hökt eða eitthvað álíka leiðinlegt. Eins er með útlit og lífgun persóna leiksins, þær eru vel teiknaðar og eru hreyfingar þeirra yfirleitt eðlilega útlítandi. Ýmsir hlutir leiksins eins og rúður, tunnur, grindverk eru eyðileggjanlegir og er lýsing, skuggar og sprengingar flottar í leiknum. Það eru nokkur myndbönd í leiknum og eru þau vel gerð.

Hljóðvinnsla leiksins er mjög góð og leikurinn styður “Dolby Digital” hljóðútsetningu, þannig að þeir sem hafa heimabíókerfi geta notið leiksins mun betur. Leikurinn er talsettur skemmtilega, mikið af húmor í samtölum, til dæmis má nefna að viss skotfæri (þau eru öll lifandi) segja móðgandi hluti við aðalpersónuna og gera gys að henni. Tónlistin í leiknum er fín, einhverskonar blanda af gítarglamri með villta vesturs hljómi við hraðstemmda raftónlist og passar hún vel við fíling leiksins.

Í heildina er “Oddworld Stranger’s Wrath” mjög góður og frumlegur leikur sem sameinar ýmsar tegundir spilunar. Það er nánast enginn hleðslutími (´loading time´) í leiknum á milli svæða og stjórnin er þægileg, jafnvel fyrir skotleik á leikjatölvu. Leikurinn nær yfirleitt að halda áhuga manns, er hvorki of stuttur né of langur og passað er upp á að maður viti alltaf nokkurnvegin hvað á að gera, þannig að manni langar að halda áfram og klára hann.. Hráefni eins og húmor og hasar fara vel saman við villta vestrið og furðuverur Oddworld heimsins.
Mortal men doomed to die!