Dómur - Extermination Ég veit að þessi leikur er alls ekki nýr, en hann hefur svo sem aldrei fengið neina umfjöllun hér… (Svo ég muni)

Sögusvið Extermination er á Suðurskautinu. Slys á sér stað í leynilegri rannsóknarstöð Bandaríkjahers og ekkert samband næst við vísindamennina á stöðinni. Þess vegna er sendur sérstakur hópur til að kanna málið. Þú leikur Dennis Riley, einn af hermönnunum í hópnum.

Leikurinn byrjar þar sem að Dennis og Roger, vinur hans, þurfa að komast inn í stöðina. Þetta er gert til að kenna spilaranum hreyfingar og annað, og virkar alveg ágætlega. Fljótlega æsist þó leikurinn þegar komið er inn í stöðina, þar sem að fljótlega kemur í ljós að stöðin hefur breyst í algjöra martröð.

Við fyrstu sýn virðist Extermination vera lélegur Resident Evil klón. En eftir að hafa spilað leikinn komst ég að því að svo er ekki. Í fyrsta lagi ertu einungis með eina byssu: Sérhannaðan SPR4 riffil. Riffillinn er fjölhæfur og er því hægt að festa allskyns aukahluti við hann eins og hlaup, aukavopn og vasaljós. Þetta er nokkuð sniðug hugmynd sem að hefur nokkur áhrif á hvernig maður spilar leikinn. T.d. eru sum svæði í stöðinni rafmagnslaus, og því þarf vasaljósið til að sjá almennilega. En ef þú setur vasaljósið á byssuna geturðu ekki fest haglabyssuna við byssuna, og því verður mun erfiðara fyrir þig að losa þig við suma óvinina.

Grafíkin er nokkuð flott, ekki sú besta sem ég hef séð, en tæknibrellurnar eru nokkuð skemmtilegar eins og á vatninu og snjóstormurinn fyrir utan stöðina. Hreyfingar Dennis eru einnig raunverulegar.

Því miður er ekki hægt að segja það sama um “kött-sínin” inn á milli atriða. Raddirnar í leiknum eru hreint út sagt hörmulegar, og munnhreyfingar eru alls ekki í sync við talið (Líklega vegna þess að leikurinn kemur upprunalega frá Japan). Kvikmyndaatriðin eru frekar illa gerð, og þótt að þau spili alls ekki stórt hlutverk í leiknum, þá eru sum þeirra bara afspyrnu-léleg, bæði hvað varðar gæði og hljóð (Til að sjá gott dæmi nægir að horfa á byrjunarmyndina).

Extermination er góður leikur sem að allir sannir Resident Evil-áhugamenn ættu að eiga. Leikurinn er ekki sérlega stuttur, en þó hefði hann mátt vera lengri. Það versta við hann er kannski að það er ekkert sérlega mikið endurspilunargildi: Það eina sem þú færð fyrir að spila leikinn í gegn er auka-skot og hlutir, þótt að í þriðja skiptið í gegn fær maður ótakmörkuð skot og öll vopn. Samt hefði verið skemmtilegt að fá eitthvað meira.

<b>Einkunn: 7.4</b>

<i>Grafík: 8.5
Hljóð: 5.0
Söguþráður: 8.0
Kaupgildi: 7.0

Aðrir dómar
IGN: 6.9
GameSpot: 7.1
OPM2: 8</i