Á netinu hafa verið flæðandi allskyns töflur þar sem X-Box og PS2 eru bornar saman og í öllum tilvikum er X-Box með hærri tölur (enda koma flestar þessar töflur frá Microsoft). Ég hef ákveðið í grein þessari að kafa aðeins dýpra í málið og reyna að skoða hvað liggur á bakvið þessar samanburðartöflur og sýna frammá að það eru tvær hliðar á hverju máli. Þessi grein er ekki gerð til að hefja PS2 eitthvað á loft, enda verða það leikir ekki hardware sem vinna stríðið milli vélanna…


Örgjörvi

X-Box hefur Intel Pentium III 733MHz á meðan PS2 hefur Emotion Engine sem er 300MHz. Ef við lítum aðeins á MHz fjöldann þá hefur X-Box vinninginn, en ef við lítum á uppbyggingu örgjörvanna þá er Pentium örgjörvinn ekkert annað en PC örgjörvi sem á rætur sínar að rekja allt að 20 ár aftur í tímann (fyrir tíma tölvuleikjanna). PC örgjörvar hafa aldrei verið þróaðir með leiki í huga, en hins vegar er PS2 Emotion Engine byggður frá grunni með ekkert annað en leiki í huga og starfar því allt öðruvísi en Pentium örgjörvinn, þannig að MHz tölurnar segja lítið til um hversu öflugur örgjörvinn er.

Skjákort

X-Box hefur Nvidia 250MHz, en PS2 hefur Sony GS 147 MHz. Enn og aftur vinnur X-Box ef við lítum á MHz töluna, en ef við lítum nánar á málið, þá er Sony skjárkortið byggt sem hluti af heild sem hönnuð var með ekkert annað en leiki í huga og vinnur skjákort PS2 mjög náið með EE. En eins og við þekkjum frá PC þá þarf að hafa öflugt skjákort, vegna þess að Pentium örgjörvinn getur engan veginn höndlað allar þessar aðgerðir, enda er hann ekki byggður til að keyra leiki eða hvað þá leikjavél.

Minni

X-Box er með 64MB í minni á meðan PS2 hefur aðeins 32MB. Eina sem ég segi hér er….hver kannast ekki við hversu mikið minni Windows kerfið tekur. 64MB er algjört lágmark fyrir X-Box til að geta keyrt leikina.

Harður diskur

Nýjustu fréttir herma að stærð X-Box disksins verði 10GB, en PS2 er ekki með harðan disk beint úr kassanum. Talað er um að með því að hafa harðan disk þá minnki loading tíminn. En til að nota harða diskinn þarf maður að byrja á að installa leikinn á diskinn, er það draumurinn þegar maður fær sér nýjan console leik að byrja á að installa hann ?? Ekki er hægt að uppfæra harða diskinn og sama hversu tæknin breytist þá er X-Box alltaf með sama diskinn. Einnig þarfnast harður diskur viðhalds, það þarf að hreinsa til á honum, geta komið bad sectors, ekki mjög traust gagnageymsla. Á PS2 verður hægt að kaupa (ef maður vill) harðan disk á næsta ári sem verður ekki undir 40GB.

Hljóðrásir

X-Box er með 256 rásir en PS2 með 64 rásir. Ég held að það séu aðeins hundar og kettir sem geta numið 256 hljóð í einu, þannig að hér er X-Boxið of fullkomið. Einnig ef X-Boxið myndi senda hljóð um allar 256 hljóðrásirnar gætu þeir líklega ekki birt grafík á sama tíma, því Pentium örgjörvinn hefði nóg að gera við að spila sándið…

Módem og nettenging

X-Box er tilbúin að fara á breiðbandið, en býður ekki uppá “Narrow band” tengingu. Hversu mörg heimili í Evrópu eru með breiðbandstengingu ?? Á PS2 verður á næsta ári hægt að kaupa aukahlut þar sem hægt er að tengja PS2 við internetið bæði í gegnum breiðband og “Narrow band”. Einnig ef eitthvað breytist í þróun og tækni módema og nettenginga er hægt að skipta út aukahlutunum á PS2, en hjá X-Box er þetta allt innbyggt.

Stýripinnar

PS2 tölvan er með nettan stýripinna sem þegar hefur farið sigurför um heiminn, en skiptar skoðanir eru auðvitað um hversu góður hann er. Ef litið er á X-Box pinnann þá eru aðal takkarnir beint fyrir ofan hægri analog-pinnan og rekst maður oft í pinnan þegar maður ætlar að ýta á hann (gerðist allavega fyrir mig þegar ég prófaði að spila Halo). Og hversu mörg prósent mannkyns eru með nógu stórar hendur til að ná utanum X-Box pinnann ? Einnig er X-Box með fjögur stýripinnaport en PS2 bara með 2.

DVD

PS2 tölvan er með nokkuð góðan DVD kvikmyndaspilara beint úr kassanum, en á X-Box þarf að kaupa fjarstýringu til að geta spilað kvikmyndir á vélina.


Þetta eru bara hugleiðingar mínar um samanburðinn sem flæðir um allt á internetinu. Eins og ég hef áður sagt, þá verður það leikirnir sem ráða hverjir ná yfirhöndinni en ekki hver er með fullkomnustu tölvuna. Þessi grein er aðeins skrifuð til að sýna frammá að það eru tvær hliðar á öllum málum, en ekki til að dæma um “winners and losers” í tölvuleikjastríðinu. Eina sem hægt er að segja er að það eru spennandi tímar framundan hjá okkur leikjanördum…