Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvers vegna það eru eru ekki allir að tala um Snake Eater. Hvers vegna spjallborð eins og þetta er ekki undirlagt af umræðum um þennan leik. Metal Gear Solid er einhver þekktasta leikjaserían á Playstation og ávallt er beðið eftir nýjum leik með nokkurri eftirvæntingu. Ég get skilið að margir hafi orðið fyrir vonbrigðum með leik 2, enda ekki fyrir nokkurn mann að skilja söguþráðinn að fullu, en jafvel ég, sem fílaði MGS2 í tætlur verð að viðurkenna að MGS3 er margfalt betri að öllu leyti og þeir sem tóku MGS fram yfir MGS2 eiga eftir að skemmta sér konunglega yfir þessum leik, enda ekki annað hægt.
Það er óþarfi að fara mikið út í söguþráðinn enda löngu búið að segja allt um hann. Hið mikilvæga er að nú gerist leikurinn á 7. áratugnum og umhverfið er skóglendi. Ekki láta ykkur þó detta í hug að vopnin séu óspennandi, þvert á móti. Kojima hefur líka leyft sér að nota vopn í leiknum sem voru ekki almennt notuð í hernaði á þessum tíma, en voru engu að síður frumgerðir og eflaust notuð af njósnurum.
Rétt eins og með hina 2 Solid leikina tekur smá stund að átta sig á hlutunum, en eftir það verður þetta eintómt gaman. Fyrir Hardcore-spilara er málið að spila leikinn í gegn án þess að drepa neinn en ef þú vilt geturðu vaðið áfram með haglabyssu og þeytt mönnum í allar áttir, hægri vinstri. Þú missir hins vegar af ansi miklu ef þú gerir það og getur til dæmis ekki fengið upplýsingar með því að yfirheyra verði, ef þú lætur þannig. En einhver á eftir að koma auga á þig í leiknum og þá er gott lenda ekki í Game over, þótt bestu leikjaspilararnir geti vissulega fikrað sig þannig í gegnum allt saman.
Helstu nýjungar eru CGC, mataröflun, Camouflage og skurðaðgerðir. CGC er tækni sem Snake notar í hand-to-hand viðskiptum við verði, og eru til nokkrar misnothæfar útgáfur. Þetta byggist nær eingöngu á circle-takkanum og getur á köflum verið nokkuð vandasamt að gera það almennilega, sérstaklega þegar maður tekur mann sem gísl og þarf þá að halda niðri hring til að grípa manninn, R1 til að fara í 1. persónu sjónarhorn, kassa til að lyfta byssunni og vinstri pinna til að miða. Best er þó að forðast bardaga, og góð notkun á CQC er að grípa einhvern aftan frá með hring, smella á L3 til að yfirheyra hann, og þrýsta síðan fastar á hring til að skera hann á háls og draga hann síðan á einhvern stað þar sem hann sést ekki.
Mataröflunin byggist á því að veiða dýr og safna öðru matarkyns úr náttúrunni til að halda Stamina-línunni fullri. Sé hún í neðri deildum fer Snake hægar yfir, miðið verður ónákvæmt og hann verður að lokum gagnslaus með öllu. Einnig er hægt að veiða hættuleg dýr og henda þeim síðan í verði til að hræða þá. Þeir eru reyndar vanir að skjóta snáka sem þeir lenda í en þá hefur spilarinn tíma til að miða á hausinn á þeim á meðan þeir eru uppteknir af dýrinu. Það eru til margar útgáfur af þessum aðferðum, og ef maður er í sérstöku skapi er hægt að gefa svöngum vörðum mat að borða. Spes.
Camouflage og skurðaðgerðir gera það að verkum að maður þarf ansi oft að ýta á start takkann. Þannig kemur upp mynd af Snake og svo er hægt að velja á hann búning og andlitsmálningu eftir því sem þarf. Leikurinn sýnir þér hvað gerir þig minnst áberandi hverju sinni og til allrar hamingju þarf maður ekki að bíða eftir því að Snake máli sig. Allt gerist þetta á sekúndubroti. Í skurðaðgerðinum þarf maður að velja ákveðna meðferð fyrir mismunandi gerðir sára. Því miður virkar þetta nær eingöngu eins og handavinna því maður á alltaf nóg af birgðum (saxið niður plöntur til að fá meiri lyf) og það skiptir engu máli í hvaða röð maður gerir hlutina. Það er til dæmis hægt að fjarlægja byssukúlu úr sári eftir að búið er að búa um það með sárabindi. Nokkuð furðulegt. Nær hefði verið að heimta a.m.k lógíska röð á meðferðarúrræðum og láta mann byrja upp á nýtt eftir klúður. Þó má benda á að ef maður þarf sífellt að ýta á start til að lappa upp á sig getur maður sjálfum sér um kennt, því þá kemur maður einfaldlega of oft upp um sig í leiknum.
Spilunin í MGS3 hefur aldrei verið betri og það hefur aldrei verið jafngaman að fela sig í tíu mínútur, skoða umhverfið með kíkinum og eyða síðan klukkutíma í að drepa alla á svæðinu/komast gegnum það án þess að neinn verði manns var. Það er enginn radar að þessu sinni, og er allur ótti um að það gerir leikinn of erfiðan ástæðulaus. Þess í stað gerir það leikinn raunverulegri, maður þarf sífellt að staldra við og meta umhverfið, fylgjast með ferðum varðanna og ákveða hið næsta í stöðunni. Svo á Snake margt skemmtilegt dót til að finna verði, tæki sem nemur nærveru manna með misháu pípi, radar sem nemur alla hreyfingu og fleira. Einnig gerir hitanæmi kíkirinn lífið auðvelt á köflum, því hann sér bæði hita og gildrur, þótt ég skilji sjálfur ekki hvernig hiti getur leynst í reipi eða gaddalurk. Bossarnir í leiknum eru líka bráðskemmtilegir, og ekki er lengur sama áherslan á að læra rútínuna utan að og dunda sér svo við það smátt og smátt að hlaupa sama hringinn og skjóta kvikindið á réttum tíma. Vissilega er ákveðinn endurtekning í gjörðum þeirra og veikir blettir sem maður þarf að nota sér en ef maður spilar rétt úr ákveðnum aðstæðum er hægt að saxa helminginn af líflínu þeirra á nokkrum sekúndum. Hardcore-spilarar nota aðrar og erfiðari aðferðir við að losna við þessa skratta, enda fær maður sérverðlaun fyrir það. Sjálfur er ég enginn snillingur í leikjaspilun en það er alltaf hægt að nota aðrar drápsaðferðir seinna, enda nauðsynlegt að spila leikinn oftar, þar sem maður missir af svo mörgum smáatriðum við fyrstu spilun.
Oft hafa MGS-leikirnir verið gagnrýndir fyrir að einbeita sér of mikið af myndskeiðum. Það er vissulega enginn hörgull á þeim hér, en þau eru bara svo mikið augnakonfekt að þau verða aldrei leiðigjörn. Það ber að taka fram að löngu samtölin um Codec-talstöðvarnar sem áttu sér stað milli tveggja karaktera sem stóðu hvor á móti hinum, hafa verið klippt út. Það er vissulega talsvert um codec-samtöl (Man reyndar ekki hvort þetta er kallað Codec í MGS3) en þau þjóna tilgangi og eru í versta falli fræðandi (í versta falli fyrir þá sem þykir það síðra). Það er enginn að reyna að útskýra plottið með fyrirlestri eða rífast við kærustuna. Og Cut-senurnar sjálfar eru gríðarlega spennandi og vel gerðar. Kojima er stjarnfræðilega góður leikstjóri, í hvert sinn sem einhver hasar á sér stað jafnast það á við bestu kvikmynd.
Sagan sjálf er frábær og öll umgjörð og frágangur í hæsta gæðaflokki. Þegar svona leikur kemur út eiga sem flestir að drífa sig með veskið út í búð, því þetta er einmitt sú gerð af leikjum sem maður á að styrkja með fjárútlátum. MGS3 er gríðarlega vandaður, hér eru listræn sjónarmið númer eitt og peningahugsanir númer 2 (auðvitað er hægt að rífast lengi um þessa síðustu línu en enginn sem spilar MGS3 getur dregið listrænan drifkraftin á bak við þessa sköpun í efa). Eftir að hafa orðið fyrir vonbrigðum með Prince of Persia 2, þar sem frábært andrúmsloft vék fyrir auknum drápum og drunga, hefur Snake Eater sannfært mig um að leikir geta enn skilið mann eftir orðlausan. Ég leyfi mér að fullyrða það hér, án þess að þykjast mikill fræðingur í japanskri afþreyingu, að Metal Gear Solid-fyrirbærið sé ein besta blanda af Japanskri hasarafþreyingu og vestrænni, sem til er. Þegar aðrir stórleikir þessa tímabils verða gleymdir, mun MGS áfam lifa í minningunni.
Hafi þessi grein ekki verið nóg til að sannfæra þig um að kaupa kvikindið, þá er það miður. En að mínu mati er ekki hægt að kaupa betri leik í dag. Sýndu stuðning við gæði og verslaðu þér Metal Gear Solid 3: Snake Eater í dag.