(Xbox) Ninja Gaiden - Pressure Í þessum nýja Ninja Gaiden þá heldur þú áfram í hlutverki Ryu Hayabusa, hinum fræga ninju leigumorðingja sem sækist hefnda eftir að fólk hans er myrt á hrottafenginn hátt af Vigor keisaraveldinu. Ryu heldur af stað í langt ferðalag hefndar þar sem hann brýtur á bak andstæðinga sína í Vigor keisaraveldinu með sínu goðsagnakennda drekasverði.

Það er langt um liðið síðan ég skrifaði síðast umfjöllun um tölvuleik hér á Huga. Því kenni ég aðallega um að ég moddaði Xbox vélina mína og eftir það hef ég prófað alla leiki síðastliðið ár sem hafa komið út á þessa góðu græju. Tíminn hefur verið lítill en ég byrjaði að spila Ninja Gaiden fyrir rúmum mánuði síðan, nokkrum dögum áður en hann kom út í búðir hið ytra þar sem ég fékk að testa þennan leik sem leikjatester hjá Tecmo. Ég hélt fyrst í gegnum hann á Normal styrkleika og það var nógu og erfitt til þess að byrja með. Eftir að hafa spilað marga leiki sem svipaðir eru svona þriðju-persónu ævintýri þá kemst enginn með tærnar þar sem Ninja Gaiden hefur hælana. Eftir að hafa spilað leikinn í rúma 22 klukkustundir þá var hann á enda. En mér til mikils ama þá hafði ég misst af nokkrum leynihlutum í leiknum. Þegar ég kom að titilskjánum aftur þá var kominn nýr styrkleiki sem kallar Very Hard. Í flestum tilvikum þá nenni ég aldrei að spila leiki aftur, ég held að það hafi aldrei gerst á minni leikjatíð síðan ég byrjaði að spila tölvuleiki á Sinclair Spectrum á síðustu öld. Ninja Gaiden er það góður leikur og mikið ævintýri að hann heltekur mann. Leikurinn verðlaunar mann á margann hátt, ekki með nýjum aukahlutum og þess háttar heldur einungis því að komast í gegnum hann í fyrsta sinn, það er nógu og góð verðlaun fyrir það eina. En leikurinn gerir svolítið sem ég bjóst ekki við. Leikurinn fjallar að mörgu leiti um djöfladýrkendur og ótrúlegt en satt þá er hann stundum það erfiður að maður blótar honum í sand og ösku hvað eftir annað. Vinir mínir sem sátu nokkrum sinnum hjá mér þegar ég var að spila í gegnum hann undruðust mikið hversu oft ég dó og það kom Game Over. Einn þeirra sagði t.d.: “Örri, ég hef oft horft á þig spila tölvuleiki en þetta er eflaust í fyrsta sinn sem ég hef séð þig ganga illa í tölvuleik og ég hef aldrei séð Game Over koma eins oft”. Mér til mikillar gremju tók ég þetta sem áskorun og reyndi aftur hvað eftir annað. Þessi umfjöllun á eftir að verða löng, þessi leikur er langur, leikurinn er fastur í huga mínum dag eftir dag þótt ég hafi klárað hann en ég veit að ég á eftir að fara í gegnum hann aftur á Very Hard og ég býst við að það fari nokkrir sólarhringar í það enda dreymir mig oft hugsanlegar aðferðir til þess að sigra ýmsa endakalla í leiknum og leysa ýmsar þrautir. Leikur sem þessi er ekki á borði hvers sem er til þess að þreyta en hann er þess virði aðeins til þess að prófa, sérstaklega til þess að höggva af amk eitt höfuð eða tvö :)

Þessi leikur inniheldur án efa einu bestu grafík sem ég hef séð á Xbox og eins og ég sagði áður þá hef ég spilað þá marga. Ég myndi halda að þetta væri einn flottasti leikur á hvaða leikjavél sem til er í dag. Hann spilast sérstaklega vel í X2VGA sem er skjábox til þess að tengja Xbox í tölvuskjá og njóta HDTV upplausnar sem venjulegt sjónvarp ræður ekki við. Leikurinn hikstar ekki einu sinni og ég hef ekki séð eitt slow-down í leiknum allann leikinn í gegn. Leikurinn styður widescreen og FMV videóin eru amk 4x betri heldur en grafíkin sem við sáum í Final Fantasy bíómyndinni auk þess það er ekkert sparað við að gera nákvæmnina eins mikla og hægt er. Miðað við andlitin í Final Fantasy bíómyndi þá eru þau teiknimyndaleg miðað við hvernig Ryu er.

Svæðin í leiknum eru mjög mismunandi og er það mikill kostur því oft festast leikir í því að borðin séu mikið eins. Fyrsta borðið byrjar rétt fyrir utan Ninja kastala þar sem þú stendur í vatni og þarft að finna leið þína upp. Það er ekki mikil saga í byrjun leiksins, það er örlítið fjallað um sögu sverðsins sem Ryu gætir og síðan hefst leikurinn. En um leið og fyrsti endakallinn er sigraður þá hefst sagan fyrir víst. Kastalinn er einkenndur á mjög japanskan hátt eins og maður býst við að sjá hann í ekta japanskri bíómynd, sérstaklega þar sem það inniheldur engin húsgögn. Ég held að fólk sem er mikið inn í Ninja og Samurai málum finnist þessi kastali vera nákvæmlega eins og hann á að vera. Hvert herbergi í kastalanum er mjög vel úr garði gert. Þar má sjá veggteppi, trégólf, hrísgrjónasekki, hefðbundna Samurai búninga og oft eru kistur á gólfinu sem þú getur sparkað upp og fengið hluti til þess að bæta heilsu þína. Mesta kickið samt við leikinn er að fara í gegnum hann án þess að missa orku. Þá á ekki að vera hægt að koma við Ninju ekki satt? :) Annað borðið í leiknum er þorp Ryu þar sem þú þarft að togast á við hermenn og menn á hestbaki sem stinga í þig spjótum og draga þig eftir leikvanginum. Ég ætla ekki að eyðileggja söguna á einn eða annan hátt en eftir því sem þú kemst lengra þá berstu innan í Zeppelin loftfari, hleypur í gegnum herstöðvar og fleira.

Hreyfingar Ryu eru mo-cap og mjög hreinstílaðar, það er varla að maður sjái einhverjar klunnalegar hreyfingar hjá honum ef ekki neina. Hver bardagatækni er mjög vel úr garði gerð og fullkomlega náttúruleg utan þess að hún er mjög hröð. Ryu er ninja, og hann hreyfir sig sem slíkur. Ryu hefur tök á því að berjast með nokkrar tegundur af vopnum. Vopnin eru dreka sverðið fræga, Nunchaku sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku, illa stórt sverð sem berserkir áttu að hafa notað sem heitir Dabilahro og fleiri sem ég vil ekki greina frá því það spilar inn í söguna. Hvert vopn er mismunandi á sinn hátt og yfir 80 brögð fylgja hverju vopni sem er mjög töff miðað við aðra þriðjupersónuleiki. Eftir að hafa notað sverðið og Nunchaku vopnið þá hef ég oft velt vöngum yfir einstaklingnum sem tekinn var upp í mo-cap með þessi vopn því að hann hlýtur að vera hrikalegur snillingur með vopn að öllu leyti og ég myndi ekki fyrir mitt litla vilja hitta hann í dimmu skuggasundi. Ninja Gaiden er til fyrirmyndar hvað mo-cap varðar í alla staði.

Óvinirnir eru álíka vel úr garði gerðir og þeir hafa allir vopn sem sérstaklega eru gerð til þess að stúta Ninju á sem fljótasta hátt. Þú berst við aðrar ninjur, hermenn, karatesnillinga og djöfla á þinni langri leið að hefndum. Óvinirnir hafa sverð, örvar, ninja stjörnur, skammbyssur, flugskeytavopn og handsprengjur. Það á eftir að verða mjög erfitt að toppa þennan leik hvað varðar grafík í alla staði. Ryu Hayabuse er kominn á stall sem einn af aðalmönnum Xbox á borð við Master Chief og Sam Fisher.

Tónlistinn í gömul Ninja Gaiden leikjunum hefur ávalt verið góð og það eru margar síður á netinu sem rippa tónlist úr leikjunum og hægt er að nálgast hana. Þessi útgáfa er engin undtekning enda sinfónían á bakvið tónlistina er á öllum grundvelli á sama klassa og sinfónían á bakvið Final Fantasy X. Tónlist heldur í við anda svæðanna og það sem er í gangi hverju sinni. Það er hægt að stilla á enskt og japanskt tal. Talaða enskan er góð en svolítið ýkt eins og við er að búast frá japönskum framleiðanda. En ekkert til þessa að trufla þig.

Hljóðeffektar eru mjög vel gerðir en í flestum tilvikum heyrir þú varla annað en stál í stál effekta því þetta er auðvitað þannig leikur. Hljóðið sem kemur þegar þú tekur af haus er sérstaklega indælt að mínu áliti þegar þú heyrir beinin brotna og blóðið spýtast út um smáþarmana. Þessi leikur er mjög ofbeldisfullur. Hljóðin eru í Dolby Digital 5.1. eins og Xbox býður upp á og það skiptir öllu máli. Til að mynda er hrikalega ógnvekjandi að vera að flýja óvini þegar maður á litla orku eftir og maður heyrir skothljóð, ninjastjörnur og öskur koma úr bakgrunninum fyrir aftan sig. Jeepers Creepers :)

Stjórnun leiksins er mjög hröð og þurfti að vera svona til þess að leikurinn myndi standast kröfurnar. Ninja Gaiden stenst þessar kröfur með því að innhalda einfalda en samt fjölbreytt stýringarkerfi. Maður getur til dæmis gert bragð með því að ýta á X,y,x,x,x,x,x eftir að hafa sett dreka sverðið á level 2 og það ætti að ráða örlögum þess sem því er beitt að á skjótann hátt. En málið er að maður berst aldrei við einn í einu. Oftast eru 3-6 óvinir í kringum þig í einu. Ef þú ert góður í bardagaleikjum þá ættirðu að ráða vel við þennan er munurinn á þessum og öðrum er sá að maður getur ekki bara þrumað á takkana og vonað að eitthvað gerist. Maður verður að hugsa svolítið, nota vörnina til þess að ná árangri alveg eins og alvöru ninja myndi gera.

Eini gallinn í leiknum til þess að byrja með er myndavélin og það er oftast eitthvað sem veldur þriðjupersónuleikjum vandræðum. Í Ninja Gaiden er ekki frjáls myndavél heldur getur maður centerað hana fyrir aftan Ryu hvenær sem er með því að smella á R. Ástæðan fyrir þessu er sú að hægri stýripinninn myndi aldrei ráða við að snúa myndavélinni við eins hratt ninja aksjón eins og þetta. Þegar þú heldur á boga og örvum þá er hægt að fara í fyrstu persónu til þess að miða og þá notar maður hægri pinnann. Margir hafa kvartað undan því að það vanti cross-hair en í alvöru talað fólk, væri það raunverulegt? En á botnin hvolft þá er myndavélin slæm til þess að byrja með en maður venst henni mjög fljótt. Þetta er í raun eini gallinn við leikinn að mínu áliti.

Ninja Gaiden er mjög erfiður, en hann er mjög sanngjarn. Fyrsti bardaginn mun gerast á klettasillu á móti tveimur ninjum. En eftir það þá munu bardagarnir verða erfiðari með hverju mómenti sem líður. Stundum þarftu að berjast við 60-100 óvini í einu. Það er fjör. (Nú langar mig að fara að spila hehe). Endakallarnir eru eitt það erfiðasta í leiknum. Þeir koma með rosalegri innkomu og hræða líftóruna úr þér. Þið verðið sammála mér í klaustrinu. Búið ykkur undir bardaga lífs ykkar. Það sem er flottast við óvinina að þeir hafa ekki ákveðna rútínu, þeir hugsa eins og þeir standa, ganga í kringum þig í vörn og ráðast aðeins á þig þegar þú gefur þeim tækifæri til þess. Ef þú ert ekki nálægt þeim þá horfa þeir samt á þig og bíða eftir því að þú komir nær eða í færi.

Hvert svæði kennir þér eitthvað nýtt. Til að mynda á fyrsta svæðinu þá þarftu að læra að verjast og hreyfa þig. Á öðru svæðinu þarftu að læra að nota bogann fyrir langdrægni. Eftir því sem þú færð fleiri vopn þá þarftu að aðlagast þeim og það er enginn leikur. Hver hópur óvina sem þú mætir er að mörgu leyti mjög frábrugðinn þeim sem þú sigraðir síðast þannig að maður verður í sífellu að aðlagast breytingum. Þessi leikur verður aldrei vanabundinn.

Á ævintýri þínu hittirðu Muramasa, hann mun selja þér vopn, armbönd og bæta vopn þín. Eftir því sem þú gefur honum fleiri “Golden Scarabs” þá verðlaunar hann þig. Í leiknum eru 50 stykki og ef þú finnur alla 50 þá opnast Ninja Gaiden 1. Síðan geturðu skotið klukkufésið á torginu til að fá Ninja Gaiden 2. Til þess að fá Ninja Gaiden 3 þá þarftu að komast á stað þar sem þú fannst einn af “scarabs”. Ég ætla ekki að segja hvar hann er en vísbendingin er hátt yfir tveggja turna tali. :) Þið skiljið þetta þegar þið spilið.

Einn skemmtilegasti hluti leiksins er fjársjóðsleitin. Á öðru borði þá kemurðu að þremur styttum og þá vantar höfuðið á eina þeirra. Þetta er ekki nauðsynlegt að leysa en þetta hjálpar þér töluvert því að heilsan í leiknum er dýr og er ekki á hverju bretti.

Það væri enginn ninja leikur ef það væri ekki ninja galdrar. Í leiknum kallast þetta Ninpo, ég kalla þetta töff. Í byrjun byrjar þú með eld sem snýst í kringum þig og hver sem nálgast þig kveikir í sjálfum sér við snertinu. Eftir því sem lengra dregur í leiknum þá geturðu styrkt töffið þitt þangað til að þú ert orðinn svo mikill töffari að þegar þú ákveður að hlaða eldgosi í einhverja óvinahrúgu eða kalla yfir ísöld þá breytist allt umhverfið í kringum þig. Sjón er sögu ríkari, þetta minnir mest á summon galdrana í Final Fantasy. Með armböndunum sem þú færð hjá Muramasa geturðu styrkt töffið eins og þú vilt. Þetta gefur leiknum mjög mikið RPG gildi þótt hann sé flokkaður sem Action / Adventure.

Í fljótu bragði þegar öllu er á botnin hvolft þá er þetta leikurinn í heild sinni og það er auðvitað alveg þvílíkt mikið sem ég minntist ekki á til þess að spilla ekki fyrir ánægju ykkar. Skjáskotin sem þið sjáið úr leiknum á netinu eru ekki nóg, þið verðið að sjá þetta með ykkar eigin augum og finna víbringinn í fjarstýringunni.

Leikurinn hefur 16 borð og það mun taka þig amk 20-30 klst að fara í gegnum hann í fyrsta sinn. Þegar þetta er skrifað þá skrapp í gegnum leikinn í gær í Very Hard. Ég er búinn að vera svolítið lengi að skrifa þessa umfjöllun því þessi leikur á það skilið og ég held hann í miklum heiðri. Ninja Gaiden er ástæðan fyrir því að Xbox tröllríður öðrum leikjavélum á markaðinum í dag, Ninja Gaiden er ástæða til þess að fá sér Xbox. Ninja Gaiden er án efa einn skemmtilegast, drungalegasti, erfiðasti, mest verðlaunaðasti leikur sem ég hef spilað og aldrei hef ég blótað eins mikið við einn leik og þennan.

Ef þú klárar Ninja Gaiden þá áttar þú þig á því að þetta er ekki bara leikur heldur lífstíll.

Ég ætla að vona að þið hafið notið vel af þessum lestri og þar sem ég er byrjaður að skrifa aftur þá er aldrei að vita að maður skrifi um Splinter Cell: Pandora Tomorrow á næstunni.

Það væri gaman að vita hversu mikill áhugi er fyrir því að ég skrifi fleiri umfjallananir í framtíðinni.

Ykkar gamli admin,
Pressure