Breytingar á mannshuganum Frá árinu 1989 eða þar um bil hef ég verið nánast háður því sem kallast leikjatlölvur. Þær hafa vaxið á mig líkt og hrúðurkarlar festast á hvalina. Alla tíð hef ég verið svo gáttaður á því hversu mikilli skemmtun er hægt að troða í eitt leikjahylki, já eða geisladisk. En það er auðvitað misjafnt eftir leikjum hversu hátt þetta skemmtanagildi rís, eða fellur. Eins og flestir vita hafa mínar leikjatölvutilfinningar alltaf verið hjá Nintendo, eru þar enn og verða líklega áfram. Trúi ekki öðru. En undanfarin misseri hef ég þurt að horfast í augu við það sem ég vil kalla þroska minn frá leikjatölvum, já eða pælingar dýpra inn í þær og heiminn í kringum þær. Ekki er maður lengur saklausi krakkinn sem maður var, skemmtun er ekki bara skemmtun lengur, kröfurnar eru nefnilega aðrar og meiri…

Hér áður fyrr þá gat ég eytt heilum helgum fyrir framan sjónvarpsskjáinn og verið gersamlega límdur við kassann, með töfrana í höndum mér og líður mér enn þannig í dag þegar ég spila ákveðna leiki. Þessi unaðslega tilfinning að fá nýjan leik og þurfa að sitja í bílnum með mömmu og skoða bæklinginn, það voru skemmtilegir tímar. Að koma heim og nánast taka sprettinn inn í herbergi til að dúndra leiknum í tölvuna og henda sér í rúmið og taka á móti töfrum leikjanna, fyllast aðdáun og gleyma takti tímans. Oft liðu klukkutímarnir án þess að maður gerði sér grein fyrir því að maður sat eða lá enn í sömu stellingunni. En hvað skipti það máli? Það sem máli skipti var að þarna var maður að spila ólýsanlega skemmtilegan tölvuleik, eitthvað sem maður hafði engan skilning á út fyrir það sem maður sá á skjánum. Maður vissi ekkert hvernig þetta varð til og var alveg sama, ég vildi bara spila þetta! Það voru þessir gömlu góðu tímar þar sem við vinirnir hittumst heima hjá einhverjum og skiptumst á að spila hina og þessa leiki og allir skemmtu sér konunglega. Þegar maður var yngri var sem sagt auðveldara og skemmta manni og þurfti ekki allt þetta “hæp” og þennan svaka leikjaglamúr sem fylgir þessu í dag. Þá var ekki pælt í því sem í dag er nánast aðalatriði vísitöluleikjaspilarans: grafík, hljóð, lýsing, effectar og svo framvegis. “Það er töff að eiga…” Ég ætla ekkert að predika um það neitt nánar en að segja bara að það sem var númer 1, 2 og 3 var skemmtun og félagsskapur.

Með árunum uxu á mig fleiri hrúðurkarlar. Ég eignaðist fyrst NES. Svo kom SNES, N64, PSX, Dreamcast, PS2, GC, Xbox, GBA SP og svo nýlega fjárfesti ég í Mega Drive, svona upp á safnið. Allar hafa þessar tölvur sína sögu í minni leikjaævisögu. En ég verð þó að segja að ég hef sjaldan fundið töfrana í núverandi og síðustu kynslóð leikjatölva, sem ég fann í NES og SNES tímabilinu. Þá á ég ekki við að leikir í dag séu lélegri eða ófrumlegri. Margir hvergir eru hreint út sagt brilliantismi í formi leikja. Það sem ég á við er að krakkinn í mér er svo gott sem horfinn. Ég er ekki lengur 8-13 ára. Ég er að verða 23 ára á næsta ári. Tíminn flýgur og þar kem ég að því sem ég minntist á áðan: taktur tímans. Ég gerði mér sem sagt grein fyrir því núna á síðustu vikum og mánuðum að þessi tölvuleikja og leikjatölvuárátta mín er að stórbreytast. Ég spila leiki í dag ekki nærri jafn mikið og ég gerði hér áður fyrr. En þegar ég spila þá, þá er það á allt annan máta. Hér áður fyrr vildi ég spila leiki þó svo að mér leiddist ekki, þó svo að allir vinirnir væru úti í einhverju fjöri. Ég vildi bara upplifa þennan galdur. Í dag spila ég leiki eiginlega bara ef ég hef ekkert að gera. Ég lít á þá sem afþreyingu, til að drepa tímann og til að losna úr hinu daglega stressi sem fylgir því að eldast. Komast í annan heim, orðum það þannig. Enn og aftur vil ég minna á að ég lít ekki á leiki í dag sem slæma leiki, þetta er bara minn andlegi þroski, breyting á mínum persónuleika og mínu mati á skemmtun og afþreyingu. Ég skemmti mér enn konunglega í leikjum á borð við Metroid leikina, Zelda, Halo, Gran Turismo og fleiri leikjum. Ég á marga alveg stórkostlega leiki. En mat mitt á leikjum hefur mikið breyst. Hvernig?

Kröfur. Þegar ég var yngri gerði ég engar kröfur til leikja. Ég vildi leikina ef mér fannst þeir flottir og ef cover leikjanna var flott. Já eða ef þetta voru leikir eins og Turtles eða eitthvað. Ég hafði nánast gaman af öllu sem ég átti. Það var bara skemmtilegt að spila leiki enda var ég bara barn og því auðveldara fyrir mig að leika mér. Í dag er ég orðinn 22 að sækja fast í töluna 23. Í dag geri ég meiri kröfur, enda er það alveg eðlilegt. Í dag les ég um alla leiki áður en ég kaupi þá, pæli mikið í þeim. Ég hef með hverju árinu alltaf verið að auka við kröfurnar án þess að gera mér grein fyrir því. Þetta bara vex á mann og maður lítur á það sem sjálfsagðan hlut að ætlast til þess að fá meira út úr hlutum sem maður borgar 6-7þúsund krónur fyrir. Eins og ég minntist á áðan gat ég setið eða legið fyrir framan skjáinn tímunum saman án þess að gera mér grein fyrir því hvað tíminn leið. Í dag kaupi ég mér leik og kannski fer í bíltúr, heim til systur minnar eða bara fer að horfa á sjónvarpið þegar ég kem heim. Spenningurinn er ekki alveg að fara með mig lengur. Nema í sérstökum tilvikum eins og með Metroid Prime og Zelda:TWW sem dæmi, þá gat ég ekki beðið, þá reis mitt innra barn upp frá dauðum og tók völdin. En, það er alltaf “en”. Ég á erfitt með að halda einbeitingu í tölvuleikjum í dag í meira en 30-45 mínútur í einu og stundum snerti ég ekki tölvurnar svo dögum skiptir, jafnvel í einhverjar vikur. Þá er það ekki af því að leikurinn er leiðinlegur eða neitt þannig. Heldur er það vegna þess að hugur minn hefur stækkað út fyrir ramma tölvuleikjanna og eru aðrir hlutir sem skipta meira máli alltaf að taka yfir hausinn á mér og fá mig til að missa áhugann á að spila leiki í einhvern tíma. Ég vil taka fram að þetta er ekki eitthvað sem hefur verið að gerast á undanförnum vikum. Þetta hefur verið að gerast síðan ég varð c.a 16 ára, smátt og smátt en aukist mikið undanfarin 3 ár hér um bil. Skilningur manns á umheiminum breytist og þroskast, persónulegir hagir og dagleg streita fer að taka yfir og fer því hlutverk leikjatölvanna í lífi manns að minnka og fá annað hlutverk, allavega í mínu tilviki. Það má segja að leikjatölvur virka sem flóttaleið fyrir mig frá umheiminum, en auðvitað spila ég oft leikina til að skemmta mér bara, alveg upp úr þurru. En kannski er það kröfunum að kenna að leikir stundum standast ekki væntingar manns, jú sennilega eru þar kröfurnar eingöngu á ferð…

Skilningur minn á leikjatölvum og leikjum er orðinn mun dýpri í dag en hann var, enda skiljanlegt. Hugur mannsins breytist mikið á þessum tíma frá 8 til 22 ára. Það sem áður var aðalatriðið er í dag orðið að “eitt af aðalatriðunum, ef ekki það stærsta”. Í dag er pælingin bakið leiki orðin svo mikið dýpri og meiri en áður fyrr, og er ég ekki að segja að leikir áður fyrr hafi verið óúthugsaðir, tæknin var bara ekki eins mikil þá. Í dag pæla menn í uppsetningu heimsins sem leikurinn er í, útliti aðalpersónu, söguþræði, grafíkvél, hljóði, leikurum, auglýsingaherferðum… bíómyndum. Auk þess að framleiðendur eru að henda milljónum ofan á milljónir í gerð leikja sem kannski eru ekki þess virði. Er það því von að maður geri meiri kröfur til leikja og leikjaframleiðenda í dag? Að mínu mati nei. Þar kemur inn hinn andlegi þroski, sem er misjafn eftir einstaklingum. Tökum sem dæmi bíómyndir. Það er nánast hægt að henda hvaða krakka sem er fyrir framan sjónvarpið ef til dæmis Spy Kids er í sjónvarpinu. Þau horfa á þetta og skemmta sér konunglega. Þarna sjá þau barnahetjur með allskyns búnað, vopn og tæki kljást við illmenni heimsins og eins og sannri barnamynd sæmir vinna þau alltaf. Þetta er stórskemmtilegt í þeirra augum því það sem skiptir máli að þeirra mati er skemmtunin en gera engar kröfur um gæði myndarinnar. Ég hef ekki séð neina Spy Kids mynd því ég hef ekki áhuga á því, ég einfaldlega hef meiri kröfur til bíómynda en þetta. Ég hefði örugglega horft á þessa mynd fyrir 10 árum, en ekki í dag. Þetta sama á við um tölvuleikina. Yngri spilendur eiga auðveldara með að spila leiki endalaust og skemmta sér konunglega, líkt og ég (og fleiri) gerðum hérna áður fyrr. Ég geri það enn í dag, bara á öðrum forsendum og öðruvísi. Ég er ekki að gefast upp á tölvuleikjum, langt í frá…

Enn þann dag í dag er ég húkt á tölvuleikjum. Ég skoða síður daglega sem innihalda fréttir úr heimi leikjanna. Ég fylgist með ferli ákveðinna leikja og skoða skjáskot úr framtíðarleikjum. Ég er þannig séð spenntari fyrir leikjatölvum í dag en ég var áður fyrr, en þá ekki eingöngu sem skemmtanavara eins og áður fyrr, heldur heillar þessi heimur mig. Gerð leikja heillar mig, mér var alveg sama um það áður fyrr. Ég lít á mig sem leikjaunnanda og mun eflaust alltaf vera. Ég skemmti mér enn í dag með félögum mínum í multiplayer leikjum. Það sem ég er að reyna að segja með þessari þreytandi grein minni er að skilningur minn á þessum heimi hefur breyst mikið og því gæðastandard minn hækkað og þar af leiðandi er erfiðara fyrir mig að skemmta mér í leikjum. Það gerist í kannski fimmta hverjum leik að ég finni einhverja töfra, og er það ekki út af lélegum leikjum, heldur er það vegna þess að ég hef þroskast í burtu frá þessu á einhvern furðulegan máta. Eða er það kannski að ég hafi þroskast dýpra inn í þetta? Þegar ég finn þessa töfra þá er það sennilega barnið í mér að skemmta sér. Minningar um góða tíma sem skemmtunin nær að endurlífga. Mig grunar að einhver sé að skilja þetta sem ég sé að segja að ég fíli ekki leiki í dag, alls ekki satt. Ég er mikill leikjaunnandi. Það kemur fyrir að ég geti ekki beðið eftir leikjum, samanber Metroid Prime. Ég efa ekki að eldri spilarar skilji mig. Hér áður fyrr voru leikirnir svo stór hluti af lífi manns að maður nánast gleymdi að anda. Í dag eru þeir afþreyingarefni í skemmtilegri kantinum og stundum flótti frá stressi hins harða heims. Eða er ég bara orðinn klikkaður? …

Ég sé þetta ekki eingöngu í sjálfum mér. Í raun finnst mér ég stundum vera svolítið eftir á í þroskanum því margir vinir mínir sem voru jafnmiklir leikjasjúklingar og ég þegar við vorum yngri eru í dag svo langt frá því að fíla tölvuleiki, þeim gæti í raun ekki verið meira sama um þetta. Það er auðvitað bara breyting á þeirra áhugamálum, ekki merki um að spilun tölvuleikja sé merki um óþroska, eða seinþroska. Þeir eru sammála því. Þeirra áhugamál bara breyttust eins og ég sagði. Mín áhugamál eru enn þau sömu og eru leikir og leikjatölvur þar enn. En svo hef ég verið að pæla. Ég sem mikill leikjaunnandi í 14 ár, með allar mínar kröfur og löngun í fleiri og fleiri leiki, lít stundum á hana móður mína sem er 61 árs og fer oft að pæla í mati mínu á leikjum og kröfum mínum til þeirra. Hún og frænka mín (barnabarn hennar) spila Super Mario Bros 3 alveg á fullu þessar vikurnar. Þar er dæmi um að hennar skemmtanagildi hefur ekkert breyst frá tíma SMB3 í NES. Hún hefur jafn gaman af þessum leik og 10 ára gömul frænka mín. Er það þá vegna þess að hún fylgist ekki með leikjaheiminum, er alveg sama um hann og hefur því engar kröfur til leikja aðrar en þær að hafa gaman af? Frænka mín náttúrulega er eins og ég var á hennar aldri, hugsar ekki um leiki út fyrir þann ramma sem við köllum sjónvarp. Mamma segir mér alltaf að Mario sé góður vinur hennar, enda svo skemmtilegur. Það er nefnilega málið með hana. Hún spilar SMB3 því henni finnst hann skemmtilegur og það er það eina sem fær hana til að spila hann aftur og aftur og aftur. Grafík? Hljóð? Skiptir ekki máli. Engar kröfur. Stundum langar mig að vera þannig aftur…

Spila leiki eingöngu til að hafa gaman af og gleyma kröfunum…
Þetta er undirskrift