Reykjavík, 20.júní 2003, Síminn Internet og umboðsaðili PlayStation 2 á Íslandi munu opna í dag netsíðuna www.playstation.is. Þar verður hægt að skrá sig til þátttöku í beta prófunum á netspilun fyrir PlayStation 2.

300 aðilar verða valdir úr hópi þeirra sem skrá sig og fá þeir einstakt tækifæri til að verða þátttakendur í þessum prófunum. Þeir sem verða valdir þurfa að kaupa svokallaðan Netpakka fyrir PlayStation 2 sem inniheldur fulla útgáfu af leiknum SOCOM US Navy Seals, USB heyrnatól með hljóðnema, PlayStation 2 netkort, netsnúru og uppsetningardisk, einnig fá þeir sem taka þátt í prófununum send eintök af nokkrum væntanlegum netleikjum frá Sony Computer töluvert áður en þeir koma í verslanir. Má þar nefna leiki á borð við Hardware Online og Destruction Derby Arena.

Verð pakkans er 7.999.-

Í ágúst verður svo almenningi gert kleift að slást í hópinn, því þá verður opnað fyrir netspilun á PlayStation 2.