The Legend Of Zelda: Ocaria Of Time- Gagnrýni Fyrir tæpum mánuði síðan gerði ég svolítið sem ég hélt að ég myndi aldrei gera. Ég fór út í BT til að eyða síðustu aurunum mínum í Zelda leik. Ástæðan fyrir því? Ég er mikill Final Fantasy aðdáandi en hef ekki alltaf verið það, áður var ég með fordóma gagnvart FF og gaf allgjörlega skít í þá þangað til ég vann FFX í keppni á Popptíví og þegar ég byrjaði að spila hann var eins og það opnaðist fyrir mér ný heimur og eru FF leikirnir núna meira en bara tölvuleikir í mínum augum. Ég hugsaði svo að það sama gæti gerst fyrir mig með Zelda ef ég prufaði þá, og það gerðist. Ég gerði þau reyfarakaup að fá The Legend of Zelda: The Wind Waker Limited Edition, í þessum pakka er aukadiskur sem inniheldur leik sem oft hefur verið kallaður besti leikur allra tíma, þetta var að sjálfsögðu Ocaria Of Time. Ég ákvað að klára OoT áður en ég byrjaði á TWW og settist þessvegna niður í herberginu mínu, dró fyrir gluggatjöldin og bjó mig undir að sogast í ævintýraheim Zelda…

OoT gerist á stað sem heitir Hyrule, það er ekkert voðalega fjölmennur staður en það er óhætt að segja að hann sé ansi líflegur. Þarna búa verur eins og álfar, “Gorons”, “Zora´s” o.f.l. sem eru mjög ólík kvikindi en tekst að lifa saman á Hyrule í friði. En sagan fjallar um ungan dreng sem heitir Link og býr í Kokiri álfaskóginum. Link hefur alltaf liðið eins og hann eigi ekki heima þarna, að hann sé eitthvað öðruvísi en hinir. Link dreymir draum eina nótt þar sem hann stendur við hlið á stórum bæ, allt í einu kemur drungalegur maður ríðandi út með stúlku með sér. Link stekkur frá hestinum rétt áður en hann lendir á honum og vaknar. Þar sem hann vaknar er honum sagt af litíllri álfadís að sá sem stjórnar skóginum, Hið mikla Deku tré vilji tala við hann. Link fer og ræðir við hann og fær þær fréttir frá honum að hinn illi Garon ætli að eigna sér krafta sem gera hann allsráðandi í heimunum og muni þá hreppa heiminn í endalaust myrkur, hann fær einnig þau tíðindi að hann sé sá eini sem getur bjargað málunum…

Markmiðið í OoT er í grófum dráttum að berjast í gegnum margar Dýflessur eða “dungeons” sem eru í raunini yfirleitt engar dýflessur heldur yfirleitt hallir. Með því að vinna þær fær maður hluti sem maður þarf að safna upp til að geta losað heiminn við Ganondorf (maðurinn í martröð Link´s). Í byrjun leiksins er maður ungur Link en fer síðan sjö ár fram í tíman og berst sem fullorðinn Link. Maður þarf að ferðast fram og til baka um tíma í leiknum til að vinna hann sem er mjög skemmtilegt því þá sér maður breytingarnar sem hafa orðið á heiminum, eins og t.d. er einhver gaur sem er alltaf hlæjandi af öllu þegar maður er ungur og síðan sjö árum síðar sér maður son hans sem er líka alltaf hlæjandi og útskýrir hann fyrir manni að það sé vegna þess að pabbi hans sagði honum að hláturinn lífgi upp á tilveruna.

Bardagarnir í OoT eru mjög skemmtilegir. Maður notar sverð og getur varið sig með skjöldi og notar maður “Target Lock” á óvinina sem maður berst við hvern fyrir sig og getur stokkið í allar áttir og lamið ófétið í klessu. síðan er mikið af hlutum allt frá teygjubyssum að sleggjum sem maður getur notað til að auðvelda sér lífið. Til að berjast í gegnum dýflessurnar þarf maður samt að nota heilann ekkert síður en vöðvana því það er hellingur af sniðugum þrautum sem maður þarf að leysa til að komast áfram. Síðan enda dýflessurnar á endakalli sem er gaman að kljást við þó mér finnist þeir vera fullléttir. Það er samt engan vegin nauðsynlegt að vera að berjast í gegnum dýflessur í hvert skipti sem þú ferð í leikin því það er ótrúlega mikið hægt að gera annað. Þú getur farið í reiðtúr, gert aukaleiki til að vinna verðlaun, farið að veiða eða hvað sem er. Heimurinn í þessum leik er svo fjölbreyttur og frábær að maður getur skemmt sér tímunum saman við að leika sér bara að gera eitthvað ef maður er ekki í stuði til að berjast í gegnum söguna. Og talandi um sögu hluta leiksins, hann er nú engin smásmíði hann er í FF-lengd það tekur svona 40 tíma að klára hann og maður getur auðveldlega tvöfalldað þann tíma með öllu aukadótinu.

Leikurinn lítur stórkostlega út miðað við aldur. Maður sér karakterana blikka augunum og hreyfa sig raunverulega. Umhverfið er líka glæsilegt og ekki skemmir fyrir að það er hægt að rústa því á mörgum stöðum. Auðvitað er leikurinn farinn að eldast en það skemmir ekkert fyrir upplifuninni. Tónlistin er svo mikil snilld að það er ekki eðlilegt. Maður fær hvert lagið á eftir öðru á heilann og skapar hún rafmagnaða stemningu í gegnum allan leikinn.

Ja, hvað get ég sagt? The Legend Of Zelda: Ocaria Of Time er einfaldlega einn allra besti leikur sem gerður hefur verið. Þetta er eitt af þessum ævintýrum sem maður lifir sig inní og vill bara ekkert fara úr fyrr en maður er búinn með þetta en eftir að maður er búinn með leikinn fer maður að sakna þess að spila hann. Persónurnar og heimurinn er æðislegur og í bland við þá stemningu sem skapast í kringum það kemur stórskemmtileg og fjörug spilun.


OoT er eins nálægt fullkomnum og leikir geta verið.

10/10