Jæja, nú er ég loksins að láta verða af því að skrifa um minn “leikjaferil” ef þannig má orða það. Ætla að byrja á því að þakka jonkorn fyrir sína grein (skrifuð 15. des 2002) því hann er sá sem fékk mig til að vilja skrifa þetta. Klöppum fyrir honum!

Þetta byrjaði nú með hinum yndislegu Game & Watch spilum frá Nintendo. Þegar ég hef verið svona 4-5 ára gömul hékk ég í þessum spilum öllum stundum, var hálf límd við þau. Eftir að ég byrjaði síðan í grunnskóla var ég mikið hjá bekkjarsystur minni, en hún átti hina stórkostlegu NES og ROSALEGT magn af leikjum. Við lékum okkur í NES tölvunni hennar daginn út og inn, fengum aldrei leið á þessu. Eftirminnilegast er á hafa spilað Mario, Duck Tails, Batman, Turtles, og annað í þeim dúr. Allavega er þetta ein besta og skemmtilegasta minning mín úr æsku.

Nú liðu nokkur ár, og ekki var ég ennþá búin að eignast mína eigin leikjatölvu, en það breyttist! Önnur bekkjarsystir mín vildi selja sína, og hana fékk ég. Leikirnir voru meðal annars Bubble Bobble, Mario 1, Ice Man, og fleirri. Stuttu síðar fékk ég svo GameBoy með nokkrum leikjum. Ég hef verið circa 8-9 ára þegar ég fékk loksins þessar vélar. :)

NES átti ég nú samt ekki lengi. Eftir frekar stuttan tíma þá var í ég í einskonar nytjamarkaði með foreldrum mínum, og þar sá ég Sega Mega Drive með 10 leikjum og 2 stýripinnum. Ég man ennþá hversu spennt ég varð, mig langaði svo í svona vél! 'eg hafði oft verið í raftækjaverslunum að leika mér í Sonic 2, og þarna var ekki bara sá leikur heldur líka Sonic 1 og 3! Vá! :) Mamma félst á að kaupa þessa vél ef ég seldi NES vélina, og það gerði ég. Sé reyndar ekkert eftir því, á núna 2 NES svo þetta er allt í góðu.

Nú liðu árin, og aðrar vélar fékk ég ekki. SNES var flott, en leikirnir ALLTOF dýrir…allt að 10.000kr fyrir einn leik! Nei, jafnvél mér, lítilli stelpu, fannst það aðeins of mikið. Í staðin voru mamma og pabbi dugleg að kaupa leiki í Mega Drive og GameBoy, og er það þeim að þakka að ég á risa safn af leikjum fyrir báðar vélar. :) Mest af þessu var keypt notað í Kolaportinu á sínum tíma, við versluðum alltaf við sama karlinn.

Reyndar eignaðist ég SNES tölvu, notaða með stýripinnum en engum leikjum, en það var bara til þess að geta nýtt Super GameBoy stykkið sem mamma keypti…flott að spila GameBoy leiki í SNES!

Og en liðu einhver ár. Í lok ársins 1997, ef ég man rétt, fékk ég svo PlayStation og slatta af leikjum…Spyro The Dragon, Crash Bandicoot 1 og 2, Tomb Raider 1 og 2, Klonoa (einn af mínum uppáhalds leikjum!) og sitthvað fleira. Það getur verið að þetta hafi verið í árslok 1998, en ég bara man það ekki. :) Stuttu síðar fékk ég svo N64 með 2 leikjum á einhvern 10.000 kall hjá einhverjum gaur sem auglýsti þetta í dagblaðinu.

Ég man það að sumarið 1998 fór ég í mína fyrstu utanlandsferð, og fékk þar heilmikið af leikjum. GameBoy leikir voru MJÖG ódýrir í Danmörk á þessum tíma, rétt ym 1000-1500kr stykkið, og PlayStation leikirnir voru líka frekar ódýrir. En í gullkistuna komst ég svo þegar ég fór til Þýskalands! Í einhverjum bænum þar fann ég safnarabúð sem sérhæfði sig í leikjatölvum…Þar fékk ég GameBoy Color (einsog ný og í kassa), nokkra leiki fyrir Sega Mega Drive, stýripinna og minniskort og annað slíkt fyrir N64, og eitthvað fleira. Skulum ekki gleyma því að þarna fékk ég líka Harvest Moon fyrir GameBoy, og þar með vitum við hvað startaði þessari ódrepandi Harvest Moon sýki hjá mér. :Þ

En jæja, nú vil ég tala um nokkuð sem breytti lífi mínu. Rétt eftir að ég kom heim frá útlöndum árið 1998 fékk ég í hendurnar eintak af leiknum Final Fantasy VII (7). Ekki vissi ég hvað RPG þýddi á þessum tíma, og var ég í hreinskilni sagt alveg einsog kjáni þegar ég spilaði þennan leik fyrst. Ekki vantaði uppá ensku kunnáttuna, enskan er sem mitt annað móðurmál og hefur alltaf verið, svo ég fattaði söguþráðinn…en vá, engin smá söguþráður og það í tölvuleik! Einhvernvegin komst ég í gegnum leikinn, ég las um hann á netinu og komst að því að það voru fleirri en þessi (já, ég fattaði ekki þá að vii er 7 XD), og síðan þá hef ég verið kraftmikill FF aðdáandi. :)

En hvað um það, þegar Sega Dreamcast kom út þá varð ég að eignast þannig, og mamma var svo góð að kaupa hana handa mér (og Sonic Adventure líka, ég hef alltaf verið Sonic fan, les meira að segja ennþá myndasögurnar um Sonic sem koma út mánaðarlega!). Það hefði kannski verið sniðugt að bíða einhverja mánuði því vélin snarlækkaði, en ég var bara svo spennt! En nú hef ég lært af reynslunni…best að bíða, og vélarnar munu lækka sama hvað hver segir!

Nú kom svo hlé í leikjatölvu kaupum, en ég hélt áfram að sanka að mér leikjum í allar vélarnar mínar, og spilaði af gríð og erg.
Það var ekki fyrr en í fyrra, 2002, sem ég síðan fékk mér PlayStation 2. Ég fékk hana notaða með tæplega 30 góðum leikjum fyrir 50.000kr (sem er EKKI mikið) og núna er safnið komið uppí 40 leiki eða svo. :)

Svo var það núna fyrir tæpum mánuði að ég fékk mér GameBoy Advance, en það er ekki allt! Undanfarnar vikur hefur fólk verið duglegt að henda til mín gömlu leikjatölvunum sínum, svo ég á núna ógrynni af Nes, Snes, Mega Drive, og fleirru. Gott mál bara, ef ein vél bilar þá tek ég bara þa´næstu! ;)

Hvað meira get ég svo sagt…ég ólst upp með tölvuleikjum og þær hafa átt stóran hlut í lífi mínu. Ég hef aldrei verið fyrir PC leiki, svo það útskýrir hversvegna ekkert er mynnst á PC hér…ég vildi bara ekta leikjatölvur og ekkert rugl! Vil það reyndar enn, en ég ætla samt að gefa nokkrum PC leikjum tækifæri á næstunni. :Þ

Svona í lokin vil ég bara segja að ég er hreinræktaður leikjafíkill, og ég er stolt af því! Fólk sem kynnist ekki tölvuleikjum er að missa af ótrúlega miklu. Það er hreinlega að missa af einstöku ævintýri, því það er jú það sem leikjatölvur og leikir eru í mínum augum…litlir töframolar sem eru fullir af nýjum ævintýrum og spennu.

Takk fyrir mig, og ef þið viljið skoða safnið mitt nánar þá er það (að mestu leiti) skráð á kasmír síðunni minni. :)

Lifi leikjatölvan!