Nú þar sem þessi grein er búin að vera á BT.is í smástund þá ákvað ég að leyfa mér að setja hana hérna á huga líka. Ég læt enga mynd fylgja en upphaflega er greinin birt á BT.is og skrifuð fyrir þá síðu og eru myndir þar. Greinina má finna á forsíðu BT.is.



Colin McRae Rally 3 [Xbox útgáfan]

Framleiðandi: Codemasters
Spilendur: 1-4
Tegund: Bílaleikur
Aldur: 3+
Einnig til á PlayStation 2
Væntanlegur á PC og GameCube


Colin McRae hefur verið einn fremsti ökumaður heims í ein 15 ár og er að mig minnir sigursælasti rallýökumaður fyrr og síðar. Hann hefur orðið heimsmeistari í rallý og hefur stimplað sig inn í sögubækur WRC-keppninnar og sögu rallýsins um allan heim svo um munar. “The flying Scotsman” lætur sjá sig í þriðja sinn í tölvuleik sem ber hans eigið nafn, Colin McRae Rally. Codemasters sjá um þetta enn eina ferðina, enda eru þeir með Colin McRae nafnið á samning.

Fyrsti leikurinn kom í PlayStation (PSX) árið 1998 ef ég man rétt og sló í gegn, var kallaður besti ökuhermirinn sem gerður hefur verið og skartaði grafík sem þá þótti með eindæmum djúp og góð. Framhaldið, Colin McRae 2.0 kom svo að mig minnir árið 2000 og varð enn vinsælli en fyrirrennarinn og setti standard um það hvernig bílaleikir eiga að vera. Núna þar sem þriðji leikurinn er kominn í verslanir BT fyrir Xbox og PlayStation 2 (og bráðlega GameCube) þá er um að gera að taka aðeins í stýrið á Ford Focus RS WRC ´02 og finna hvernig er að vera Colin sjálfur. Ég tók í Xbox útgáfuna af leiknum.


Framsetning:

Ég ætla að lýsa svona því sem gerist á leið inn í Stages og Championship, hvernig það er sett upp og þess háttar, það er hvernig menu og allir valmöguleikar leiksins virkuðu á mig. Leikurinn hefst á hefðbundnu rallý-intro þar sem vinur okkar, Colin “McCrash” er í aðalhlutverki. Eftir að hafa horft á nokkrar tölvugerðar senur þá var ég orðinn spenntur að prófa, enda forfallinn rallý-áhugamaður í lengri tíma. Ég komst inn á aðalvalmyndina og þar er sama sagan upp á teningnum hvað varðar menu í þessum leikjum. Furðulegt “rúlluval” neðst á skjánum (fer í hringi, eða er bara endalaust í báðar áttir) sem virkar ágætt í byrjun en verður svo bara þreytt að mínu mati. Þó eru allar valmyndir flottar og stílhreinar. Hvítur bakgrunnur og þrír teningar sem flettast og sýna það sem maður er að skoða. Býsna nett en hefur sína galla. Gallinn er að skjárinn verður svolítið tómur og snauður. Þar sem bíll er valinn eru teningarnir aftur á ferð og þar flettast þeir til að sýna hinar ýmsu bifreiðar og þá ekki ljósmyndir heldur tölvuteiknaðar myndir með einskonar gegnumlýsingu að hluta til því grind og innviði bílsins sjást að hluta til. Valmyndin fyrir löndin og brautir eru þær sömu, teningarnir og svo rúlluvalið sem ég minntist á áðan. Já, það verður svolítið þreytt. En hlutirnir skána aðeins þegar framhjá því er komið. Sýnd er brautin á korti og er það nýtt sem hleðslu skjár en hleðslutíminn (loading time) er svo sem ekki mjög langur í þessum leik, ólíkt WRC í PS2, þar sem hleðslutíminn var nánast eins og heilt keppnistímabil (ekki alveg en…). Eftir smá bið byrjar ballið.

En ef maður er í Championship þá velur maður ekki bíl heldur er Colin valinn fyrir mann og maður keyrir á Ford Focus WRC takk fyrir það! En eftir að hafa séð hvernig mótið er uppsett, þ.e hvaða lönd eru í og í hvaða röð þá fær maður hleðsluskjá og svo “Start Rally” skjá, þar sem Colin mætir upp á pall í byrjun keppni. En fljótlega þar á eftir sér maður viðgerðarmenn vera að fikta í bílnum og er það vel gert, þeir hreyfa sig eðlilega og virkar sem þeir séu virkilega að gera eitthvað. Sitja ekki bara þarna og góna á bílinn. En jæja í keppnina skal halda! Áður en kemur að Colin (okkur) þá kemur upp mynd af bíl sem fer inná brautina á undan Colin (okkur) og því næst kemur Colin sjálfur (spilarinn, við! Jey!) og stoppar hann við tímahliðið. Því næst fáum við skjá með yfirliti yfir stöðu bílsins, hvað er skemmt og hvað er heilt. Snyrtilega gert. Eftir þrjár sérleiðir kemur viðgerðarhlé og finnst mér sárlega vanta það sem gerði CMR2.0 svo skemmtilegan. Raunverulegar viðgerðir! Maður fékk ákveðinn tíma til að gera við bílinn og tók hver sérstök viðgerð X langan tíma og drógst það af heildartímanum. Þetta er horfið og í staðinn er bara simple amatjör set-up fyrir bílinn þar sem maður velur bara dekk og vélarbreytingar. Engin dýpt í því. Ég hefði viljað sjá það dýpra auk þess sem viðgerðarparturinn hefði mátt halda sér. Vinni maður rallý, hvort sem er mót eða einstaka keppni sér maður Colin og félaga hans, Nicky Grist, keyra ofan á pallinn góða og standa ofan á bílnum, sem mér finnst skömm! En hann skemmist hvort eð er í höndum Colin “McCrash”!

Líka vert að taka fram að í þessum leik fær maður þá tilfinningu að maður sé hluti af mótinu. Maður sér viðgerðarliðið sitt og Colin sjálfan í sjónvarpsviðtali. Maður sér þegar bíllinn fer á pall í byrjun keppni og ef maður vinnur fær maður að sjá Colin ofan á bílnum með bikar. Þar að auki er mikill viðbúnaður áður en maður fer í brautina. Tímaverðir tala við Nicky Grist og myndavélamenn eru á svæðinu. Allt þetta og meira gerir leikinn trúlegri en aðrir leikir hafa gert. Mjög vel gert og skemmtilegt.


Spilun:

Allir helstu bílaframleiðendur heims (sem eitthvað eru í rallýþróttinni) eru með í þessum leik. Ford, Subaru, Mitsubishi, MG, Citroen, Fiat og Peugeot og eflaust fleiri. Í WRC (fyrir PS2) sem dæmi þá eru allir bestu ökumenn heims í leiknum NEMA Colin McRae. En í þessum leik er einmitt þveröfugt farið. Enginn nema Colin McRae. Ég allavega þekki ekki hin nöfnin en ég er ekki mikið inn í rallýinu fyrir utan WRC og hinu íslenska. Löndin eru Bretland, Bandaríkin, Svíþjóð, Japan, Spánn, Finland, Grikkland og Ástralía. En ég hef bara spilað í gegnum “Normal” og “Hard” og eflaust bætast við fleiri lönd í “Very Hard”. En hvað um það. Til að byrja með leist mér ekkert á hvernig bílarnar hegðuðu sér á veginum. Fyrst fannst mér þeir vera eins og lest á teinum þegar ég var á malbiki en þegar á möl var komið fannst mér þeir vera eins og belja á svelli og í sífelldu “slædi” (drift). Einnig fannst mér hraðatilfinning vera lítil sem engin, en það er svo sem ekki að marka það, þar sem ég er vanur Rallisport Challenge en þar er hraðinn ógnvekjandi. En ég vandist þessu fljótt og eftir smátíma þá fór ég að læra almennilega inn á handling bílsins og stór hluti af því var vinstri-fótar-bremsu tæknina hans Colin. Þ.e sleppa bensíngjöfinni sem minnst í víðum beygjum eða halda henni hreinlega inni og bremsa létt en hins vegar þarf líka að nota bremsurnar svakalega í krappari beygjum og fara diskarnir þá að glóa. Stýringin er sem sagt svolítið klunnalega til að byrja með en venst fljótt og verður alveg eðlileg ef þú ert bílaáhugmaður og skilur hvernig bílar hegða sér við svona aðstæður. Semsagt eftir smá tíma ferðu að kastast um allt eins og brjálaður Colin um allar beygjur og tekur handbremsubeygjurnar eins og mamma þín stoppar í götin á sokkunum þínum. Ekkert mál! Það er alveg með eindæmum hvað það er skemmtilegt að fara í gegnum beygjurnar allar á hlið og taka þetta með stæl. Auðvelt og skemmtilegt. En þetta er enginn Laugarvegsrúntur. Til allrar hamingju er Nicky Grist góður aðstoðarökumaður og les hann nóturnar sínar fyrir okkur meðan við keyrum og hjálpar hann og hans merki mjög vel í leiknum. Án þeirra væru bílarnir hreinlega á leiðinni í Endurvinnsluna mjög fljótt.

Það sem fær mann til að læra betur á virkni bílanna eru tjónin sem þeir lenda í. Ef þú klessir á þá fer bíllinn þinn smátt og smátt að líkjast einhverju sem þú sérð á brotajárnshaugum. Rúður brotna, vindskeið flýgur af, afturstuðari losnar og flýgur af, húdd flýgur upp á rúðuna (blindast ef þú ert með sjónarhornið inn í bílnum), dekk og felgur rifna undan bílnum og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er merki um mikla vinnu bakvið bílana. En nánar um það á eftir. En til þess að hafa leikinn sem raunverulegastann eru bílarnir með, já, raunveruleg tjón. Þó sakna ég þess rosalega að þurfa að laga sínar skemmdir sjálfur og fá tíma til þess. Það gaf leiknum meiri dýpt og meiri tilfinningu fyrir raunveruleikanum. Kannski er það í “Very hard”? Ég sá allavega að það er ekki í “Normal” né í “Hard”. Mikill söknuður.

Þegar manni gengur vel fær maður sitt fyrir það. Ef þú vinnur keppni, einstaka það er, færðu nýja gerð af dekkjum, stífari eða mýkri fjöðrun, stærri túrbínur, öflugri bremsur og svo mætti lengi telja. Margt hægt að vinna inn og gefur það leiknum aðeins meira hvað varðar dýpt. En einnig er hægt að vinna sér inn heilu bílana, svo sem Citroen Saxo og fleiri en þar eru líka gamlir og góðir bílar á borð við Metro 6R4 og Ford RS200 en þeir eru með þeim villtustu sem tekið hafa þátt í rallýinu viðsvegar um heim. Sannkölluð villidýr.

Brautirnar í leiknum eru margar hverjar mjög skemmtilegar, nægilega mikið af alls kyns hlykkjum og U-beygjum. Það sem gerir sérleiðirnar enn skemmtilegri er það að náttúran spilar svolítið inn í þær með gróðri um allt, runnar eru alveg út á veg og skyggja alveg á útsýni, tré og steinar eru í kanntinum þannig að mikið rennerí (drift) er ekki mjög æskilegt. Einnig er sumstaðar litlir pollar eða lækir sem maður þarft að bunast yfir. Svíþjóðarrallýið er mjög flott og er snjóumhverfið mjög flott, sérstaklega ísilagður vegurinn þegar sólin skín í hann. Ég fékk í raun og veru ofbirtu í augun og leið ekkert allt of vel, en svo vel er þetta gert. Sama má segja um blautt malbik og sól. En þó er galli í snæviþöktum sérleiðum að leiðin hefur verið sköfuð og bakkarnir sitthvorumegin við veginn eru eins og veggur fyrir bílinn. Maður getur ekki farið yfir þetta með léttum leik en sama má segja um asnalega lága kletta eða sandbyngjur í öðrum brautum. Leiðinlegt þar sem maður vill stundum leik sér með því að stökkva og taka ýmsar áhættur. En allt í allt eru brautirnar mjög flottar í alla staða fyrir utan smá ljótleika í sumum áferðum (sjá neðar).

CMR3 vill vera svokallaður hermir og tekst honum það ágætlega þegar kemur að akstrinum sjálfum og tjóninu, hvað þá upplesningu Nicky Grist. En einhverra hluta vegna er hann líka einskonar spilakassaleikur bílaleikur að hluta til. Hvers vegna? Valmyndirnar og fráfall viðgerðardótsins títtnefnda gera hann að einskonar spilakassaleik. Það er auðvelt að koma sér áfram í honum og það er auðvelt að stilla upp bílnum. Maður þarf varla að gera það sjálfur og þess vegnar verður hann blanda af tvennu, sem er alls ekki svo slæmt, enda eru 100% aksturshermar ekki heillandi fyrir þá sem eru ekki mikið inn í bílabreytingum því það er ekki bara að ýta á ON og OFF. Að breyta bílum er ekki fyrir hvern sem er og þeir hafa eflaust haft CMR3 sem auðveldastan svo að meðalmaðurinn gæti gripið í hann og skemmt sér. Þó hefði ég viljað sjá valmöguleikann “Pure-Simulator” fyrir okkur nöttarana. Það er alveg afskaplega gaman að fikta í fjöðrun, gírhlutföllum, áshalla, hjólhalla og bremsum. Þið sem kunnið fyrir ykkur í Gran Turismo ættuð að þekkja hvað það gat gert fyrir bílinn.

Leikurinn hefur sinn fjölspilunarmöguleika og geta allt að fjórir spilað hann í einu. Ég prófaði nú bara að spila á móti einum og var leiknum því skipt í tvennt. Það er, annar upp og hinn niðri. Þetta venjulega. Ágætis skemmtun það en ég spilaði leikinn ekki mikið þannig svo ég get ekki mikið dæmt um það hversu góður hann er þar en ég prófaði eins manns leikinn aðallega. En af því litla sem ég prófaði þá er Rallisport Challenge skemmtilegri í fljölspilun. Meiri hraði, meira fjör, meiri skemmtun. Auk þess hefur Rallisport meiri endingu en þar er Rallý, Rallýcross, Hill-Climb, Ice Race og fleira. Sem fjölspilunarleik mundi ég velja Rallicross.


Grafík:

Grafíkin í CMR3 er í heildina litið góð. Þá sérstaklega veðurbrellur og glampi í blautri jörð og klaka. Þó er einn hlutur sem mér finnst bera af í leiknum en það eru regndroparnir sem koma á rúðuna og þurrkurnar sjá um að fjarlægja þá. Það er svo vel gert að ég gæti hreinlega búið til eigin slefdropa í sófann. Droparnir eru vægast sagt raunverulegir og hvernig þeir hreyfast eftir hraða bílsins og hvernig þeir mynda vatnsrákir í rúðuna eftir að þurrkan hefur gert sitt er bara merki um færni Codemasters. Þeir effectar sem eru flottir eru meðal annars regndroparnir, ryk og drulla á bílnum (hvernig hún myndast jafnt og þétt) og tjón á bílnum. Það er rosalega flott að sjá bílinn fyrst hreinan en smátt og smátt verður hann að rykhaug eða þakinn snjó. Hver braut hefur sitt intro og er það tölvugert en mér finnst þau frekar kubbótt (pixelated) og furðuleg en samt flott, þó þau gætu verið betri að mínu mati. Til dæmis eru alvöru myndbandsklippur alltaf mjög skemmtilegar eins og í WRC fyrir PS2.

Hver einasti hluti bílsins er teiknaður og þegar þú ert t.d með húdd sjónarhornið á og húddið rifnar af, þá sérðu vélina, og hún hristist eftir ákveðinni inngjöf og hver hlutur er sjálfstæður frá öðrum. Alvöru! Einnig er þetta svona með undirvagna. Hann er allur teiknaður líka og sama á við um innréttingu. Veltibúr, mælaborð og allt saman hefur verið teiknað upp fyrir leikinn og nánast allt saman gefur sig, brotnar og bilar. Sem er ekkert nema hreinasta snilld. Þegar bíllinn hefur misst ýmsa hluti, svo sem bretti og hurðar, kemur grindin í ljós og sjást öll smáatriði frekar vel. Ég lék mér til dæmis að því að stúta einum bílnum, og það eina sem ég sat eftir með var grind með tveim stólum, mælaborði, stýri, felgur án dekkja, vél og toppur auk ökumanns og aðstoðarökumanns. Það var nokkuð skondið að keyra síðasta fjórðung leiðarinnar og taka í það 10 mínútur. Nokkuð efnilegt miðað við það að hann hafði ekkert sem kallast grip, bara rispaðist áfram á felgunum og það á ógnarhraða, 6km/h! Svona lagað setur dýpt í leikinn því með hverri stórskemmd minnkar aksturseiginleiki bílsins.

En þó verð ég að kvarta aðeins. Mér finnst Xbox ráða við meira en þetta. Nokkrar áferðir eru einfaldlega ljótar og illa teiknaðar. Sem dæmi eru sum trén alveg skelfileg og grindverk, gras og möl frekar slapplega gert. Það er eins og sumum hlutum í leiknum hafi ekki verið sýnd nægileg gætni og bara flýtt sér í gegnum það. Bílarnir eru samt vel gerðir en þó svolítið subbulegir að hluta til. Í viðgerðarhléum eru viðgerðarmennirnir frekar slappir líka en þó eru hreyfingar góðar. Ég hef lesið víðsvegar um að þessi leikur sé flottasti bílaleikur sem gerður hefur verið en ég er fjarri því að vera sammála. En sem rallýleikur er hann sá flottasti. Vissulega eru bílarnir vel gerðir og veðurbrellur líka, sem og sólarlag og sólarglampi í til dæmis ísilögðum vegi svo ekki sé minnst á flotta klettaáferð hér og þar. En í heildina finnst mér Rallisport Challenge fyrir Xbox flottari, þó að bílarnir þar séu ekki með eins mikið af smáatriðum. En konungur bílanna, hvort sem rætt er um grafík eða bílauppsetningu er Gran Turismo serían. Það toppar ekkert það. CMR3 virkar eins og hann hafi verið gerður með PS2 í huga (grafíklega séð) en síðan fluttur yfir á Xbox og seinna GameCube. Xbox og GameCube ráða við betri grafík en þetta og það vita flestir sem eitthvað eru inn í þessum málum. En það ætti samt ekkert að þurfa að kvarta yfir þessu þar sem leikurinn er eins og ég sagði í heildina litið mjög flottur, þó hann gæti verið flottari. Hann rennur vel og hikstar ekkert og er þessi smá smáatriða ljótleiki örugglega til að halda rammaflæðinu vel gangandi. Smá ljótleiki í umhverfi skiptir voðalega litlu máli þar sem megnið af umhverfinu er magnað og vel gert. Auk þess keyrir maður það hratt framhjá öllu að maður veitir þessu voðalega litla eftirtekt. Svo að ekki taka þessari kvörtun sem stórgalla takk fyrir. Þar að auki hafa allir rallý leikir hingað til haft þessa grafísku galla svo þetta er ekkert alvarlegt í mínu augum. Bara eitthvað sem ég vildi minnast á.


Hljóð:

Það sem ber af í leiknum er túrbínu og vélarhljóð bílanna. Það er æðislegt að hlusta á bínuna garga og vélina vinna ásamt því að sprengingar og ventilhljóð þegar skipt er um gír eru skemmtileg. Það er líka skemmtilegt þegar hljóðkútur fer en þá eykst fretið enn meira og er það bara skemmtilegt. Allt sem við kemur skemmdum á bílnum hafa sín hljóð og eru þau öll vel gerð. Hvort sem um ræðir glerbrot eða húdd að þjóta upp á framrúðu eða jafnvel felga að skrapast eftir malbiki, allt saman hefur sitt hljóð og er það vel gert. Öll umhverfishljóð eru flott, svo sem í mölinni og snjónum. Nicky Grist sjálfur les inn nóturnar og það skiptir miklu máli ef þú ætlar þér að vinna í þessum leik, án Nicky værir þú trjáskraut.

Einn kostur við hljóðið í keppnum er að það eru engin lög þegar á þeim stendur heldur ertu bara með Nicky í eyrunum og skiptir hann miklu máli eins og komið hefur fram. Lög myndu bara trufla hans tal og allt færi í klessu. En annars eru örvarnar á sínum stað þannig að þeir sem ekki nenna að hlusta á aðstoðarökumann með viti geta svo sem keyrt eftir þeim, en Nicky veit hvað hann er að segja svo er það líka aukning á raunveruleikatilfinninguna í leiknum að heyra hann undir öllum vélarhljóðum, brothljóðum og því um líkt. Í valmyndum eru þó lög eða lag, því mér finnst alltaf vera sama og lagið og er það eflaust alltaf það sama.


Ending:

Leikurinn hefur ágætis endingu en þó ekkert í samanburði við til dæmis Rallisport Challenge. Ekki nóg með að sá leikur sé fjölbreytilegri heldur er hann einnig hraðari og meira spennandi þar af leiðandi. En það er ekki beint hægt að bera þessi leiki saman þar sem CMR3 er hermir en Rallisport er einskonar spilakassaleikur. En nóg um það. Sem rallýleikur þá er hann með fína endingu og er Championship ágætlega skemmtilegt. Það sem mér hefur fundist mjög skemmtilegt eru tjónin. Það er sér kafli út af fyrir sig að leika sér að því að skemma bílana og horfa á ýmsa hluti fljúga af og jafnvel dekk skoppa um hóla og hæðir, og reyna svo að komast á felgunum einum saman jafnvel í markið. Fjölspilunarmöguleikinn eykur enn meira í endingargildi leiksins og ættu bílaáhugamenn að skemmta sér vel í þessu ef þeir hafa áhuga á rallý og þeim hasar sem er í kringum það. Þar að auki er það krefjandi að reyna að vinna inn allt sem hægt er að vinna og opna fyrir. Svo sem breytingar á bílum (fjöðrun, túrbínur, dekk, bremsur og fleira) og að opna fyrir bíla og brautir.

Kostir:

+ Flottur rallýleikur
+ Bílar höndla mjög vel þegar maður lærir á þá
+ Skemmtilegar sérleiðir
+ Alvöru rallýbílar
+ Þeir skemmast!
+ Veðurbrellur
+ Gerir kröfu um smá aksturshæfni
+ Verðlaun fyrir sigra (breytingar og bílar)
+ Aukaefni (Making of CMR3)

Gallar:

- Grafískur ljótleiki hér og þar, ekkert stórvægilegt
- Vantar alvöru viðgerðir eins og var í CMR2.0
- Vantar fleiri ökumenn eins og Grönholm, Burns, Makinen og fleiri
- Frekar einfaldur í uppsetningu
- Ekki alvöru uppsetning fyrir bílana, bara “klikkaðu-til-að-breyta”
- Svolítið furðuleg stjórnun til að byrja með
- Frekar grunnur leikur miðað við marga aðra
- Stuttur (finnst mér)


Einkunnargjöf:

Spilun: 9.5

Furðuleg í byrjun en venst fljótt og eftir smá stund spilar þú leikinn eins og þú hafir spilað hann í ár. Skemmtilegur leikur í flesta staði. Vantar alvöru viðgerðir í viðgerðarhléin þó.

Grafík: 8.7

Flott smáatriði í bílum og flottar veðurbrellur. Umhverfi er flott á mikilli ferð en annars frekar slappt. Gæti verið betra þar sem Xbox gæti gert meira, það er vitað mál.

Hljóð: 9.2

Flott bílahljóð og skemmdarhljóð. Nicky Grist skilar sínu vel og hljálpar líka mikið. Í heildina litið mjög vel gerð hljóð.

Ending: 8.0

Fínn leikur út í gegn en verður þó leiðigjarn eftir “Hard”. Lítil fjölbreytni þar sem þetta er bara rallý út í gegn og ekkert annað en sem rallýleikur er þetta hrein snilld. Mætti vera dýpri stilling á bílum. Frekar einfaldur en þó gerir hann kröfur til aksturshæfni. Fjölspilunarmöguleikinn er líka skemmtilegur.

Lokaeinkunn (ekki meðaltal): 8.9

Frábær rallýleikur, flottir og vel gerðir bílar og með raunverulegum og trúanlegum skemmdum. Brautirnar eru magnaðar og vel gerðar, mikið fjör að keyra þær. Það er alveg greinilegt á brautunum og bílunum að dæma að mikil vinna hefur farið í leikinn, sérstaklega hvað varðar teikningu á bílum og brautum. Skemmdirnar eru hreint út sagt frábærlega vel gerðar og gefa leiknum ærlegt spark í óæðri endann og sýna að Codemasters eru fremstir í sinni röð þegar kemur að svona löguðu.

Fyrir rallýáhugamenn og bílafólk mæli ég með þessum leik en fyrir þá sem vilja bara bílaleik sem er auðvelt að grípa í og nota sem hálfgerðan partíleik þá mæli ég frekar með Rallisport Challenge í Xbox eða Shox í PlayStation 2. En allt í allt er þessi leikur þess virði að kaupa og ættu eins og ég segi alvöru bílaáhugafólk að skemmta sér vel í honum. Ég allavega hafði mjög gaman af honum enda er ég mikill rallýáhugamaður í mér.

Colin McRae Rally 3 er kominn út fyrir Xbox og PlayStation 2 en PC útgáfan kemur í maí á þessu ári. GameCube útgáfa er einnig væntanleg.
Þetta er undirskrift