Hið margrómaða leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, Á Herranótt, sýnir í ár hið vinsæla leikrit Hundshjarta eftir Michail Bulgakov í Tjarnarbíó. Snýst leikrit þetta um heimsþekktan vísindamann, sannkallaðan afreksmann á sviði líftækni, sem tekst á við það viðamikla starf að breyta hundi í mann, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Með hlutverk vísindamannsins Dr.Umba fer Karl Ágúst Þorbergsson en hægri hönd hans, Dr.Bordal er leikinn af Hilmi Jenssyni. Aftur á móti fer Sigurður Arent Jónsson með hlutverk hundsins af einstakri kostgæfni og snilld.
Persónulega finnst mér þetta leikrit vera eitt það besta sem ég hef séð í lengri tíma og á leikfélag MR skilið rós í hnappagatið fyrir þessa einstöku uppfærslu sína. Hvernig maður lifir og hrærist með persónum leikritsins, hvernig doktorinn þarf að kljást við þessi sífelldu nöldurmál húsfélagsins og hversu ómannlegur hundurinn verður sem maður.
Það eru aðeins tvær sýningar eftir af þessu frábæra verki og eru þær sýningar á þriðjudaginn 11.mars og miðvikudaginn 12.mars og hvet ég alla til að mæta. Þessari sýningu gef ég fjóra og hálfa störnu af fimm þó það hafi lítið vantað upp á.