Nokkrir gullmolar leikhúsanna 2. hluti Þá er komið að seinni hlutanum af þessari grein minni. Í fyrri hlutanum fór ég yfir nokkur barnaleikrit sem ég hafði séð síðustu ár og fannst jaðra við fullkomnun þegar ég sá þau á sínum tíma. Nú er komið að hinum leikritunum. Ég tek það fram að þetta er allt svokallaðar stórar sýningar. Sorglegt en satt. Ástæðan er alls ekki sú að þessar “litlu” séu lélegar heldur hef ég bara verið svo hræðilega latur að fara á þær. En það er efni í aðra og sorglegri frásögn. Njótið vel.

Fyrsta “fullorðins sýning” sem ég fór á var söngleikurinn Syngjandi í rigningunni. Greinilegt var að engu var til sparað og í tvo tíma var maður sannfærður um það að maður var kominn 70 ár aftur í tímann á miðpunkt kvikmyndaiðnaðarins: Hollywood. Gríðarlegur fjöldi leikara tók þátt í sýningunni( reyndar held ég að ég hafi aldrei séð jafnmarga leikara í leikriti fyrr né síðar) sem og hljómsveit skipuð úrvals hljóðfæraleikara á borð við Sigurð Flosason og starfsstéttir sem taka sjaldan þátt í leikritum s.s. kvikmyndaumsjónarmenn og rigningaúðasérfræðingar (eða eitthvað svoleiðis). Eitt skemmtilegasta atriði sýningarinnar var einmitt þegar lagið “singin´ in the rain” var flutt og það rigndi bókstaflega á sviðinu. Ég var svo heppinn að vera á fremsta bekk og fór ég hundblautur í hlé. Buningarnir og leikmyndin sannfærði mann um að maður væri staddur í miðri stórborg en ekki í litlu Reykjavík. Hvað leikarana varðar þá voru Stefan Karl, Þórunn Lárusdóttir og Kjartan Guðjónsson bestir. Klárlega eftirminnilegsta leikrit sem ég hef farið á.

Edith Piaf var merkileg persóna og ennþá merkilegri söngkona. Á sýningunni Edith Piaf lærði ég að meta þennan litla, franska söngfugl sem Brynhildur Guðjónsdóttir túlkaði óaðfinnanlega. Um leið og ég labbaði út úr leikhúsinu uppgötvaði ég hversu stórkostleg leikkona Brynhildur er en mér fannst aldrei mikið til hennar koma í sjónvarpsþáttunum Stelpurnar. Augljóst er að hún á heima á leiksviðinu. Hún túlkaði Piaf frá tíu ára aldri og til dauða og það var ótrúlegt að sama mannseskjan gæti leikið hana sem lítið barn og sem fjörgamla konu og alltaf jafn sannfærandi. Einnig söng hún á frönsku eins og ekkert væri og tókst að vekja áhuga manns á sönggyðjunni, Edith Piaf.

Næsta leikrit verður erfiðara að skrifa um enda það nýjasta af þessum þremur sem gerir það erfiðara fyrir mig að nota afsakanir eins og “ég var svo ungur þegar ég sá það” þegar fólk skammar mig fyrir valið yfir einn af gullmolum leikhúsanna. Leikritið er Ivanov eftir rússneska rithöfundinn, Anton Tsjekhov. Það var eitthvað sem hreif mig í þessu leikriti. Gæti það hafa verið dramatískur en um leið grátbroslegur söguþráðurinn. Eða var það hinn lýtalausi leikur sem að hreif mig með. Eða var það jafnvel hin einfalda en um leið stórsnjalla leikmynd. Lílegast til var það þetta allt sem átti þátt í að fullkoma kvöldstundina hjá mér þetta ákveðna kvöld. Baltasar tókst snilldarvel upp og eftir situr spurningin hvort er betri: kvikmyndin eða leikritið?

Já, er til eitthvað betra en tilfinningin sem maður fær eftir gott leikrit þar sem allt gengur upp? Ég býst við að svarið sé hjá flestum, “Já, það er margt betra til” og er ég svo sem sammála því en það er samt ekki margt sem toppar það;)
Veni, vidi, vici!