Já komiði sæl!

Ég ætla að byrja á því að segja frá því hvað Leiktu betur er, svona fyrir þá sem ekki vita. Leiktu betur er leikhússportkeppni framhaldsskólanna og var haldin í 6. skiptið 10. nóvember síðastliðinn í Tjarnarbí. Leikhússport er keppnni í spuna.

Leiktu betur ævintýrið hófst á spunanámskeiði hjá Guðjóni Davíði Karlssyni, Góa. Það var frábær reynsla og mjög skemmtilegt. Hann kenndi okkur marga stíla, fór í áskoranir með okkur og svo kenndi hann okkur leikhússport. Þegar fór að líða á námskeiðið fengum við konsertmeistarann til okkar til þess að spila á píanó og við sungum mikið og lengi. Þegar þessu var lokið valdi stjórn Leikfélags Menntaskólans á Akureyri lið til að keppa í samráði við Góa. Og jú, mikið rétt, ég var valinn ásamt 3 örðum snillingum.

Ég get ekki sagt að liðið hafi æft. Við hittumst einu sinni og spjölluðum, meira var það ekki. En föstudaginn 10. nóv keyrðum við ásamt stuðningsliðinu og nokkrum stjórnarmeðlimum, samtals 14 manns, til Reykjavíkur í brjáluðu veðri. Það var gífurleg stemmning á leiðinni og keppnin lagðist vel í okkur. Liðið fór saman í upphiunina í Tjarnarbíói með hinum liðunum og það var mjög skemmtilegt. Eftir það fórum við að borða og ákváðum áskoranir og stíla og skelltum okkur sov í Tjarnarbíó.

Við áttum okkar fyrsta spuna við MS og tókum hann í Söngleikjastíl sem heppnaðist mjög vel og við komumst áfram í undanúrslit. Þar kepptum við við MK í spennandi og skemmtilegri keppni sem endaði með okkar sigri. Við vorum komin í úrslit og áttum að keppa við MH sem hafði alltaf unnið frá upphafi. Það var klárlega mest spennandi spuni sem ég hef lennt í. Eftir að bæði lið höfðu skorað á var MH einu stigi yfir, en hafði fengið refsistig fyrir að vera of lengi og því þurfti að grípa til framlengingar sem var stórskemmtileg; Geimspuni, sem við tókum í Amatörstíl. MH hafði þó betur að lokum en við vorum samt sem áður mjög sátt við 2. sætið og fórum heim með bros á vör. Til gamans má geta að strákarnir í MH liðinu voru kynnar á Skrekk, fyrir ykkur sem það sáu.

Að lokum vil ég segja að persónulega fannst mér þessi keppni fara mjög illa fram að hálfu skipuleggjanda og aðstandenda. Keppnin fór fyrir það fyrsta þannig fram að þeir sem skoruðu á spunnu ekki á undan, eins og það er yfirleitt í leikhússporti, heldur byrjuðu hinir. Einnig vorum við mjög ósátt við það að MR hafi þurft að keppa við Borgó um sæti í undan úrslitum, sem voru stigahæsta tapliðið, enda voru MRingar komnir áfram. Með fullri virðingu við Borgó fannst mér þetta mjög ósanngjarnt gagnvart MR.

En við látum það ekki trufla okkur. Keppnin var í heild stórskemmtileg og ég hvet alla til að kíkja á Leiktu betur á næsta ári. Áhorfendur eru jú nr. 1 í svona keppnum.