Komið þið sæl. Mig langar til þess að bæta örlitlu við annars ágæta umfjöllun um Pétur Gaut hér á undan.

Leikmyndateiknarinn, Gretar Reynisson er alger snillingur. Hann hefur mikil áhrif á þær sýningar sem hann hannar fyrir. Hann hannaði líka fyrir Þetta er allt að koma. Verk hans eru að mínu mati auðþekkjanleg vegna þess m.a. að hann fer oft frumlega leið að því að nota rýmið (leiksviðið). Sem dæmi um þetta má nefna leikritið Græna landið eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leikmyndin var gróðurhús í fullri stærð úti á miðju gólfi, með áhorfendur sitt hvoru megin við. Svo var allt verkið leikið inni í þessu gróðurhúsi. Leikmyndirnar hans eru oftast stórar en einfaldar. Litanotkun er líka oft í lágmarki og grunnform eins og kassi og hringur eru allsráðandi hjá honum.

Varðandi söguþráðinn, þá ráðlegg ég fólki að hafa ekki of miklar áhyggjur af því að skilja ekki öll atriðin. Hugsið frekar um þetta sem svipmyndir úr ævi Péturs Gauts og innsýn í hugarheim þessa manns. Skiptir engu máli þó maður skilji ekki alveg allt.

Pétur Gautur Baltasars er bara leikgerð uppúr verki Ibsens. Ef verkið er leikið í heild sinni tekur það að minnsta koti fjóra tíma í flutningi. Vissuð þið að Ibsen sjálfur bjóst aldrei við að Pétur Gautur yrði settur á svið? En raunin reyndist önnur, því þetta er eitt mest leikna leikritið hans og hefur verið sett upp um allan heim í ýmsum myndum.

Allir með snefil af áhuga á leikhúsi ættu að sjá þessa sýningu og það helst oftar en einu sinnu. Hún er myndræn, áhrifamikil, skemmtileg og talar til samtímans - þ.e. okkar í dag. Ekkert okkar les sennilega sömu skilaboð út úr sýningunni, en það er einmitt það sem gerir hana svo frábæra.

Reyndar finnst mér að þeir sem ekki hafa áhuga á leikhúsi, eða hafa hingað til ekki fílað leikhús ættu að drífa sig á þessa sýningu líka. Hver veit nema þeir uppgötvi eitthvað nýtt? :-)

Í nóvember verður sýningin færð úr Kassanum (nýja sviði Þjóðleikhússins) og upp á stóra svið. Þá verður e.t.v. aðeins auðveldara að fá miða.

Bestu kveðjur,
Íslandssól