Litla hryllingsbúðin Litla hryllingsbúðin var sett upp af Leikfélagi Akureyrar í samstarfi við Íslensku óperuna og hefur heldur betur slegið í gegn.
Í fyrra, þegar ég sá þennan söngleik í fyrsta skiptið vissi ég ekkert hvað þessi sýning fjallaði um og þekkti engin lög. Móðir mín sagði að ég myndi örugglega fá æði fyrir þessari sýningu en ég var ekki svo viss um það. Hvað get ég sagt? Ég hafði kolrangt fyrir mér.
Ég fór þrisvar á þessa frábæru sýningu og skemmti mér konunglega.
Nú skalt þú, lesandi góður, stoppa við og koma með mér í blóðugt og skemmtilegt ævintýri.

Baldur, aðalpersónan, vinnur í blómabúðinni hans Músnikks og á ekki sjö dagana sæla.
Hann er klaufskur og nördalegur en samt sem áður alveg æðislegur. Hann lætur sig dreyma um ást Auðar, sem vinnur einnig í búðinni. En hún er á föstu með brjáluðum tannlækni sem kemur illa fram við hana, er ofbeldisfullur og elskar hláturgas.

Ekki ganga viðskiptin sem best í þessari blessuðu blómabúð og þegar hún er heldur betur að fara á hausinn uppgötvar Baldur undarlega plöntu, sem hann veit ekkert um en heldur að þetta sé einhvers konar flugnaveiðari. Hann nefnir hana Auði II, í höfuðið á hinni sem á stóran part í hjarta hans. Hann hugsar vel um hana, dag og nótt, en plantan verður bara veiklulegri.
Fyrir einskærri óheppni finnur Baldur lausn vandans. Plantan nærist aðeins á blóði. Hann heldur áfram að næra hana og hún stækkar fljótt, á meðan blóðmagn hans lækkar.
Allir eru voða hrifnir af þessari meiriháttar skrítnu plöntu, Baldur verður vinsæll og viðskiptin blómstra. Plantan lofar honum velgengni og segist uppfylla heitustu óskir hans. En Baldur getur ekki haldið áfram að gefa henni sitt blóð. Hvar ætti hann þá að fá blóð? Engin á það svo fyllilega skilið að vera notaður í fóður handa hungraðri plöntu. Eða hvað?

Ógurlegir hlutir fara af stað og plantan fær það sem hún vill og verður gráðugri og gráðugri.
Þetta verður meira og meira spennandi og endirinn kemur manni svo sannarlega á óvart.
Plöntunni tókst ætlunarverk sitt. Sem var jú í rauninni það…

“Að éta Reykjavík,
Amsterdam.
Að éta Eyjarfjörð.
Og éta ÞIG! …
og þetta leikhús.”

Stemningin í leikhúsinu var óborganleg og manni langaði bara að fara upp á svið og dansa með leikurunum.

Leikararnir voru frábærir og tónlistin grípandi og skemmtileg.
Þetta kom mér svo skemmtilega á óvart og ég ætla svo sannarlega ekki að láta mig vanta í Leikfélag Akureyrar á næstunni.
Þessi sýning rokkaði feitt !

“Hvað sem plönturnar bjóða þér,
þó þær lofi öllu góðu þér.
Gefðu þeim ei !”

Takk kærlega fyrir að lesa.
Ég bið þig um að koma ekki með nein skítköst og gefa mér smá breik, því þetta er í fyrsta skipti sem ég skrifa grein hér á Hugi.is.



Leikstjóri: Magnús Geir Þórðarson.

Leikarar: Andrea Gylfadóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Þráinn Karlsson, Álfrún Helga Örnólfsdótir, Esther Talía Casey, Ardís Ólöf Víkingsdóttir og Guðjón Þorsteinn Pálmarsson