Gerð myndarinnar Busamynd MH 2002 Við vorum kosnir í ráð myndbandafélags MH 2002, ég, gústi (Deeq hér á huga), Andri Ó, Steingrímur K. (Ókind) og Ingi (einnig úr Ókind) og eitt það alstærsta verkefni sem myndbandafélag fær er að dæla út busamynd.

Ég veit ekki hvernig busamyndafyrirbærið er í öðrum skólum, en í MH þá er busadagurinn þannig að frá morgni er busað, síðan í hádegi er hringt inn á sal og horft er á busamyndina og síðan er gengið uppá Beneventumklett í Öskjuhlíð fyrir ávarp frá forseta og inntöku í skólann.
Busamyndir fyrri ára höfðu verið frekar óinteressant (að mínu mati), samhengislausar ræmur fullar af kúl skotum og tónlist, og díalóg sem enginn heyrði. Það var eiginlega alltaf þannig að maður sá síðan sama sem ekkert á myndina því salur MH er alveg fáranlega stór og erfitt að dekkja.

Þessvegna voru tvær ákvarðanir teknar strax í byrjun; a) Leigður yrði kröftugur skjávarpi í stað þess að nýta þessa 700 lúmensa sem skólinn á (leigðum eitthvað 7000 lúmensa skrýmsli frá exton) og að hljóð yrði sérstaklega tekið upp aukalega, ekki bara á tökustaðnum.

Við byrjuðum á að gera handrit í lok sumars og fengum vinkonu okkar til að rissa upp storyboard. Þetta var ótrúlega snjallt og ég get ekki tæpt nógu oft á því hve sniðugt það er að gera storyboard. Við skissuðum upp hverja einu senu, hvern einasta vinkil og allt sem máli skipti og gátum því tekið upp allt það sem ímyndunaraflið hafði smellt á okkur. Handrit sem slíkt var eiginlega óþarft þar sem myndin er eiginlega algerlega án texta. Ein setning er í myndinni, og önnur var klippt út. Storyboardið kom algerlega í staðinn.
Snótin sem teiknaði storyboardið tók síðan náðarsamlegast að sér starf skriptu. Þegar 5 snargeðveikir ungir menn, allir með mismunandi sýn á sömu myndina koma saman er alltaf gott að hafa eina vel skipulagða manneskju til að koma öllu saman.

Tökur tóku eina helgi non-stop frá lokum skólans á föstudegi til sunnudagskvölds og gengu alveg þokkalega.
Þar sem við vorum með allt skissað upp gátum leift þeim leikurum sem ekki voru í tökum að komast burt sem fyrst og afgreitt þá sem voru tímabundnir strax.

Tökurnar gengu vel, það var ekki fyrr en við hljóðsetningu og klippingu sem hlutir fóru að verða soldið erfiðir.

Við höfðum gefið okkur rúman tíma til þess að hafa nægan tíma í klippingu, en hljóðsetningin tók mun meiri tíma en við áttum von á. Hljóðið sem heyrist þegar Businn gengur inn í kennslustofuna er högg í ruslatunnu. Við tókum það hljóð upp 3-4 sinnum. Þegar kennarinn otar hekkklippunum í átt að víkingnum heyrist hljóð þegar klóinn fer úr innstungunni, það tókum við upp held ég tíu sinnum.
Síðustu tvo dagana fyrir busadaginn bjuggum við heima hjá Gústa þar sem klippitölvan var, lifðum á kóki, kaffi, gömlum pizzum og tókum tarnir við að klippa, hljóðsetja og sofa. Meðan einn var að klippa, tók annar upp hljóð og sá þriðji svaf. Síðan var róteitað. Við vorum orðnir svo viðbjóðslegir þegar myndinni var lokið að það var ekkert eðlilegt. Loftið í íbúðinni (sem er pínulítil) var orðið gegnmett af svitafýlu, gömlu kaffi og iðralofti og ég er ekki frá því að við höfum allir verið orðnir soldið tæpir andlega séð.
Þetta sést soldið í lok myndarinnar, hún heldur ekki alveg sama dampi og í byrjun.

Við hefðum viljað klippa hana aftur síðar, en ég held að það verði aldrei gert. Myndin stendur og við erum mjög ánægðir með hana sem slíka, að okkar mati er hún snilldin ein og rúlar feitt, og það er það sem málið gengur út á.


Nokkrir punktar -
*Notaðir voru 30 lítrar af “blóði” við gerð myndarinnar

*Blóðið er í raun bónussíróp, rauður matarlitur og mjólk.

*Engin slys urðu við tökur, en einn drengur sló sjálfan sig í nefið með rafmagnskló við hljóðsetningu og fékk blóðnasir. Það var heví fyndið.

*Loftpressa var notuð í nokkrum atriðum til að fá sem mest blóðsprey.

*Þegar nördinn lætur lífið er undirritaður með klósetthreinsisflösku (með bognum hálsi) inn á bakinu til að spreyja blóði í “hjartsláttarstíl”.

*Gáðu hvort þú getir séð glidecamið okkar í byrjun myndarinnar. Hint: það er frekar augljóst.

*Kennarinn er að tala kínversku.

*Lag töffarana er Express Yourself með NWA, lag nördsins er Küss Jodler með Franz Lang.

Svo að lokum smá útskýring á endinum fyrir þá sem ekki eru í MH. Breiði Kanadamaðurinn sem bjargar deginum er Kent ljósritunargæi MH, einn alviðkunnalegasti og nettasti maður innan veggja skólans. Elskaður og dáður af öllum nemendum og því augljóst val á hetju. Ókunnugir myndu samt varla átta sig á þessu, enda ekki skrýtið.
Þegar Kent lyftir síðan blóðugum víkingahjálminum í átt að kamerunni, segir hann síðan “Hann getur bara sjálfum sér um ..Kent!”.
Þessi wacky húmor var síðan klipptur út þar sem hann var ekki alveg í stíl við myndina sjálfa.