Flestir þekkja það að fá góða hugmynd að stuttmynd/kvikmynd og ætla svo að koma henni á blað og vita ekki alveg hvernig á að bera sig að því. Því ætla ég að setja hér fram nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar handrit er skrifað. Þetta er samt langt því frá að vera tæmandi listi, einungis yfirlit yfir það helsta sem ég hef rekist á við mín skrif.

Þegar hugmynd verður til þarf að greina hana svo hægt sé að sjá hvernig best er að koma henni á framfæri. Oftast er hægt að skipta myndum í nokkra hluta: Upphaf, “hook”, miðju, “climax” og úrlausn. Ég ætla að nota Sódómu Reykjavík sem dæmi í þessari grein.

Upphaf: Þarna er oftast æskilegt að kynna til sögunnar aðalpersónu/r sögunnar, sögusvið og tíma.
Í Sódómu kynnumst við Axel sem er greinilega ekki mjög “cool” í augum annara, td. systur hans. Sögusviðið kemur berlega í ljós í titli myndarinnar og tími hennar er í raun bara nútíminn.

Hook: Mikilvægt er að koma “hook” að sem fyrst til að áhorfendur missi ekki áhugann strax. Hook er eitthvað vandamál eða þessháttar sem krefst úrlausnar af hálfu aðalpersónunnar.
Axel þarf að finna fjarstýringu móður sinnar annars drepur hún fiskana sem hann geymir í baðkarinu.

Miðja: Þetta er aðalsöguflötur myndar. Þarna geta oft komið inn í ýmsar fléttur til að krydda þráðinn örlítið en samt má ekki gleyma aðalatriði myndarinnar.
Leit Axels að fjarstýringunni skilar honum á hina ýmsu staði, td. heimili Mola. Hann þarf einnig að kljást við mannræningja úr “Mafíu Íslands”.

Climax: Undir lok miðju gerist eitthvað sem hefur úrslitakosti um endi myndarinnar. Annaðhvort er það gjörð af hálfu aðalpersónu eða aukapersónu (td. “vondi kallinn”) sem stýrir myndinni að úrlausninni. Oft er samt um að ræða nokkra samverkandi atburði sem gerast þó með tiltölulega stuttu millibili.
Í Sódómu má segja að climax sé náð þegar Axel öskrar yfir alla þvöguna á Sódómu “Dúfnahólar 10!” því þar með beindi atburðarásinni á heimili sitt.

Úrlausn: Úrlausn leysir vandamálið sem kynnt var í byrjun, kemur öllum lausum endum haganlega fyrir (ekki algilt, framhaldsmyndir lifa á að skilja eftir lausa enda) og oftast er þeim breytingum sem undanfarin atburðarás hefur gert á persónunni komið til skila.
Axel fékk loks fjarstýringu og meira að segja nýtt sjónvarp handa mömmu sinni. Einnig hefur ástin gert vart við sig í lífi hans og má segja að hann sé ekki lengur nördinn sem hann var í upphafi.

Jæja, ég vona að þetta hafi verið skiljanlegt. Svona reyni ég yfirleitt að koma mínum hugmyndum frá mér til að gera mér betur grein fyrir hvað þarf að koma fram í myndinni.
Þó gott sé að hafa þessar “reglur” í huga getur oft verið hentugra að brjóta þær, en það ætti hver að dæma fyrir sig.

-vamanos