Lengi hafa verið uppi sögusagnir um að hann ætli að segja upp starfi sínu hjá Washington Wizard og hefja að nýju feril sem körfuboltaleikmaður. Jordan myndi einnig neyðast til þess að selja hlut sinn í Wizards þar sem leikmönnum er óheimilt að eiga hlut í liðum. Með Jordan á fundinum voru Doug Collins, þjálfara Wizards, David Stern, framkvæmdastjóra NBA, og Charles Barkley, góðvinur Jordans og fyrrverandi leikmaður með Philadelphia 76’ers, Phoenix Suns og Houston Rockets. Barkley hyggur einnig á að koma til baka til leiks og það með félaga sínum, saman hyggjast þeir koma liði Washington Wizards í fremstu röð og jafnvel gera heiðarlega tilraun til að vinna meistaratitilinn.

Á fréttamannafundinum kom fram að Jordan og Barkley, sem báðir voru komnir langt frá sínu besta formi, hafa báðir lagt hart að sér til að komast í leikhæft form og telja að þeir séu ennþá nægilega góðir til að velgja yngri leikmönnum undir uggum. „Menn einblína svo mikið á hreina íþróttamennsku að undirstöðuatriðin gleymast oft. Margir af ungu leikmönnunum sem að teljast til þeirra bestu í dag hafa enga hugmynd um grundvallaratriðin sem að allir þeir bestu hafa haft á að skipa. Það er ekki nóg að geta hoppað hátt og hlaupið hratt til að ná árangri – sjáið bara Larry Bird, maðurinn gat hvorki hlaupið né stokkið en hann vann 3 titla og ótal viðurkenningar. Þetta er það sem að skilur okkur að frá ungu leikmönnunum í dag, við kunnum á leikinn og höfum séð þetta allt áður.“ Þetta var það sem að Barkley hafði að segja um möguleika þeirra félaga á að snúa aftur til leiks. Jordan dró örlítið úr yfirlýsingum Barkleys en taldi Wizards þó eiga möguleika á titli ef allt gengi upp. Það sem þótti skýrasta vísbendingin um endurkomu kappanna var þegar Barkley fluttist til Jordans og þeir hófu að æfa saman. Nú er víst við hæfi að líta aðeins yfir glæsta ferla þessara stórstirna og byrjum við á Michael Jordan.



Jordan sem kom inn í deildina sem nýliði árið 1984, valinn nr. 1 af Chicago Bulls, og hafði strax mikil áhrif með leik sínum. Hann var valinn í byrjunarlið stjörnuleiksins og vakti auk þess mikla athygli í troðslukeppninni. Þrátt fyrir að enginn efaðist um einstaklingshæfileika Jordans höfðu margir áhyggjur af því að hann myndi aldrei geta leitt lið sitt alla leið og unnið titil. Byrjunin var heldur ekki glæsileg en taka verður tillit til þess að liðið sem Chicago hafði á að skipa var Jordan og 11 minni, minni spámenn. Samanburðurinn við Magic Johnson og Larry Bird kom strax upp enda þóttu lið þeirra standa sig vel um leið og þeir komu inn í liðsuppstillinguna en þá verður að athuga það að lið L.A. Lakers og Boston Celtics voru góð lið áður en þeir frábæru leikmenn bættust við. Það fór þó svo að lið Chicago fór að ná í úrslitakeppni Austurdeildarinnar en þar slógu Detroit Pistons þá úr keppninni mörg ár í röð, Það var svo leiktímabilið 1990-1991 sem að Chicago fór alla leiðina í úrlitin og mættu þar liði Los Angeles Lakers með Magic Johnson í broddi fylkingar, í sem alla skemmstu máli fóru leikar þeir þannig að Bulls unnu Lakers í fimm leikjum 4 – 1 og fór Michael Jordan á kostum og var valinn maður úrslitakeppninnar. Næstu tvö tímabil fór allt á sama veg Bulls unnu titilinn (fyrst mættu þeir Portland og síðar Phoenix) og Jordan var bestur þegar að á reyndi í úrslitarimmunum enda vann hann nafnbótina maður úrslitakeppninnar bæði árin. Nú þótti Jordan sem mesti gljáinn væri farinn af NBA deildinni og fann hann ekki fyrir eldmóðinum sem ávallt hafði knúið hann áfram. Því tók hann þá ákvörðun að setjast í helgan stein og reyndist það of mikið fyrir lið Chicago, þeir voru enn með betri liðum NBA en langt því frá að eiga möguleika á meistaratitlum.



Jordan tók þá ákvörðun að reyna fyrir sér í hafnabolta enda hafði hann stundað þá íþrótt af mikilli atorku áður en hann helgaði sig að körfubolta. Styst er frá því að segja að Jordan náði aldrei þeim hæðum sem hljóta að vera honum eðlilegar og eftir 17 mánaða hlé var Jordan snúinn til baka til NBA með liði sínu Chicago Bulls. Þegar hann snéri til baka náði hann einungis í lok keppnistímabilsins og því voru afköstin eftir því en næstu fjögur árin komust Chicago Bulls alltaf í úrslitin og unnu í hvert skipti. Þá hætti Jordan aftur og vildi hann meina að nú væri það varanleg ákvörðun. Hann stóð við það í tvö ár en nú ætlar hann sem sagt að snúa til leiks á ný með Washington Wizards. Ljóst verður að teljast að Jordan er besti leikmaður sem nokkurn tímann hefur spilað körfubolta

Charles Barkley kom seinna en Jordan inn í deildina þó að ekki hafi munað nema ári á þeim. Barkley þótti ekki jafn efnilegur og Jordan en hann átti ítrekað eftir að sanna gildi sitt sem leikmanns. Fyrst hjá Philadelphia 76’ers, sem völdu hann í nýliðavalinu, og seinna hjá Phoenix Suns (‘92-‘93 – ‘95-‘96) og Houston Rockets (‘96-‘97 – ‘98-‘99). Eina lýtið á stórfenglegum ferli Barkleys er það að í safn viðurkenninga hans vantar meistaratitil. Hann komst einna næst þessu takmarki sínu tímabilið ’92-’93 þegar að hann leiddi Phoenix Suns í úrlitin. Þar mætti hann félaga sínum og vini Jordan en eins og kunnt er sigruðu Chicago í þeirri rimmu. Nú telur Barkley að tækifærið sé komið að nýju og víst er að hann mun leggja sig allan fram til að sigur megi nást.