Þrefaldir meistarar sl. leiktíðar í körfuknattleik karla, Keflvíkingar, verða með í Evrópubikarkeppni sem sett verður á laggirnar í haust þar sem 64 lið verða með.
Keflavík landaði sem kunnugt er Íslandsmeistaratitlinum í vor en áður hafði liðið unnið bikarkeppni KKÍ og einnig fyrirtækjabikarkeppni KKÍ.

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, sagði í gær að verkefnið væri spennandi fyrir Keflavík enda langt um liðið frá því að íslenskt félagslið hefði tekið þátt á þessum vettfangi. “Við lékum ásamt Njarðvíkingum undir merkjum ÍBR árið 2000 en að þessu sinni er um að ræða bikarkeppni á vegum FIBA þar sem 64 lið taka þátt en það verður dregið í riðla 20. júlí nk. í München í Þýskalandi og þá vitum við betur hver staðan er,” sagði Sigurður. Ekki er vitað hvort Keflvíkingar þurfa að fara í gegnum forkeppni áður en kemur að riðlakeppninni en fjögur lið verða í hverjum riðli og verður leikin tvöföld umferð í riðlunum. “Ég á von á því að við verðum í vesturriðli en það þýðir að við fáum mótherja frá Bretlandseyjum, Belgíu, Hollandi eða öðrum löndum frá þessum svæðum. Það er góð lausn fyrir okkur og því þurfum við ekki að fara þvert yfir Evrópu í útileikina.” Sigurður sagði ennfremur að liðið myndi tefla fram einum bandarískum leikmanni á næstu leiktíð en leitin að þeim leikmanni væri enn ekki á enda. “Það er til nóg af leikmönnum og ég hef engar áhyggjur af því að fá ekki leikmann sem hentar okkur á góðum kjörum.”


hrein snilld að fá íslenskt lið aftur í Evrópukeppni :D


mbl.is …