Fjöldi erlendra leikmanna ótakmarkaður
Ársþing Körfuknattleikssambands Íslands fór fram um helgina í Stykkishólmi. Þar felldu þingfulltrúar tillögu þess efnis að fækka liðum úr 12 í 10 í úrvalsdeild karla frá og með næsta keppnistímabili.

Það verður óbreytt keppnisfyrirkomulag í úrvalsdeild, 1. deild og 2. deild. Aftur á móti verður það að teljast til tíðinda að samþykkt var á þinginu að fella niður höft á fjölda erlendra leikmanna en liðin þurfa að starfa eftir ákveðnu launaþaki.
Þar með geta lið fengið til sín eins marga erlenda leikmenn og þau telja sig hafa not fyrir að því gefnu að kostnaðurinn við tilkomu leikmannanna falli undir launaþak sem sett verður á í sumar. Stjórn KKÍ er ætlað að útfæra reglugerð um fyrirkomulag launaþaksins, og viðurlög við brot á launaþaksreglunni.

Breytingar urðu einnig á stjórn Körfuknattleikssambands Íslands á ársþinginu um helgina. Erla Sveinsdóttir og Jóhannes Karl Sveinsson fóru úr stjórn, en í þeirra stað voru kjörnir þeir Jón Halldórsson og Gísli Páll Pálsson. Þá voru þrír nýir menn kjörnir í varastjórn, þeir Eyjólfur Guðlaugsson, Snorri Örn Arnaldsson og Bjarni Gaukur Þórmundsson