Tim Hardaway gerði í gær samning við Indiana Pacers út tímabilið. Hann spilaði í fyrra með Dallas og Denver, og skoraði tæplega 10 stig að meðaltali í leik og gaf tæpar 4 stoðsendingar, en skotnýting hans var glötuð, rúmlega 35%. Tímabilið endaði samt illa fyrir Hardaway, sem hefur glímt við meiðsli í hnjám, og þurfti Hardaway að ljúka síðasta tímabili nokkrum vikum of snemma vegna meiðslna. Hardaway, 37 ára á þessu ári, hefur auk þess spilað 52 leiki í úrslitakeppninni, byrjað inn á í þeim öllum og skorað 18 stig að meðaltali í leik. Sú reynsla sem Hardaway fékk hjá Miami gæti orðið drjúg hjá Indiana. Hinir leikstjórnendur Indiana hafa allir verið eitthvað meiddir og ef Hardaway verður í nógu góðu formi, þá gæti farið svo að hann spili nokkrar mínútur í leik.