Bikarúrslitahelgin hófst með leik Hauka og Njarðvíkur í 9. flokki kvenna. Það var búist við nokkuð ójöfnum leik, þar sem lið Hauka hefur gengið töluvert betur í vetur en liði Njarðvíkur. Því má þó ekki gleyma að í bikarúrslitum getur allt gerst. Það var þó ekki að þessu sinni, því Haukastúlkur unnu nokkuð sannfærandi. Þær leiddu í hálfleik 29-14 og byggðu hægt og rólega ofan á það forskot í seinni hálfleiknum og unnu að lokum 53-27. Best í liði Hauka var Helena Sverrisdóttir (25 stig, 21 frákast, 7 stoðsendingar og 4 varin skot á 26 mínútum), auk hennar átti Pálína María Gunnlaugsdóttir góðan leik (12 stig, 9 fráköst og 10 stolnir á 25 mínútum). Hjá Njarðvík voru það Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir (12 stig, 10 fráköst, 5 stolnir og 4 tapaðir boltar á 26 mínútum) og Margrét Kara Sturludóttir (6 stig, 5 stolnir og 6 tapaðir á 17 mínútum).

Leikur ÍR og Njarðvíkur í 10. flokki karla hófst með miklum látum. Það tók liðin rúma mínútu að brjóta ísinn, en það gerði Halldór Gíslason ÍR-ingur með skoti af stuttu færi. Leikurinn var nokkuð jafn framan af, en ÍR-ingar voru yfir til að byrja með. Um miðjan fyrri hálfleik náðu Njarðvíkingar yfirhöndinni og leiddu lengst af með 4-6 stigum fram að hálfleik. Staðan í hálfleik var svo 34-28 fyrir Njarðvíkinga. Seinni hálfleikur byrjaði frekar rólega, en báðum liðum gekk illa að koma boltanum í körfuna til að byrja með. ÍR-ingar sýndu mikla þolinmæði og tókst að minnka muninn og loks að jafna þegar um 7 mínútur lifðu leiks. Þá var eins og Njarðvíkingar vöknuðu af værum blundi og náðu upp forskoti, 55-50 og 61-53. ÍR-ingar hittu illa á þessum tímapunkti, en jafnframt datt Jóhann Árni Ólafsson í stuð og átti nokkur mögnuð tilþrif sem kláruðu ÍR-inga. Lokatölur leiksins voru 64-56 fyrir Njarðvík. Eftir leikinn náðum við tali af Jóhann Árna, öðrum fyrirliða Njarðvíkur. Aðspurður sagði hann að góð vörn hefði skapað sigurinn og þá hefði sóknin fylgt í kjölfarið. Jafnframt sagði hann að það væri alltaf jafn gaman að vinna ÍR-ingana því þeir væru með gott lið og væru þeirra helstu keppinautar. Einar Árni Jóhannson, þjálfari Njarðvíkur var að vonum glaður í bragði í leikslok. Hann sagði að strákarnir hefðu verið duglegir að æfa, hefðu æft 4 sinnum í viku síðastliðið sumar og auk þess hefðu þrír strákanna verið að æfa með landsliðinu um helgar. Einnig vildi hann hrósa ÍR-liðinu, en þeir hefðu styrkt sig síðan í fyrra. Hjá Njarðvík var Jóhann Árni atkvæðamestur (29 stig, 13 fráköst, 5 stoðsendingar, 5 stolnir, 3 tapaðir og 5 varin skot á 30 mínútum), en Kristján Rúnar Sigurðsson var einnig sterkur í leiknum (18 stig, 8 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolnir og 5 tapaðir á 30 mínútum). Hjá ÍR var Jakob Egilsson atkvæðamestur (19 stig, 8 fráköst, 2 stoðsendingar og 3 tapaðir á 22 mínútum).

Fyrirfram var ekki búist við því að leikur Hauka og Keflavíkur B yrði jafn, enda Haukastúlkur ósigraðar í vetur og Keflvíkingar með 8. flokkinn sinn í úrslitum 10. flokks kvenna. Sú varð raunin, Haukastúlkur mættu ákveðnar og einbeittar til leiks og gáfu Keflvíkingum aldrei færi á því að komast inn í leikinn, komust í 8-1 og 29-5. Helena Sverrisdóttir, leikmaður úr 8. flokki kvenna, fór fyrir sterku og jöfnu Haukaliði í fyrri hálfleik og skoraði aðeins 3 stigum minna en allt Keflavíkurliðið. Hálfleikstölur 37-19. Ekki varð mikil stefnubreyting í seinni hálfleik, Haukar áfram sterkir og gáfu andstæðingunum aldrei færi á því að komast inn í leikinn. Lokatölur voru 67-36 Haukum í vil. Það verður þó að hrósa Keflavíkurliðinu fyrir það að gefast aldrei upp, heldur börðust þær og reyndu allt hvað þær gátu, þrátt fyrir ofureflið. Hjá Haukum stóðu Helena (32 stig, 14 fráköst, 7 stoðsendingar, 10 stolnir, 2 tapaðir og 2 varin skot á 32 mínútum), Hrefna Stefánsdóttir (8 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar, 7 stolnir og 5 tapaðir á 21 mínútu) og Pálína Gunnlaugsdóttir (8 stig, 5 fráköst, 2 stoðsendingar, 7 stolnir og 3 tapaðir á 23 mínútum) upp úr annars jöfnu liði. María Ben Erlingsdóttir (14 stig, 10 fráköst, 1 stoðsending, 2 stolnir, 5 tapaðir og 3 varin skot á 28 mínútum), Bryndís Guðmundsdóttir (8 stig, 4 fráköst, 2 stoðsendingar, 8 tapaðir og 7 varin skot á 30 mínútum) og Guðrún Harpa Guðmundsdóttir (7 stig, 4 fráköst, 5 stoðsendingar, 3 stolnir og 13 tapaðir á 24 mínútum) voru bestar hjá Keflavík.

Í unglingaflokki karla mættust Stjarnan og KR. KR-ingar byrjuðu leikinn betur og náðu smá forskoti strax í byrjun. Stjörnumönnum tókst þó með mikilli baráttu og góðri vörn að ná stjórn á leiknum og voru yfir eftir fyrsta leikhluta, 15-12. KR-ingar mættu vel einbeittir til leiks í öðrum leikhluta og tókst með góðri vörn og sterkum sóknarleik að ná forystunni. Þeir skoruðu 10 stig gegn aðeins 1 stigi Stjörnunnar á fyrstu 2 mínútum leikhlutans og breyta stöðunni í 22-16. Við það vöknuðu Stjörnumenn og héngu í KR-ingum út leikhlutann. Þegar 2:30 voru eftir af öðrum leikhluta fékk Jón Arnór dæmda á sig tæknivillu og var í kjölfarið hent út úr húsi fyrir að henda bolta í annan dómara leiksins. KR-ingar létu þó ekki bugast við mótlætið, þó að Stjörnumönnum hafi tekist að jafna í kjölfarið, 33-33, heldur pressuðu stíft og leiddu með fjórum stigum í hálfleik, 40-36. Bæði lið mættu dýrvitlaus til leiks í þriðja leikhluta, en KR-ingum fórst betur úr hendi að stjórna dýrinu í sjálfum sér og byggðu upp 10 stiga forystu. Stjörnumenn eyddu mikilli orku í að vinna þennan mun niður, en komust ekki nær en fjögur stig, 55-51. KR-ingar leiddu með 8 stigum eftir þrjá leikhluta, 61-53. Það breyttist lítið í fjórða leikhluta. KR-ingar höfðu alltaf yfirhöndina og í hvert sinn sem Stjarnan skoraði , skoruðu KR-ingar tilbaka. Leiknum lauk með öruggum 17 stiga sigri KR-inga, 86-69. Stjörnumenn börðust af hörku, en höfðu ekki erindi sem erfiði, þar sem KR-ingar reyndust miklu mun sterkari. Hjalti Kristinsson var besti leikmaður vallarins (18 stig, 8 fráköst, 1 stoðsending, 1 stolinn, 1 tapaður, 1 varið skot á 30 mínútum), Valdimar Örn Helgason (18 stig, 9 fráköst, 2 stoðsendingar, 3 tapaðir boltar á 26 mínútum og 2 troðslur) og Helgi Már Magnússon (17 stig, 10 fráköst, 2 stoðsendingar, 3 stolnir, 2 tapaðir og 1 varið skot á 35 mínútum). Hjá Stjörnunni voru Guðjón Lárusson (17 stig, 13 fráköst, 4 stoðsendingar, 3 tapaðir og 4 varin skot á 35 mínútum) og Jón Gunnar Magnússon (15 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar, 3 stolnir, 1 tapaður og 1 varið skot á 29 mínútum) bestir.