Minni á leikinn í kvöld - Rockets vs. Lakers Sælir körfuknattleiksunnendur góðir!

Ég vil bara minna alla á stórleik kvöldsins í NBA þar sem mætast Houston Rockets og Los Angeles Lakers. Ég vil vekja athygli á að leiknum hefur verið flýtt og hefst hann klukkan 19:30 að íslenskum tíma en ekki 23:00 eins og stendur t.d. á karfan.is

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum að Houston er heitasta liðið í NBA um þessar mundir, en þeir eru búnir að vinna hvorki fleiri né færri en 21 leik í röð, geri aðrir betur! Reyndar hefur bara einu sinni verið gert betur í sögu NBA, sem þýðir að þetta er næst lengsta sigurganga í sögu NBA. Aðeins Lakers tímabilið 71-72 hafa gert betur, þegar þeir tóku 33 leiki í röð með Wilt Chamberlain í broddi fylkingar. T-Mac sagði í viðtali á dögunum að stefnan hjá Houston væri núna að bæta þetta met, og vinna alla leikina sem eftir eru á tímabilinu.

Þessi árangur Houston er hreint ótrúlegur, sérstaklega með tilliti til þess að framan af tímabili gekk hvorki né rak hjá liðinu og í janúar voru þeir í 10. sæti í deildinni og stefndi í enn eitt vonbrigðatímabilið. Síðan gerðist eitthvað ótrúlegt og hver sigurinn á eftir öðrum hefur bæst í sarpinn. Sumir héldu að sigurgangan myndi taka enda eftir að Yao meiddist en mótlætið hefur bara styrkt liðið ef eitthvað og enn bætist í sarpinn. Liðið er að spila gríðarlega vel sem lið, boltinn gengur hratt og allir eru að leggja sig fram til að knýja fram næsta sigur. T-Mac er auðvitað fremstur í flokki en hann er líka duglegur við að finna félaga sína í opnum færum.

Mest mun því væntanlega mæða á T-Mac í kvöld, og verður gaman að fylgjast með honum og Kobe hjá Lakers, sem mun væntanlega reyna að vinna leikinn uppá eigin spýtur ef ég þekki hann rétt.

Látið þennan stórleik ekki fram hjá ykkur fara, klukkan hálf átta í kvöld. Minni á síðuna http://www.myp2p.eu/ fyrir þá sem hafa ekki aðgang að NBA Tv.

Áfram Houston Rockets!
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _