Pau Gasol hefur sýnt það og sannað að hann er tilbúinn í slaginn. Hann leiðir nýliðina bæði í stigum og fráköstum og er annar í vörðum skotum, en þessi knái Spánverji þurfti að borga miklar fúlgur fjár til þess að losa sig undan samningi við Barcelona fyrir tímabilið. Memphis hafa svo sannarlega grætt á því og er hann mjög líklegur kandídat fyrir nýliða ársins.
Eddie Griffin hefur valdið mér mestum vonbrigðum, en hann lék mjög vel með Seton Hall í háskóla. Mér fannst hann líklegastur sem fyrsti valkostur í nýliðavalinu, en Washington kom á óvart og valdi Kwame Brown, sem mér finnst ekki vera upp á marga fiska, en kannski braggast hann.
Jamaal Tinsley hefur stolið senunni, hann er meðal efstu manna í stoðsendingum yfir alla deildina, en hann var ekki hátt skrifaður áður en deildin hófst, kannski að hann sé næsti Mark Jackson sem kom öllum á óvart með því að leiða NBA-deildina í stoðsendingum fyrsta árið sitt, þrátt fyrir að hafa verið hunsaður af liðunum með fyrstu valréttina.
Tony Parker, frakkinn skemmtilegi, hefur tekið leikstjórnandastöðu San Antonio föstum tökum og sleppir henni líklega ekki svo auðveldlega. Hann er með um 11 stig og 4 stoðsendingar sem er mjög gott. Það er vonandi að hann taki leik sinn á annað plan og komi Frakklandi á kortið í NBA.
Shane Battier er annar í stigaskorun yfir nýliða og spilar með Pau Gasol í Memphis. Þetta Memphis lið er mjög skemmtilegt, en fyrir þeim fer vandræðagemlingurinn Jason Williams. En Stromile Swift, á öðru ári og Lorenzen Wright eru meðal sterkra leikmanna hjá ungu liði Grizzlies.

Ef þetta verður framtíðin, að leikmenn sleppi háskóla og fari beint úr miðskóla er líklegt að nýliðavölin verði eins dauf og þetta. Allar helstu stjörnur NBA komu úr háskóla, kannski að Kobe Bryant og Shawn Kemp, guð blessi sálu hans, undanskildum. Þetta er slæm þróun og ég vona að menn læri af mistökunum. Það er ekki eins og tvö ár skipti miklu. Ef að menn eru tvö ár í háskóla eru þeir ekki að fórna miklum fjárhæðum, sérstaklega ef þeir geta eitthvað. Ef þeir eru góðir í háskóla og fara í nýliðavalið er samningsstaða þeirra miklu sterkari.

En ég vona að Pau Gasol verði nýliði ársins, hann á það skilið, en þetta er annað árið í röð sem nánast enginn afgerandi nýliði hefur látið að sér kveða. Ég veit að Mike Miller var ágætur í fyrra, en hann er ekkert á við Grant Hill, Jason Kidd, Webber, Shaq og fleiri þegar þeir komu inn í deildina og breyttu henni. Ég vona að við fáum afgerandi nýliða á næstu árum.