Það borgar sig svo sannarlega að ná árangri í Meistaradeild Evrópu. Það geta forráðamenn norska liðsins Rosenborg skrifað undir enda hefur félagið grætt rúma þrjá milljarða á þátttöku í meistaradeildinni síðan hún byrjaði. Þessir peningar, ásamt sölu á leikmönnum sem hafa hækkað margfalt í verði vegna góðrar frammistöðu í meistaradeildinni, hafa gert það að verkum að félagið hefur yfirburðastöðu í Noregi. Níu meistaratitlar í röð segja sína sögu en aðstaðan sem Rosenborg hefur yfir að ráða er einnig á allt öðru plani samanborið við önnur lið í Noregi. Félagið er með sína eigin sjúkraþjálfun. Það á innanhússhöll og gervigrasvöll auk þess sem völlur þeirra, Lerkendal, er sá glæsilegasti í Noregi. Í kvöld leikur Rosenborg gegn slóvakíska liðinu Inter Bratislava í Þrándheimi í seinni leik liðanna í 3. umferð forkeppni meistaradeildarinnar en þá kemur í ljós hvort Rosenborg fær enn eitt árið að njóta góðs af digrum sjóðum Knattspyrnusambands Evrópu. Fyrri leikur liðanna í Bratislava endaði með jafntefli, 3-3.