Alonzo Mourning er maðurinn 35 ára leikmaður langhæstur í deildinni í vörðum skotum! Hefur það einhvern tímann gerst áður? Kannski, en það hefur aldrei áður verið sú staða að besti blokkarinn sé 35 ára og hefði átt að vera löngu hættur vegna hættulegs nýrnasjúkdóms.

Saga Alonzo Mourning er einfaldlega ótrúleg. Þessi gamli ofurmiðherji, sem hefur sjö sinnum verið valinn í stjörnuleikinn og tvisvar sinnum verið varnarmaður ársins, er að eiga eitt ótrúlegasta comeback NBA deildarinnar frá upphafi.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í gegnum feril Zo, eins og hann er kallaður. Hann var valinn annar í nýliðavalinu '92 á eftir Shaq til Charlotte Hornets. Hann átti svo átta mjög góð ár með Hornets og Miami Heat og var einn af bestu leikmönnum deildarinnar.

Svo, sumarið fyrir 2000-01 tímabilið, stuttu eftir að hann hafði keppt fyrir hönd Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum, var hann greindur með glomerulosclerosis (sem ég ætla ekki að reyna að þýða) sem er mjög hættulegur nýrnasjúkdómur. Sjúkdómslýsingin er svona: The disease attacks the tiny filters in the kidney that remove waste from the blood. That makes the kidney spill protein from blood into the urine. The resulting damage can lead to kidney failure, which requires dialysis or a transplant.
-tekið af: "http://rarediseases.about.com"


Zo missti af fyrstu 69 leikjum tímabilsins út af sjúkdóminum. Hann náði að leika seinustu 13 leikina og stóð sig ótrúlega vel miðað við það sem hann hafði þurft að ganga í gegnum. Næsta tímabil gekk einnig eins og í sögu, sjúkdómurinn angraði hann lítið sem ekkert og þrátt fyrir að hann réði ekki við 48 mínútur í leik var hann að standa sig með prýði, 15,7 stig, 8,4 fráköst og 2,48 varin á 32,7 mínútum.

En tímabilið eftir kom áfallið. Sjúkdómurinn hafði ágerst og Zo missti af öllu tímabilinu vegna hans. Hann reyndi svo að halda áfram næsta tímabil (2003-04) og fór á samning hjá New Jersey Nets. Það gekk hins vegar ekki því að enn ágerðist sjúkdómurinn. Eftir 12 leiki, þann 23. nóvember tilkynnti Zo að hann væri hættur að spila körfubolta og að hann þyrfti að fá nýtt nýra. Leikurinn væri að drepa hann og hann réði einfaldlega ekki við að spila meira í þessu ástandi. Hann fór svo í vel heppnaða nýrnaaðgerð þann 12. desember ‘04.

Fæstir bjuggust við því að Zo myndi halda áfram að spila eftir þetta en hann kom enn og aftur á óvart. Hann var enn á samning hjá Nets og tímabilið 04-05 átti hann enn eina endurkomuna. Hann spilaði 18 leiki fyrir jól hjá Nets áður en hann var settur á meiðslalistann. Svo um jólin var honum skipt til Toronto Raptors en þar spilaði hann ekkert vegna meiðsla og var á endanum leystur undan samningi.

Miami Heat nýtti sér það og fékk hann til sín á lágmarkssamningi. Zo sagðist vilja fá eitt tækifæri í viðbót til að vinna meistaratitil og sá það tækifæri hjá Heat. Hann spilaði ekki mikið það tímabil en átti þó oft góðar innkomur af bekknum og minnkaði álagið á Shaq. Í 19 leikjum með Miami skoraði hann 5,0 stig, tók 3,7 fráköst og varði 1,74 skot. Eins og þið vitið náði Miami ekki að vinna þetta árið en Zo var ekki hættur.

Í ár stækkaði hlutverk hans í Miami til muna. Shaq er núna búinn að vera meiddur seinustu 12 leiki og Zo hefur leyst hann af sem byrjunarliðsmiðheri. Hingað til hefur hann gert það með ótrúlegum sóma, sé tekið mið af því sem hann hefur þurft að ganga í gegnum. Eins og áður sagði er hann hæstur í vörðum skotum í deildinni (4,14) og svo er hann að skora 11,4 stig og taka 8,1 frákast í leik. Alveg ótrúlegur árangur hjá þessum manni.

Hingað til hefur ekkert verið minnst á hina hliðina á Zo. Hann hefur verið einstaklega duglegur við að hjálpa við góð málefni og rekur meðal annars Zo’s Summer Groove sem er rekið til að hjálpa m.a. börnum úr fátæktarhverfum. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar og verðlaun fyrir vinnu sína í þessum málefnum sem ég ætla ekki einu sinni að reyna að telja upp.

Saga Mourning er ótrúleg og sýnir að sjúkdómar þurfa ekkert endilega að halda okkur frá draumum okkar. Mourning gat það og þá getum við það líka, það sem þarf er bara nægur viljastyrkur.