Ísland tapaði fyrir Sviss, 77:68 á útivelli, í undankeppni fyrir Evrópukeppni landsliða í körfuknattleik. Íslendingar áttu ekki góðan leik og var hittni leikmanna í þriggja stiga skotum stór partur af því að liðið náði sér ekki á strik. Íslendingar voru aðeins með 21% hittni í þriggja stiga skotunum. Stigahæstir hjá Íslandi voru þeir Helgi Jónas með 20 stig, Fannar Ólafsson með 17, Jón Arnór 11 og Friðrik Stefánsson með 9.

Íslendingar byrjuðu mjög illa og staðan eftir fyrsta leikhluta var 28:15. Í hálfleik var munurinn kominn niður í níu stig, 41:32. Ísland byrjaði síðari hálfleikinn ekki vel og Sviss náði góðu forskoti. Þegar fjórði leikhluti byrjaði munaði 17 stigum en íslensku strákarnir sýndu mikla baráttu og náðu að minnka muninn niður í fjögur stig en lengra komust þeir ekki og lauk leiknum með sigri Sviss, 77:68.

Fannar Ólafsson tók flest fráköst í liði Íslands. Hann tók sjö en næstur honum kom Helgi Jónas með fimm.