Detroit - San Antonio, leikur 2 Í gær unnu San Antonio Spurs sannfærandi sigur á Detroit Pistons með 21-stigs mun, 97-76.

San Antonio var alveg frá byrjun betri aðilinn og í raun var ekkert að virka hjá Detroit í fyrstu tveimur leikhlutunum, vörnin þeirra var galopin og ekkert gekk í sókninni. Það var algjörlega fáránlegt hversu auðveldlega San Antonio-menn komust oft í gegnum vörnina og settu niður auðveld sniðskot (e. lay-up). San Antonio leiddi í hálfleik 58-42.

Í þriðja leikhluta náði San Antonio-liðið að auka forskot sitt upp í 20 stig, en þegar innar kom í þriðja leikhluta byrjuðu hjólin aðeins að snúast hjá Detroit, og skipti þar mestu máli að Chauncey Billups, sem skoraði sín fyrstu stig í miðjum öðrum leikhluta, og Antonio McDyess komust inn í leikinn. Hamilton setti einnig niður nokkur skot og Detroit náðu hægt og bítandi að saxa á forskot Spurs. Alltaf þegar Detroit komust næstum því aftur inn í leikinn stoppuðu Spurs-menn það yfirleitt með þristi í næstu sókn. Í fjórða leikhluta náðu Detroit-menn að minnka forkost Spurs allt niður í 8 stig. Hins vegar vantaði þá kraftinn til að halda því áfram og lengra komust þeir ekki. Þeir gáfust í raun upp og lýsandi dæmi um það eru stælarnir sem Rasheed var með. Spurs-menn náðu að brjóta niður leik Detroit og kláruðu leikinn örugglega, unnu eins og áður sagði með 21 stigi.

Í rauninni einkenndist leikurinn af yfirburðum San Antonio-liðsins, sem spilaði góða vörn og sókn, en á hinn bóginn var vörn Detroit-liðsins léleg og sóknirnar oft vandræðalegar og hugmyndasnauðar.

Hjá Detroit skoraði Antonio McDyess 15 stig, Hamilton 14 stig, Chaucney Billups 13 stig og Rasheed Wallace 11 stig. Ben Wallace var einstaklega slakur að mínu mati en setti þó 9 stig.

Hjá Spurs átti Manu Ginobili stórleik, skoraði 27 stig og var þ.a.l. stigahæsti leikmaður leiksins og auk þess átti hann 7 stoðsendingar. Hann nýtti 75% af tveggja stiga skotum sínum og 80% af þristunum. Tim Duncan var svolítið under-the-radar, þ.e. lítið áberandi, en hann skilaði sínum 18 stigum og 11 fráköstum. Næstir komu svo Bruce Bowen, sem setti niður 4 þrista í leiknum, með 15 stig og Tony Parker með 12.

Allt í allt var þetta frekar sannfærandi sigur San Antonio-liðsins og það er ljóst að Larry Brown verður að láta sína menn heyra það til að þeir geti komið tvíefldir til leiks á heimavelli í Detroit í næsta leik.