Í kvöld, fimmtudaginn 10. mars, hefst úrslitakeppni Intersportdeildarinnar. Fyrstu tveir leikirnir hefjast klukkan 19.15, með leik Keflavíkur (1) og UMFG (8) í ljónagryfjunni í Keflavík og leik Snæfells (2) og KR (7) í Stykkishólmi. Á morgun tekur Fjölnir (4) á móti Skallagrími (4) í Grafarvoginum og UMFN (3) tekur á móti ÍR (6) í Njarðvík.

Ég ætla að fjalla aðeins um þessar tvær viðureignir sem eru í kvöld.

Keflavík – UMFG:

UMFG hafa unnið 4 af síðustu 11 leikjum sínum í deildinni. Þeir hafa skorað 4. flest stig í leik og hafa fengið á sig 3. flest stig (á eftir UMFN).

Keflavík hafa unnið 10 af síðustu 11 leikjum sínum í deildinni og eru á fljúgandi siglingu. Þeir hafa skorað næst flest stig í leik (á eftir Fjölni) og hafa fengið á sig næst fæst stig (á eftir UMFN).

Íslandsmeistararnir síðustu tveggja ára enduðu efstir í Intersportdeildinni og eru mjög sigurstranglegir hérna. Þeirra styrkleiki er hversu margir í þeirra liði geta skorað. Það er kannski hægt að stoppa einn eða tvo leikmenn þeirra en þá stíga bara aðrir upp.

Þessi lið mættust 2003 í úrslitum og þá vann Keflavík 3-0. UMFG eiga harm að hefna frá því í fyrra þegar Keflavík sló þá út 3-2 í undanúrslitum á leið sinni í úrslitaviðureignina gegn Snæfell.

Keflavík vann báða leiki liðana á þessari leiktíð. Ljóst er að UMFG þurfa að hitta á stórkostlega leiki ef þeir ætla sér að vinna 2 leiki gegn Keflavík. Helsti möguleiki UMFG er að Helgi J. Guðfinnson verði búinn að ná sér eftir meiðsli og nái að skila sínu á 30+ mínútum í leik. Einnig þarf Páll Axel að hitta vel og taka nokkur fráköst. Keflavík er eins og oft áður bara hraðlest. Eina leiðin til að stoppa þá er að skora meira en þeir. Í þessari viðureign gæti verið hátt stigaskor.

Snæfell – KR:

KR byrjaði illa í deildinni en með komu Aaron Harper hefur leikur liðsins lagast. Hann er leikmaður sem gerir aðra í kringum sig betri og með komu hans hefur Cameron Echols og hinn kornungi Brynjar Þór Björnsson fengið meira pláss og opnari skot.

Snæfell, deildarmeistararnir frá því í fyrra, voru á toppnum eftir fyrri hluta deildarinnar ásamt Keflavík og UMFN. Þeir enduðu 4 stigum á eftir Keflavík.

Snæfell vann báða leiki liðanna sem fóru báðir í framlengingu. Sérstaklega í seinni leiknum í DHL- höllinni var Hlynur Bæringsson KR-ingum mjög erfiður, skoraði 34 stig og tók 12 fráköst í leik sem var þríframlengdur. KR hefur ekki unnið Snæfell í deildinni síðan 27. október 2002.

Í liði Snæfells eru þrír fyrrum KR-ingar, Hlynur Bæringsson sem spilaði með KR í yngri flokkunum, Ingvaldur Magni Hafsteinsson sem spilaði með KR frá 1998 til 2003 og Helgi R. Guðmunsson sem spilaði með KR fyrri hluta þessa tímabils og allt tímabilið í fyrra.

Leikur KR snýst töluvert í kringum Cameron Echols. Hann er hávaxinn (202cm) með gott stökkskot sem mjög erfitt er að verjast. Hann er einnig sterkur frákastari. Hann átti hreint út sagt frábæran leik í seinni leik liðana, skoraði 41 stig, hirti 21 frákast og hitti úr 19 af 33 skotum sínum. Hann þyrfti þó að hitta betur fyrir utan og hann er ekki mjög góður varnarmaður. Einnig er Steinar Kaldal mjög mikilvægur KR liðinu, varnarvinna hans og óeigingirni hans er liðinu mikilvægt. Ef hann nær að hitta vel í þessari viðureign og skora til að taka pressuna af Echols og Harper þá á KR meiri möguleika. Hann hefur hitt undir 37% á þessari leiktíð, samanborið við 53% í fyrra, sem er rosalegur munur. Ef Brynjar nær að halda áfram að spila jafnvel og hann hefur gert í síðustu leikjum þá er það líka mjög mikilvægt.

Hlynur Bæringsson er aðalmaður Snæfells með tæp 16 stig að meðaltali í leik og 10 fráköst að meðaltali í leik. Hann smitar út frá sér baráttuanda sem einkennir þetta lið Snæfells. Hann er gríðarlega sterkur og KR-ingar verða í vandræðum með hann.

Snæfell hefur marga skorara. Af þeim leikmönnum sem eru ennþá hjá liðinu hafa 5 skorað fleiri en 10 stig að meðaltali í leik leik og einn til viðbótar með 9 stig að meðaltali í leik. Enginn hefur skorað meira en 20 stig í leik og eru þeir með eina lið deildarinnar sem ekki hefur leikmenn sem hefur skorað meira en 20 stig að meðaltali í leik. Þeir eru með eitt sterkasta frákastaralið deildarinnar og eru með mjög hávaxið lið. Þeir hafa fengið á stig 3. fæst stig í deildinni.

Heimildir:

http://www.kki.is/skjol/UK%20statlistar%202005.htm
http://www.keflavik.is/karfan/forsida/
http://www.kr.is/karfa/