Óvæntar byrjanir Nú er NBA deildin komin á fullt og flest lið búin að spila ca. 10 leiki. Hingað til hefur mér lýst bara vel á komandi tímabil, stigaskor í leikjunum hefur verið meira en í fyrra, uppáhalds liðin mín hafa verið að spila vel og ungu leikmennirnir hafa blómstrað. Það eina sem hefur skyggt á tímabilið var að sjálfsögðu óeirðirnar í leik Indiana og Detroit, en ég ætla ekki að tala um þær enda er góð umræða um þær í annarri grein á þessu áhugamáli. Það sem ég ætla hins vegar að tala um frábært gengi liðanna Phoenix Suns og Seattle SuperSonics hingað til.

Ég er sérstaklega ánægður með gengi Phoenix Suns. Eins og kannski einhverjir vita hér þá er ég yfirlýstur aðdáandi Orlando Magic en Phoenix Suns er í öðru sæti hjá mér. Ég byrjaði að fylgjast almennilega með þeim fyrir tveimur árum, aðallega út af Amaré Stoudemire, mínum uppáhalds leikmanni. Áhugi minn á liðinu hefur svo stigmagnast með tímanum. Liðið var mjög skemmtilegt í fyrra með Amaré í aðalhlutverki en gat bara ekki unnið sigra og endaði með aðeins 29 sigurleiki. Mike D'Antoni fannst það náttúrulega algjörlega óásættanlegt og notaði sumarfríið vel, náði í þá Steve Nash og Quentin Richardson. Nash virðist vera þessi leiðtogi sem liðið vantaði því að þeir eru búnir að fara á kostum hingað til.

Liðið er búið að vinna 8 af fyrstu 10 leikjum sínum og flesta leikina með miklum mun sem sést á því að liðið er með besta hlutfallið í deildinni milli skoraðra stiga og stiga mótherja. Nánast allir leikmenn eru búnir að spila betur en í fyrra og þá sérstaklega Amaré og Nash.

Amaré er búinn að vera hreint út sagt ótrúlegur. Hann er bara nýorðinn 22 ára og er í dag stigahæstur í deildinni með 28,7 stig í leik. Hann er einnig með 9,4 fráköst og 2,0 skot varin auk þess sem skotnýting hans er 57,6% Aldeilis frábær tölfræði. Amaré er samt ekki bara góður leikmaður, það er einnig þvílík skemmtun að fylgjast með honum. Troðslurnar sem hann tekur eru oft rosalegar! Ég er á því að hann, Dwyane Wade, LeBron og Carmelo Anthony séu framtíðin í bandarískum körfubolta.

Steve Nash er einnig búinn að vera frábær. Það var algjör hvalreki fyrir Suns að fá Nash til sín því að hann er líklegast með mestan leikskilning í dag. Hann virðist alltaf ná að finna samherja sína opna og minnir mann oft á Bob Cousy, allavega miðað við hvað ég hef heyrt af honum. Nash er búinn að vera frábær í ár og er langefstur í stoðsendingum með 12,2 í leik. Hittni hans er einnig búin að vera frábær, 54,5% í skotum utan af velli, 45,2% í 3ja og 90,5 í vítum. Með hann og Amaré fríska getur Phoenix unnið hvaða lið sem er.

Auk þeirra hefur Phoenix þá Shawn Marion sem er byrjaður að frákasta eins og brjálæðingu, Joe Johnson, mjög góðan skorara og Quentin Richardson, frábæran leikmann sem hefur þó ekki staðið sig hingað til í vetur. Þess vegna má deila um hvort þetta sé eitthvað óvænt byrjun hjá Phoenix, ég held að fólk var bara orðið svo vant að sjá þá tapa að það þorði ekki að spá þeim góðu gengi. Allavega, ég held og vona að Phoenix haldi áfram að standa sig og verði í hópi efstu liða í vetur.

Þrátt fyrir að góð byrjun Phoenix hafi kannski ekki verið svo óvænt held ég að allir séu mér sammála að enginn bjóst við 9-1 byrjun hjá Seattle Supersonics. Þeir byrjuðu á því að tapa með 30 stiga mun fyrir Clippers og maður hugsaði með sér:„Svona verður þetta í vetur", en svo hefur alls ekki verið. Þeir hafa ekki tapað leik síðan og unnið lið eins og Sacramento Kings, Memphis Grizzlies, San Antonio og Denver Nuggets. Allt lið sem áttu að vera mun betri. Hver er svo ástæðan fyrir þessu góða gengi? Ég held að sú helsta heiti Ray Allen.

Ray hefur alltaf verið frábær leikmaður. Hann er þessi týpíska skytta sem setur skot í andlitið á þér ef þú leyfir honum það. Samt má ekki hleypa honum inn í teig því að þá treður hann yfir þig og þú mátt heldur ekki brjóta á honum því vítanýting hans er pottþétt betri en þín. Samt hefur Ray aldrei náð að verða yfirburða leikmaður. Hann hefur alltaf verið að skora rétt rúmlega 20 stig en aldrei verið með stigahæstu mönnum í deildinni. Það virðist samt ætla að breytast í ár. Hann er búinn að vera gjörsamlega óstöðvandi hingað til og er að skora 25,7 stig í leik. Nýtingin hans er líka búin að vera skuggaleg. 91,8% vítanýting og 55,7% í 3ja þrátt fyrir að hafa skorað flesta þrista í deildinni hingað til. Já, það virðist bara ekki vera hægt að stöðva þennan leikmann.

Aðrar ástæður fyrir góðu gengi Seattle eru nokkrar.
Í fyrsta lagi er það Rashard Lewis. Hann var ekki nógu góður í fyrra en hefur rifið sig upp í ár og er búinn að hækka skorið sitt um 4 stig.
Í öðru lagi: Antonio Daniels. Ég bjóst ekki við miklu af honum en hann er búinn að koma rosalega sterkur af bekknum í ár og virðist ætla að vera líklegur kandídati sem besti 6. maðurinn.
Í þriðja lagi: Þjálfarinn. Nate McMillan var svalur leikmaður. Hann hlýtur að vera líka svalur þjálfari fyrst hann nær slíkri byrjun með Seattle.

Það mun koma í ljós á næstu vikum hvort þessi lið munu halda áfram að spila svona vel eða að þetta var bara löng byrjendaheppni. Hvort það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.

E.s. þegar þetta er skrifað virðast vera ágætar líkur á því að Seattle tapi á móti Boston Celtics. Það er hálfleikur í þeim leik og staðan er 51-41 fyrir Boston.