Hérna kemur annar hluti greinar minnar af þremur um komandi tímabil í NBA deildinni. Núna verður fjallað um mið- og suðvesturriðlana (en ekki suðaustur- og suðvestur- eins og ég sagði í 1. hluta).

Miðriðill:

1. Detroit Pistons

Komnir:
Rickey Paulding og Carlos Delfino, nýliðar
Ronald DuPree og Antonio McDyess, samningslausir
Derrick Coleman og Amar McCaskill frá Sixers

Farnir:
Corliss Williamson til Sixers
Memeth Okur til Utah
Tremaine Fowlkes til New Orleans
Mike James til Milwaukee

Líklegt byrjunarlið:
5. Ben Wallace
4. Rasheed Wallace
3. Tayshaun Prince
2. Richard Hamilton
1. Chauncey Billups

Detroit komu flestum á óvart með því að vinna Lakers í úrslitunum í fyrra. Í ár munu þeir ekki koma neinum á óvart. Þeir eru líklegast með besta leikmannahópinn og ef þeir spila jafn vel saman og í fyrra eiga þeir að vera með besta liðið. Varnarleikurinn er aðalmerki liðsins og það eru fáir, ef einhverjir sem ráða við þá Ben og ‘Sheed undir körfunni. Tayshaun Prince er líka ótrúlegur maður-á-mann varnarmaður, með sínar löngu hendur.
Billups og Hamilton þróuðust upp í frábæra leikmenn í fyrra og eru orðnir eitt hættulegasta bakvarðapar deildarinnar. Þeir munu líklegast vera aðal skorarar liðsins í ár og stjórna sóknarleik liðsins. Í rauninni er Detroit ekki bara með besta varnarliðið í ár, heldur er liðið einnig orðið eitt af bestu sóknarliðunum.
Þrátt fyrir að hafa misst tvo góða leikmenn af bekknum, þá Corliss Williamson og Memeth Okur hefur liðið fengið til sín Antonio McDyess. Hann mun nú líklegast ekki spila stórt hlutverk með liðinu en ætti samt að vera fínn varamaður fyrir Wallace-ana tvo. Ronald DuPree er líka kominn. Hann var ágætur með Bulls í fyrra og er fín viðbót.
Eins og staðan er nú finnst mér Detroit vera með sterkasta liðið í deildinni. Frábæra vörn, góða sókn og fínan bekk. Miðað við að þessi liðskipan helst í vetur spái ég því að þeir verði með besta liðið í ár.

2. Indiana Pacers

Komnir:
David Harrison, Rashard Wright, nýliðar
Steven Jackson frá Atlanta
John Edwards og Eddie Gill, samningslausir

Farnir:
Al Harrington og Kenny Anderson til Atlanta
Primoz Brezec til Charlotte
Jamison Brewer til New York

Líklegt byrjunarlið:
5. Jeff Foster
4. Jermaine O’Neal
3. Ron Artest
2. Stephen Jackson
1. Jamaal Tinsley

Þrátt fyrir að enda með besta vinningshlutfallið, hafa besta varnarmann deildarinnar og besta leikmanninn á low-post réðu Indiana Pacers ekki við Detroit í úrslitakeppninni í fyrra. Núna koma þeir hins vegar til leiks með jafnvel sterkari hóp en í fyrra, skiptu á Al Harrington og Stephen Jackson sem gerir þá jafnvel enn betra sóknarlið. Annars er hópurinn nokkurn vegin sá sami, Jermaine O’Neal og Ron Artest verða ennþá í aðalhlutverkum.
O´Neal, sem er ekki nema 26 ára, er orðinn besti kraftframherjinn í austrinu og mun vera með í kringum 20 stig og 10 fráköst í vetur. Hann er stöðugleikinn og leaderinn í Pacers liðinu og mun ekki bregðast þeim. Hins vegar er Ron Artest maður sem ekki er hægt að treysta á. Hann er jú frábær leikmaður og alveg hreint út sagt ótrúlegur varnarmaður en tekur bara of oft lélegar ákvarðanir í sókninni. Það gæti líka verið að hann ofmetnaðist, t.d. sagði hann í viðtali við SLAM að honum finndist að hann hefði átt að vera frekar valinn MVP liðsins en O’Neal. Hann verður að vita hlutverk sitt í vetur ef Indiana ætlar að keppa um meistaratitil.
Eftir að hafa verið aðal leikmaður Atlanta Hawks í fyrra er Stephen Jackson kominn í gamla hlutverkið sitt hjá San Antonio fyrir 2 árum. Hann er þriðji kosturinn í sókninni hjá Indiana og þarf að sætta sig við það. Hann verður samt að spila vel í vetur því að Reggie Miller verður örugglega alveg til í að taka byrjunarliðssætið af honum, hann hefur engu gleymt.
En yfir heildina er Indiana með mjög fínt lið, bæði varnar- og sóknarlega. Jeff Foster og O’Neal undir körfunni, Artest í driveunum og þá Reggie Miller og Jackson á 3ja stiga línunni. Þetta lið getur alveg komist langt þó að þeir séu kannski ekki með jafn góðan hóp og Detroit.

3. Cleveland Cavaliers

Komnir:
Luke Jackson, nýliði
Lucious Harris, Robert Traylor og Scott Williams, samningslausir
Anderson Vareajo og Drew Gooden frá Orlando
Sasha Pavlovic frá Utah
Eric Snow frá Sixers

Farnir:
Carlos Boozer til Utah
Kevin Ollie og Kedrick Brown til Sixers
Tony Battie til Orlando
Lee Nailon til New Orleans
Eric Williams til New Jersey
Jason Kapono til Charlotte
Steven Hunter, leystur undan samningi

Líklegt byrjunarlið
5. Zydrunas Ilgauskas
4. Drew Gooden
3. LeBron James
2. Jeff McInnis
1. Eric Snow

LeBron James og félagar í Cleveland voru hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina í fyrra, og ef Jeff McInnis hefði ekki verið meiddur í 12 af síðustu 15 leikjum liðsins hefðu þeir örugglega náð 8. sætinu af slöku liðið Celtics. Þrátt fyrir að hafa misst Carlos Boozer til Utah í þvílíkum dramaleik eru Cleveland samt alveg með lið til að komast í úrslitakeppnina. Auðvitað gefur maður sér það að LeBron hafi bætt sig um einhver level í sumar og svo býst ég við því að Snow og Gooden eigi eftir að hjálpa liðinu þó nokkuð.
En sá leikmaður sem ég held mest upp á í Cleveland er Jeff McInnis. Hann var aldrei í neinu stóru hlutverki hjá Portland en eftir að hann fór til Cleveland bættist leikur liðsins rosalega og liðið vann 23 af 34 leikjum þegar hann var með. Hann og LeBron vinna mjög vel saman og ég hlakka til að sjá þá tvo í vetur.
Drew Gooden er enginn Boozer en mun samt örugglega gera fína hluti fyrir liðið þar sem hraður leikur Cleveland hentar honum betur en spil Orlando. Eric Snow á einnig eftir að vera fín viðbót. Hann er samt orðinn það gamall að tölurnar eiga ekki eftir að hækka hjá honum í ár. Svo er það Ilgauskas. Hann var mjög góður seinni hluta tímabilsins í fyrra og á eftir að skila inn sínu í vetur. Hann er einn af bestu evrópumönnunum í dag og verður líklegast með um 16 stig og 9 fráköst.
Samt er LeBron náttúrulega hálft liðið. Hann er mesta efni sem komið hefur fram síðan Shaq var að byrja og er alveg líklegur til að koma með tölur upp á 24-6-6-1,5-1,0 í vetur. Hann þarf bara að verða þessi leiðtogi sem Jordan, Magic og Bird voru og þá á hann eftir að verða einn af bestu leikmönnum allra tíma í framtíðinni. Með hann innanborðs spái ég Cleveland sæti í úrslitakeppninni.


4. Milwaukee Bucks

Komnir:
Tommy Jones, nýliði
Zaza Pachulia frá Orlando
Maurice Williams, Jelani McCoy, Lonnie Jones, Mike James og Zendon Hamilton, samningslausir

Farnir:
Damon Jones til Miami
Brevin Knight til Charlotte
Bryan Skinner til Sixers

Líklegt byrjunarlið:
5. Dan Gadzurdic
4. Keith van Horn
3. Desmond Mason
2. Michael Redd
1. Mike James

Milwaukee Bucks komu flestum á óvart í fyrra og enduðu með 50% vinningshlutfall og leikmenn sem höfðu aldrei verið meira en miðlungs leikmenn voru í aðalhlutverki hjá liðinu. Michael Redd var þó besti leikmaður liðsins. Hann sýndi að hann er ein besta skyttan í dag og skoraði 21.7 stig. Ég trúi ekki öðru en að hann eigi bara eftir að bæta sig í vetur og verður líklegast með stigahæstu mönnum deildarinnar.
Hins vegar hef ég ekki trú á að liðinu eigi eftir að ganga eins vel og í fyrra. Þeir hafa misst báða leikstjórnandana sína, Damon Jones er farinn til Miami og T.J. Ford er meiddur og mun vera þó nokkuð lengi frá. Í staðinn er kominn Mike James en hann mun verri kostur en hinir tveir. Brian Skinner er líka farinn. Hann átti sitt besta tímabil í fyrra og Milwaukee á eftir að sakna hans undir körfunni.
Keith van Horn verður þá líklegast færður í fjarkann. Hann vill frekar skjóta boltanum fyrir utan en að vera í baráttunni undir körfunni og þetta verður líklegast frekar veik staða hjá þeim. Hann tekur samt alltaf einhver fráköst, eins gott því að Bucks eru með algjört drasl í fimmunni.
Þetta tímabil á ekki eftir að vera eins gott og í fyrra hjá Milwaukee og ég trúi ekki að þeir verði fyrir ofan Cavs, 4. sæti.

5. Chicago Bulls

Komnir:
Luol Deng, Ben Gordon, Anders Nocioni og Chris Duhon, nýliðar
Gary Trent frá Minnesota
Adrian Griffin, Eric Piatowski og Mike Wilks frá Houston
Cezary Trybanski, Othella Harrington og Frank Williams frá New York

Farnir:
Jamal Crawford og Jerome Williams til New York
Dikembe Mutombo til Houston
Jackson Vroman til Phoenix
Marcus Fizer til Charlotte
Linton Johnson til San Antonio
Ronald DuPree til Detroit
Paul Shirley, leystur undan samningi
Scottie Pippen, hættur

Líklegt byrjunarlið:
5. Eddy Curry
4. Tyson Chandler
3. Eric Piatowski/Luol Deng
2. Ben Gordon
1. Kirk Hinrich

Eftir að Jordan/Pippen gullöldinni lauk hjá Chicago hefur liðinu ekki tekist að ná einu almennilegu tímabili. Þeir áttu líklegast ein verstu leikmannaskipti síðari ára þegar þeir skiptu á Elton Brand og Brian Skinner fyrir valréttinn á Tyson Chandler. Chandler er ekki ennþá búinn að standa undir væntingum og Brand er einn besti kraftframherji deildarinnar.
Þeir hafa samt ágæta möguleika á að ná upp góðu liði á næstu árum miðað við liðið sem þeir hafa núna. Þeir fengu þrjá mjög góða nýliða í ár. Deng og Gordon voru með bestu háskólaleikmönnunum í fyrra og Nocioni hefur verið að gera góða hluti í æfingaleikjum enn sem komið er. Síðan má ekki gleyma því að Tyson Chandler og Eddy Curry eru ekki orðnir 22 ára og hafa nægan tíma til að verða toppleikmenn.
Síðan er það Kirk Hinrich. Hann var líklegast besti leikmaður Bulls í fyrra og á eftir að vera betri í ár. Hann á að geta komið með tölur upp á 15 stig og 7,5 stoðsendingar.
Fyrst að Bulls skiptu Jamal Crawford til Knicks finnst mér ólíklegt að þeir eigi eftir að gera mikið í vetur en þeir eru með rosalega efnilegt lið og ef þeir missa ekki þessa leikmenn frá sér með heimskulegum skiptum er ég viss um að Bulls á eftir að ná sér aftur á strik á næstu árum.

Suðvesturriðillinn:

1. San Antonio Spurs

Komnir:
Beno Udrih, Romain Sato og Sergei Karaulov, nýliðar
Brent Barry frá Seattle
Tony Massenburg frá Utah
Linton Johnson III frá Chicago

Farnir:
Hedo Turkoglu til Orlando
Kevin Willis til Atlanta
Charlie Ward til Houston
Jason Hart til Charlotte
Alex Garcia og Matt Carroll, leystir undan samningi

Líklegt byrjunarlið:
5. Rasho Nesterovic
4. Tim Duncan
3. Bruce Bowen
2. Manu Ginobili
1. Tony Parker

Þrátt fyrir litlar breytingar verða San Antonio Spurs líklegast enn betri en í fyrra. Þá réðu þeir ekki við Lakers í undanúrslitum vesturdeildarinnar en í ár ættu þeir að ráða við Lakers og gott betur en það. Þeir verða líklegast, ásamt Minnesota, sterkasta liðið í vestrinu. Þeir fengu til sín Brent Barry í sumar og ég held að hann muni bæta liðið þó nokkuð. Hann er mjög góður leikstjórnandi, stór og sér völlinn vel, og verður góður bakkari fyrir Tony Parker og Manu Ginobili. Hann er líka ein af bestu 3ja stiga skyttum deildarinnar og það mun hjálpa Spurs mikið.
Síðan er Spurs að mínu mati með næstbesta þríeyki deildarinnar í dag (á eftir Peja, Webber og Bibby hjá Kings). Tim Duncan er náttúrulega ótrúlegur. Hann mun skila inn sínum 23 stigum og 12 fráköstum í vetur og vera með bestu leikmönnum deildarinnar enn og aftur. Tony Parker á einnig eftir að verða mjög góður í ár. Hann hefur verið með í kringum 15 stig og 5 stoðsendingar seinustu tvö tímabil og hann mun að minnsta kosti halda þeirri tölfræði. Svo má ekki gleyma því að hann er alltaf bestur þegar mest á reynir. Og síðast en ekki síst er það Manu Ginobili. Hann var góður í fyrra en var ekki að spila meira en 30 mín. í leik. Eftir frábæra frammistöðu á Ólympíuleikunum í sumar þar sem hann rúllaði upp könunum trúi ég ekki öðru en að hann muni verða mjög góður í ár.
Ég er nokkuð viss um að Spurs eigi eftir að vera í baráttunni um meistaratitil í ár. Þeir og Minnesota eru með bestu leikmannahópana og eiga eftir að vera á toppnum í vestrinu.


2. Dallas Mavericks

Komnir:
Devin Harris og Pavel Podkolzine, nýliðar
Jason Terry og Alan Henderson frá Atlanta
Erick Dampier, Dan Dickau og Evan Eschmeyer frá Golden State
Jerry Stackhouse frá Washington
Calvin Booth frá Seattle

Farnir:
Jón Arnór Stefánsson til Dynamo Saint-Petersborg
Antoine Walker og Tony Delk til Atlanta
Antawn Jamison til Washington
Eduardo Najera og Christian Laettner til Golden State
Steve Nash til Phoenix
Scott Williams til Cleveland

Líklegt byrjunarlið:
5. Erick Dampier
4. Dirk Nowitzki
3. Michael Finley
2. Marquis Daniels
1. Jason Terry

Það hafa orðið miklar breytingar hjá Dallas í sumar og sú stærsta er náttúrulega sú að þeir misstu Jón Arnór til Rússlands! Nei, í alvöru er þetta alveg nýtt Dallas lið, Antawn Jamison, Antoine Walker og Steve Nash allir farnir og Jason Terry, Jerry Stackhouse og Erick Dampier komnir. Þess vegna er erfitt að spá fyrir gengi þeirra í vetur. Þetta eru jú frábærir leikmenn en það er ekki víst hvort þeir munu fitta inn í leik Dallas.
Dirk Nowitzki á eftir að vera aðalmaðurinn þarna. Hann er einn af 10 bestu leikmönnum deildarinnar og á eftir að setja niður í kringum 22 stig og 9 fráköst. Ég hlakka samt meira til að sjá hvernig Marquis Daniels á eftir að standa sig en hann var að mínu mati spútnikleikmaður seinasta tímabils. Engu liði datt í hug að velja hann í nýliðavalinu og Dallas fékk hann fékk hann sem free agent. Þegar Michael Finley meiddist náði hann svo byrjunarliðssæti og eftir það blómstraði hann hreinlega, 17,9 stig, 5,6 fráköst og 4,5 stoðsendingar í 15 byrjunarliðsleikjum. Hann á eftir að vera góður í ár nú þegar hann verður með að minnsta kosti 30 mínútur í leik.
Michael Finley er líka alltaf góður og svo á Jason Terry eftir að vera fínn leikstjórnandi. Hann toppar kannski ekki Nash en kemst samt ansi nálægt því. Svo er það Erick Dampier. Hann átti sitt besta tímabil í fyrra og þótt hann verði kannski ekki eins góður á hann eftir að hafa tvöfalda tvennu að minnsta kosti.
Í stuttu máli er Dallas með frábæra leikmenn en kannski ekki eins gott lið. Og þó, Don Nelson er náttúrulega frábær þjálfari og getur örugglega náð því besta úr þessum mönnum. Vörnin var vandamál hjá þeim í fyrra en með Dampier undir körfunni ætti stigaskor mótherja þeirra eitthvað að minnka. Mavericks eiga eftir að vera fínir í vetur.

3. Houston Rockets

Komnir:
Tracy McGrady, Juwan Howard, Tyronn Lue og Reece Gaines frá Orlando
Dikembe Mutombo frá Chicago
Charlie Ward frá San Antonio
Bob Sura frá Atlanta
Ryan Bowen frá Denver

Farnir:
Steve Francis, Cuttino Mobley og Kelvin Cato til Orlando
Eric Piatowski, Mike Wilks og Adrian Griffin til Chicago

Líklegt byrjunarlið:
5. Yao Ming
4. Juwan Howard
3. Jim Jackson
2. Tracy McGrady
1. Tyronn Lue/Charlie Ward

Þrátt fyrir litla breidd státar Houston af mest ógnvekjandi tvíeyki deildarinnar í dag. T-Mac og Yao eiga eftir að vera illviðráðanlegir og ég hlakka rosalega til að sjá þá spila saman. Þeir hafa náð ágætlega saman á undirbúningstímabilinu og eiga pottþétt eftir að vera með samtals 45-50 stig í leik. Skorið á líklegast eitthvað eftir að lækka hjá Tracy en hann á samt eftir að vera að minnsta kosti með um 25 stig. Yao var í fyrra með 17,5 stig og 9 fráköst. Hann gæti alveg hækkað sig upp í 20 og 10 í ár. Semsagt, það á eftir að vera mjög gaman að sjá hvernig þeir ná saman.
Því miður held ég að restin af liðinu sé ekki nógu sterk til að Houston verði í baráttunni um meistarahring í ár. Juwan Howard er reyndar mjög góður sóknarleikmaður en bara alltof lélegur varnarmaður. Hann á eftir að vera þriðji valkosturinn í sókninni hjá Houston og ætti að geta skorað um 15 stig í leik. Jimmy Jackson er hins vegar ekki nærri því eins góður og hann var og ásarnir hjá þeim eiga ekki að komast nálægt neinu byrjunarliði. Ty Lue og Charlie Ward! Þetta á eftir að vera mjög veik staða hjá þeim í vetur, sérstaklega þar sem Bob Sura verður frá vegna meiðsla í þó nokkurn tíma.
Hins vegar er Houston með mjög góðan þjálfara og ef hann nær að ná öllu því góða úr leik Yao og Tracy’s ætti Houston að vera í eftri hluta deildarinnar. Svo má ekki gleyma því að þeir eru með Mutombo á bekknum og þótt hann geri ekki eins mikið og í gamla daga verður fínt að hafa hann til að hvíla Yao. Houston fær þriðja sætið í sterkasta riðlinum í deildinni en einnig pottþétt sæti í úrslitakeppninni.

4. Memphis Grizzlies

Komnir:
Andre Emmet, Antonio Burks og Sergei Lishouk, nýliðar
Brian Cardinal frá Golden State

Farnir:
Theron Smith til Charlotte

Líklegt byrjunarlið:
5. Lorenzen Wright
4. Pau Gasol
3. Mike Miller
2. James Posey
1. Jason Williams

Memphis Grizzlies er líklegast með mestu breiddina í liðshópi sínum í dag. Í fyrra voru þeir með 10 leikmenn sem spiluðu á milli 20-30 mínútna í leik. Þeir eru allir ennþá þarna auk þess sem Brian Cardinal er kominn í hóp þeirra þannig að skortur á leikmönnum verður ekki vandamál. Hubie Brown er búinn að koma upp liði þar sem allir vinna sitt hlutverk og er sáttir með það, engin stjarna sem gerir allt. Samt er Pau Gasol nokkuð nálægt því að verða stjarna. Hann var frábær á Ólympíuleikunum og gæti verið með í kringum 20 stig og 9 fráköst.
Restin af liðinu samanstendur af góðum en ekki frábærum leikmönnum. Jason Williams er ennþá fínn leikstjórnandi þótt hann sé ekki eins tilþrifamikill og hann var á fyrstu árum sínum í deildinni. James Posey var átti mjög gott tímabil í fyrra og er frábær varnarmaður. Svo eru þeir Mike Miller, Lorenzen Wright, Bonzi Wells, Stromile Swift, Brian Cardinal, Earl Watson og Shane Battier allir góðir leikmenn sem vita sitt hlutverk í liðinu og spila eftir því.
En því miður fyrir Memphis er bara svo rosalega sterk í dag. Memphis kæmust auðveldlega í úrslitakeppnina í austrinu en þeir munu þurfa að spila mjög vel ætli þeir að ná sæti vestan megin. Þeir munu vera í baráttunni um 7-8. sætið í vestrinu.

5. New Orleans Hornets

Komnir:
J.R. Smith, Nate Williams, Sean Finn og Tim Pickett, nýliðar
Chris Andersen, Denver
Rodney Rogers, New Jersey
Lee Nailon, Cleveland
Britton Johnsen, Orlando
Tremaine Fowlkes, Detroit

Farnir:
Maurice Carter og Steve Smith til Charlotte
Stacey Augmon til Orlando
Robert Traylor til Cleveland

Líklegt byrjunarlið:
5. Jamaal Maglorie
4. P.J. Brown
3. George Lynch
2. David Wesley
1. Baron Davis

NO Hornets lentu í þeirri óheppilegu stöðu að vera færðir úr austurdeildinni yfir í vestrið. Þeir yrðu líklegast nokkuð ofarlega þar en í vestrinu eiga þeir ekki möguleika. Helsta ástæða þess er náttúrulega sú að Jamal Mashburn mun ekki spila með þeim í vetur og það mun vega þungt. Baron Davis mun ekki geta borið liðið einn í allan vetur og þótt að Jamaal Magloire sé hafi bætt sig mjög er hann ekki neinn leiðtogi. Hann á samt eftir að halda áfram að bæta sig og á eftir að vera með í kringum 16 stig og 10-11 fráköst.
David Wesley er orðinn 34 áraog er ekki að fara að bæta sig mikið meir. Tölurnar hjá honum lækkuðu nokkuð á seinasta tímabili og þær munu ekki hækka í ár. Það sama er með P.J. Brown og svo er þristurinn algjörlega ómöguleg staða hjá Hornets. Í rauninni er Magloire eini ljósi punkturinn sem ég finn í liðinu, reyndar ásamt nýliðanum J.R. Smith sem hefur verið að spila vel á undibúningstímabilinu og á örugglega eftir að vera góður í framtíðinni, en hann kom beint úr miðskóla.
Þetta verður erfitt tímabil fyrir Byron Scott. Hornets eru langlíklegast detta úr því að vera með betri liðum austurdeildarinnar í að vera með lakari liðum vesturdeildarinnar. Þeir verða á botninum í suðvesturriðlinum.

————————

Þá er ég búinn að fara í gegnum mið- og suðvesturriðilinn, tvo bestu riðlana að mínu mati. Í síðasta hluta þessarar umfjöllunar mun ég taka fyrir norðvestur- og atlantshafsriðlana þar sem m.a. Lakers, Sacramento og Minnesota eru í.