Miklar breytingar hjá Orlando Magic Nú fer NBA tímabilið senn að byrja aftur og hlakkar okkur körfuboltanötterunum eflaust flest öllum til. Það hefur mikið gengið á í sumar og hafa menn skipt um lið fram og til baka, hvort sem er af fúsum og frjálsum vilja eða hreinlega bara skipt fyrir annan leikmann. Stærstu leikmannaskiptin voru tvenn. Fyrsta lagi þegar Shaq-daddy fór til Heat og hins vegar þegar Tracy McGrady fór til Rockets í skiptum fyrir Steve Francis. Það sem ég ætla hins vegar að röfla um það er hið nýja Orlando lið. Gerbreytt lið og að mínu mati enn betra en það sem áður var.

Þessi stórbreyting hófst þegar John Gabriel var sagt upp sem GM hjá Magic og John Weisbrod, gamall hokkínagli, var ráðinn í staðinn. Áhangendur Magic voru á báðum áttum en samt ánægðir, enda hafði Gabriel framkvæmt marga GM-errora síðastliðin ár, þá aðallega í samband við leikmannaskipti (fengið verri leikmenn í stað betri) og svo tekið herfilegar ákvarðanir í nýliðavalinu. Það sem Weisbrod tók með sér í nýja fína leðurstólinn sinn var framtíðarsýn, harka og umfram allt ákveðni. Hann var ákveðinn í því að breyta Orlando úr versta liði deildarinnar í lið sem ætti að komast í úrslitakeppnina. Margir hugsuðu sig um hvernig hokkíleikmaður getur stjórnað körfuboltaliði. Það er ekki það sem gildir, það er að getað spilað körfubolta eða hafa spilað hann í einhverri deild, margir GM hafa lítið tengst körfubolta á annan hátt en uppi á skrifstofunni, gegnum pappíra og skjöl. Þetta er því spurning um útsjónarsemi og ákveðni, eitthvað sem Weisbrod hefur og í sannleika sagt þá hefur það hrætt marga Magic-aðdáendurna.

Síðasta tímabili lauk án Tracy McGrady. Sagt var að hann væri meiddur á hné og mundi hvíla það sem eftir lifði tímabilsins en sannleikurinn var annar. Það sem gerðist var að á fyrri hluta tímabilsins fór Tracy að efast um samherja sína, fór að gagnrýna þá og upphefja sjálfan sig í fjölmiðlum. Weisbrod líkaði það illa, en hann var ekki GM þá. McGrady virkaði keppnislítill og það var eins og hann vildi ekki sætta sig við það að vera meðal topp 5 leikmanna í deildinni og vera í versta liði deildarinnar. Það virtist sem sagt sem hann hafi gefist upp. Fóru menn að efast um keppniseðli hans og sá sem efaðist mest var Weisbrod og þegar hann settist í leðurstólinn setti hann McGrady á teppið og tjáði honum hug sinn: Þú annað hvort tekur þátt í liðinu eða ekki. McGrady tók á flug á ný og var frábær. Fleiri tugir stiga leik eftir leik, en alltaf tapaði Magic. Það skal taka fram að samherjar McGradys voru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þetta var ekki Lakers, Spurs eða Detroit. Nei, þetta var samansafn af meðalleikmönnum og jafnvel lágklassa 10-daga-samnings leikmenn. Það var því alveg skiljanlegt að McGrady væri pirraður. Það sem setti punktinn yfir I-ið hjá Weisbrod var að McGrady fór að gagnrýna sína samherja illilega undir lok tímabilsins í beinni útsendingu í sjónvarpi. Weisbrod frétti af þessu, tók hann aftur á teppið og húðskammaði hann, sennilega harkalegasta bitch-slap sem hann hefur fengið á ferlinum: Weisbrod lét hann standa fyrir framan samherja sína í búningsklefanum og segja af hverju hann sagði þetta og átti að biðjast afsökunnar. Þegar McGrady hafði lokið sér af þá sagði Weisbrod einfaldlega við hann “Þú spilar ekki meira á þessu tímabili”. Svo ákveðinn var hann á því að láta hann ekki komast upp með stjörnustæla.

Nýliðavalið var framundan og þar sem Orlando voru með versta árangurinn í deildinni þá áttu þeir mestu möguleikana á fyrsta valrétt, í þriðja skiptið á 12 árum. Árið 1992 völdu þeir eins og þekkt er Shaquille O´neal og árið 1993 völdu þeir Chris Webber en honum var skipt strax til Golden State Warriors fyrir Anfernee “Penny” Hardaway. Það var mikil spenna sem ríkti í Orlando og vildu menn meina að framtíð McGradys fælist í því hvorn Orlando mundu velja: Emeka Okafor eða Dwight Howard. Töldu menn að Tracy vildi vera áfram ef Emeka yrði valinn, þar sem hann var öruggur leikmaður en Dwight er 18 ára orkubolti sem á enn eftir að sanna sig í hinum stóra körfubolta heimi. Hann kom beint úr miðskóla en Okafor úr háskóla. Weisbrod og Johnny Davis þjálfari skoðuðu þá báða og ekki var hægt annað en að dáðst að þeim báðum. Þeir gátu farið öruggu leiðina og fengið góðan leikmann strax ef þeir taka Okafor, eða farið draumaleiðina þar sem ekkert er víst og tekið áhættu með því að velja hinn hæfileikaríka Howard. Nýliðavalið skall á og ákváðu Weisbrod og hans menn í Orlando að fara draumaleiðina og völdu Dwight Howard fyrstan. Johnny Davis sagði að Howard hafði heillað þá upp úr skónum með ótrúlegum líkamsburðum, hann var sterkur, hann gat stokkið hærra en aðrir menn í hans stærðarflokki, hann var mikill varnarmaður (betri en þeir héldu) og hann var líka góður skorari. Þegar Weisbrod var spurður af hverju hann valdi ekki Okafor þá bætti hann við fyrri ástæður að þeir væru búnir að brenna sig á meiddum leikmönnum áður (Grant Hill) og þeir vildu ekki taka sénsinn á því að bakið á Okafor mundi gefa sig aftur, hann sem sagt hafði átt við bakmeiðsli að stríða. Þeir sem þekkja til bakmeiðsla vita að það er mjög auðvelt að lenda í þeim aftur og aftur. Íþróttalæknar segja, sem og aðrir læknar, að þegar þú færð bakmeiðsl, þá ertu með þau til lífstíðar: þau geta bara legið í dvala. Orlando fengu einnig í Jameer Nelson í gegnum skipti, en hann var valinn 20. í valinu. Þar var á ferð lágvaxinn bakvörður sem virtist vera einn hæfileikaríkasti maður valsins og kom það mörgum á óvart að hann hafi ekki verið valinn fyrr. Vildu margir meina að Orlando hefðu fengið stóran gullmola ódýrt þar.

Sumarið var skollið á að fullu og fóru orðrómar að hækka um að Tracy yrði sendur frá Orlando til liða eins og Pacers, Spurs, Lakers, Philadelphia og Houston. Sjálfur sagðist hann ekkert kannast við þetta og sagðist ekki vita betur en að hann yrði áfram í Orlando. Weisbrod grunaði hins vegar að Tracy vildi losna þaðan og setti honum því úrslitakosti: annað hvort viltu vera hérna eða þú ferð í sumar. Tracy sagði að hann vildi vera áfram hjá Orlando en var alltaf að segja að ef honum yrði skipt þá vildi hann fara til liðs eins og Houston, spila með stórum manni sem gæti skorað. Hann sagðist einnig ekki vilja fara til Lakers, hann vildi hafa smá challenge í þessu. Hann þoldi ekki Orlando-challenge, það var eins og hann vildi hafa þetta auðveldara. Frekar leiðinlegt að svona góður leikmaður skuli láta það virðast sem hann sé keppnislítill. Eftir fleiri vikur í ringulreið og enn fleiri kjaftasögur um hin og þessi skipti var það ákveðið. Tracy, Tyronn Lue, Juwan Howard og Reece Gaines fóru til Houston í skiptum fyrir Steve Francis, Cuttino Mobley og Kelvin Cato. Það hafði reyndar komið upp smá vandamál þegar þessi tíðindi dreyfðust sem kjaftasaga, Francis vildi ekki fara til Orlando. En eftir að hann hitti Weisbrod og aðra forráðamenn Orlando þá var hann ákveðinn, þangað vildi hann. Weisbrod og Francis virtust eiga samleið.

Þessi skipti höfðu ekki góð áhrif á einkalíf Weisbrod en hann fékk margar hótanir í bréfum og gegnum síma, en þau grófustu voru skrifuð á húsið hans, þar sem honum var hótað lífláti. Stundum er fólk bara of sjúkt. Weisbrod var viss um að hann væri að gera réttu hlutina til að gera liðið betra og því tók hann þessu sem eðlilegum hlut: hann var nýbúinn að losa Orlando við enn eina stórstjörnuna (Shaq og Penny þar áður) og voru ströngustu áhangendur ekki sáttir, sem hann skildi. Hann hins vegar stóð fastur á sínu og útskýrði að með þessum skiptum, og komandi skiptum, yrði liðið betra varnarlega, í fráköstum, sóknarlega og með meiri dýpt. Svo virðist vera sem fólk hafi áttað sig á því að í vændum væri þéttara lið sem væri alvöru LIÐ, ekki bara ofurleikmaður og “áhorfendur”. Nokkrir leikmenn liðsins fengu einnig að taka saman fötin sín og pakka niður: Drew Gooden, Steven Hunter og fleiri. Weisbrod hélt áfram að draga að sér leikmenn og virtist sem svo að hann væri að fara þá leið að búa til varnarsinnað lið sem gæti samt skorað. Þeir sem komu til liðs við Orlando í sumar voru meðal annars Stacey Augmon, Hedo Turkoglu, Tony Battie og fleiri. Þar sem Weisbrod var þekktur sem varnarjaxl í hokkíinu þá vildi hann byggja upp varnarsinnað lið, en eins og vitað er þá vinnurðu leiki á góðri vörn, ekki bara með stigaskorun og sýningartroðslum. Með Steve Francis við stjórnvölin, Cuttino Mobley og Hedo Turkoglu við línuna, Howard og Cato við körfuna þá má búast við því að Orlando verði mikið í hraðaupphlaupum og mun betra varnarlið en í fyrra. Það er allavega ljóst að fráköstin verða fleiri.

Eins og komið hefur fram þá var liðsandinn ekki sá besti á síðasta tímabili. Þó menn reyndu og gerðu það sem þeir gátu, þá voru þeir bara ekki nægilega vel samsett lið, enda var Doc Rivers rekinn eftir aðeins 11 leiki, 10 töp og 1 sigur. En það segir sig sjálft að lið sem er skipað lágklassaleikmönnum og þó að menn reyni sitt besta að það reynir á liðsanda og hvern leikmann fyrir sig að tapa svona oft, og meðal annars 19 og 13 leikjum í röð. En til marks um vonarglætu um betri tíma á þessu tímabili þá virðist sem allir í liðinu séu spenntir og ákveðnir í að láta þetta heppnast, þessa umbyltingu. Johnny Davis ákvað að kalla saman liðið á liðsfund í Las Vegas fyrri ekki svo löngu, en útaf klusu í samningi hvers og eins leikmanns þá eru þeir ekki skildugir til að mæta á svona fundi utan tímabilsins. En vegna spennu og góðs félagsanda og liðsanda þá mættu allir leikmenn liðsins á þennan liðsfund, eitthvað sem Davis bjóst ekki við miðað við gengi liðsins í fyrra. En munum nú, þetta er ekki sama lið og í fyrra. Það er því bjart framundan hjá liðinu hvað varðar þetta, þá hlakkar til að spila og þeir virðast smella vel saman. Góðar fréttir það, þar sem það virtist hafa horfið á síðasta tímabili. Það vantaði drifkraftinn í liðið og McGrady virtist ekki geta leitt liðið undir álagi og þeirra helsti leiðtogi til margra ára var sendur til Hornets fyrir síðasta tímabil, en það er Darrell Armstrong.

En bestu vonarfréttirnar voru enn eftir að skella á og í raun læddist þessi maður upp á sjónarsviðið á ný og sagði “Hæ, ég heiti Grant Hill. Ég er kominn aftur”. En er einhver séns á að hann geti spilað aftur? Við vitum öll að hann hefur bara spilað 47 leiki á síðustu 4 árum hjá Orlando og að hann hefur gengist undir hnífinn oftar heldur en Micheal Jordan hefur snúið aftur í deildina. Við vitum líka að hann sat á bekknum allt síðasta tímabil útaf aðgerð og til að hvílast og jafna sig. En það sem við kannski tókum ekki eftir var að hann er orðinn nokkuð góður. Við í sannleika sagt gleymdum honum. Þessi fyrrum (er enn) stórstjarna gleymdist í vonarleysi körfuboltaáhugamanna en nú virðist vera sem hann sé orðinn frískur í hinum fræga vinstri ökkla. Í fyrsta sinn á sínum Orlando-ferli mætir hann í æfingarbúðirnar án umbúða á ökklanum, án íspoka, án hækja, án alls stuðnings við ökklann. Annar leikmaður sem snýr aftur þetta tímabilið, Pat Garrity, spilaði með honum nokkra æfingarleiki í sumar og sagðist bíða spenntur eftir að sjá þessa goðsögn spila aftur eðlilega. Svo heill er hann víst orðinn, og á það skilið. Hill sýndi það og sannaði á æfingu núna á mánudaginn þegar blaðamenn fengu að fylgjast með æfingu Magic liðsins. Þar sást hann þjóta í gegnum varnarlínur andstæðinga og skora héðan og þaðan af vellinum. Hann meira að segja steig oftar en einu sinni ofan á fót annarra og meiddi sig ekkert. Hann spilaði heila æfingarleiki án þess að hvíla sig eða kvarta undan verkjum í ökklanum. Hann sem sagt virðist vera heill. Hann fór eftir hverja æfingu á þrekhjólið og hjólaði og hjólaði. Hann viðurkennir að hann sé þreyttur, en hann hafi aldrei áður verið jafn spenntur fyrir því að byrja nýtt tímabil. Ef þessi endurkomutilraun mistekst þá hefur hann ákveðið að hætta. Hins vegar, ef þetta heppnast, þá er þetta sennilega stórkostlegasta endurkoma leikmanns úr meiðslum í sögu NBA deildarinnar.

Ég læt þessu nú lokið og ég vona að þið hafið ekki sofnað yfir þessu. Margir hafa eflaust litla trú á Orlando liðinu þetta tímabilið en í sannleika sagt þá er ég mjög vongóður. Þeir eiga eftir að koma á óvart, enda gerbreytt lið. Þó enn eitt stóra nafnið sé farið frá liðinu, þá koma alltaf nýir tímar og með nýum tímum kemur ferskt loft og öðruvísi andrúmsloft.

Takk fyrir mig
Þetta er undirskrift