Bobcats byrja vel Næsta tímabil á eftir að verða áhugavert. Það virðist sem að það verði fullt af félagaskiptum í sumar, T-Mac farinn til Houston og Steve Francis til Orlando. Antawn Jamison farinn til Washington og Jerry Stackhouse til Dallas. Svo virðist sem Shaq sé að fara til Miami, Carlos Boozer og Memeth Okur líklegast til Utah, Steve Nash að fara til Phoenix og Rafer Alston til Toronto. Og það eru bara 10 dagar liðnir frá því að leikmannamarkaðurinn opnaði!

En nýjir leikmenn í nýjum liðum er ekki það eina sem verður spennandi að fylgjast með í vetur, margir bíða eflaust spenntir eftir því að sjá hvernig nýliðanum í deildinni, liðinu með íshokkínafnið, Charlotte Bobcats mun ganga á sínu fyrsta ári. Eftir að þeir völdu bara leikmenn með litla samninga í expansion draftinu núna á dögunum sögðu sumir að þeir myndu verða daufir á komandi tímabili og það eina sem yrði gaman að sjá væri hvernig nýliðanum Emeka Okafor myndi ganga í vetur. Jæja, kannski mun svo fara en miðað við gengi þeirra í sumardeild Minnesota Timberwolves sem kláraðist í dag gætu þeir alveg komið á óvart í vetur.

Sumardeildir eru venjulega bara fyrir nýliða og 2. árs leikmenn og þess vegna er ekki hægt að taka mark á árangri liðanna þar en þegar lið sem á að vera eitt af lélegustu liðunum á næsta ári vinnur alla leikina sína í svona deild eins og Bobcats gerðu þarna, þá gætu þeir, eins og ég segi, alveg komið á óvart í vetur. Þeir unnu semsagt alla 5 leikina sína og unnu deildina með prýði þrátt fyrir að Okafor spilaði ekki með þeim.

Fyrsti leikurinn í sögu Bobcats var á móti Toronto Raptors og það er ekki hægt að segja að það hafi verið mjög fallegur bolti spilaður. Leikirnir þarna voru 4X10 en lokatölur voru samt aðeins 69-53 fyrir Bobcats. Besti leikmaður þeirra í leiknum var 2. árs leikmaðurinn Tamar Slay, skoraði 15 stig, tók 5 fráköst og hitti úr 7 af 12 skotum. Toronto gat hreinlega ekki neitt í þessum leik, aðeins 17 af 70 skotum þeirra fóru oní og ekki neinn leikmaður liðsins skoraði tveggja stafa tölu! Nýliðinn Rafael Araujo var frekar óöruggur inn á vellinum, jú hann skoraði 8 stig og tók 8 fráköst en fékk 5 villur á þessum 18 mínútum sem hann spilaði.

Næst voru það heimamennirnir í Minnesota. Bobcats byrjaði mun betur og náði á tímabili 21 stigs forskoti en Minnesota náði að minnka það niður og lokatölur voru 81-76. Gerald Wallace var bestur á vellinum, skoraði 16 stig fyrir Bobcats. Jackie Butler var líklegast bestur hjá Minnesota, skoraði 11 stig af bekknum en senterinn Bruno Sundov var næstur með 10 stig. Hann tók samt aðeins 3 fráköst og ég efa það að hann fái að spila í NBA deildinni á næsta ári, hann gat lítið á þessu móti.

Næsti leikur var á móti Milwaukee sem voru með einn besta leikmann mótsins, Zasa Paluchia, kominn frá Orlando til Milwaukee. Hann var besti leikmaðurinn inn á vellinum og skoraði 19 stig og 8 fráköst en það dugði ekki til sigurs, 74-63 sigur hjá Bobcats. Enginn skaraði framúr í liði Bobcats í þessum leik. Loren Woods var sterkur í vörninni, 9 fráköst og 4 varin á 22 mínútum en annars voru flestir mjög jafnir. Fyrir utan Paluchia held ég að enginn í Milwaukee liðinu muni meika það í hópinn. Eddie Gill, leikmaður sem hefur spilað í NBA gat ekki neitt og var með 3 stig á 23 mínútum og gerði ekki neitt. Reyndar náði Fred House að stela 6 boltum á 18 mínútum sem verður að teljast góður árangur en hann gerði fátt annað í leiknum.

Fjórði leikurinn og sá skemmtilegasti var á móti Philadelphia 76ers og þar stóð baráttan á milli tveggja bestu leikmanna mótsins, þeirra Willie Green og Gerald Wallace. Green skoraði 1 stigi meira en Wallace en Wallace og Bobcats náðu samt að vinna leikinn, 96-81. Þessir tveir voru mjög góðir og eiga örugglega eftir að sjá fleiri mínútur á næsta tímabili en í fyrra. Loren Woods var einnig góður hjá Bobcats, 12 stig, 10 fráköst og 6 varin. Sani Ibrahim var næstbestur hjá Philly, 16 stig og 7 fráköst.

Fimmti og síðasti leikurinn og jafnframt úrslitaleikurinn var á móti Detroit Pistons. Það var einnig mest spennandi leikurinn, endaði með 4 stiga sigri Bobcats, 78-74. Mennirnir á bakvið sigurinn voru Gerald Wallace; 23 stig, 9 fráköst og 5 stolnir og Loren Woods sem skoraði 16 stig og tók jafn mörg fráköst. Bestur hjá Detroit var maður að nafni Bryan Matthews, skoraði 28 stig og tók 9 fráköst.

Þegar litið er yfir leiki Bobcats þá eru tveir leikmenn sem munu pottþétt vera að fá mínútur í vetur. Gerald Wallace og Loren Woods voru áberandi bestu leikmenn liðsins og kæmust í lið mótsins ef það væri valið. Ég hlakka til að sjá hvernig þeim mun ganga í vetur því þeir geta báði notað þetta tækifæri sem þeir fá hjá Bobcats til að verða stærri nöfn í deildinni en þeir eru núna. Maður getur ekkert dæmt um liðið núna því að þetta voru bara nýliðar og 2. árs leikmenn auk þess sem vantaði Okafor en samt virtist liðið ná vel saman, liðsheildin var án efa sterkust hjá þeim.

Já, það verður gaman að sjá hvernig Bobcats verða í vetur, ég hugsa nú að þeir komist ekki í playoffs fyrstu árin en samt held ég að þeir verði ekki á botninum í austrinu, bíðum og sjáum til.