Hér er ekkert að gerast, sumar og svona. Fólk að vinna og svona. En mér datt í hug að skella hér inn grein sem ég skrifaði og birti í tímaritinu hans. Ég held alveg örugglega að ég hafi ekki sett hana hingað á huga. En hér kemur hún. Athuga, hún var skrifuð í vetur.



LeBron og Carmelo


Fáir nýliðar hafa vakið jafn mikla athygli í sögu NBA og fyrsti valréttur deildarinnar í ár, LeBron James. Hallir fyllast þar sem hann spilar og erfitt hefur reynst að fá miða á leiki og hefur treyjan hans selst eins gríðarlega vel. Hún er mest selda nýliðatreyja frá upphafi og mest selda treyjan í NBA í dag sem segir sitt um vinsældir hans.
Ekki þarf hann að hafa áhyggjur af peningum næstu árin en margmilljóna króna auglýsingasamningar hafa gert hann að milljarðamæringi enda fengið yfir 100 milljónir dollara í auglýsingatekjur. Meðal annars má nefna það að risa skósamningur hans við Nike nemur um 90 milljónum dollara, en aðeins Michael Jordan og Tiger Woods hafa fengið slíka samninga við Nike.

Allt þetta er ekki að ástæðulausu en LeBron hefur oftar en ekki verið líkt við Michael Jordan og Magic Johnson sem er ekki amaleg nafnbót. Þó að hann sé aðeins 19 ára gamall er hann vel samkeppnishæfur við bestu menn deildarinnar.
Ótrúleg yfirsýn og frábærar sendingar hans gera hann einstakan. LeBron er stór og sterkur bakvörður, rétt yfir 2 metra og vegur 109 kg. Minnir hann einna helst á Magic Johnson en Magic var einnig stór bakvörður með frábærar sendingar. En Michael Jordan hefur alltaf verið fyrirmynd LeBrons og notar hann treyju númer 23.

LeBron ákvað að sleppa að fara í háskóla og stefna beint á NBA deildina eftir miðskóla. Aðrar stórstjörnur hafa gert það svo sem Kobe Bryant, Kevin Garnett og Tracy McGrady og er eflaust þær stóru fjárhæðir sem eru í spilinu ein helsta ástæða þess að leikmennirnir sækjast eftir því að spila í NBA.

Cleveland Cavaliers hafa ekki verið sterkir undanfarin ár og enduðu síðasta ár með aðeins 17 sigra, það lægsta í deildinni ásamt Denver Nuggets sem sigruðu líka aðeins í 17 leikjum. Cleveland og Denver höfðu þá jafna möguleika á því að fá fyrsta valréttinn. Til allrar lukku fyrir Cleveland þá fengu þeir hann svo að það var ekki spurning hver yrði fyrir valinu. Strax er það byrjað að skila sér inn fyrir Cleveland peningalega séð. Vörusala liðsins hefur farið upp úr neðsta sæti upp í það þriðja. Áhorfendafjöldinn á heimaleikjum hefur farið upp um 50% og sjónvarpstekjurnar hafa þrefaldast.

LeBron hefur spilað allra nýliða best á nýliðatímabili sínu og er líklegur handhafi titilsins“nýliði ársins”. Strax má sjá framfarir hjá Cleveland liðinu þótt að þær séu ekki miklar en liðið er þó ekki á botninum eins og á síðasta tímabili. Þegar þetta er skrifað eru þeir með 40% sigurhlutfall en enduðu árið í fyrra með rúmlega 21%.
LeBron hefur skorað um 20 stig að meðaltali í leik, tekið 5,8 fráköst og gefið 5,6 stoðsendingar. Til samanburðar skoraði Kobe Bryant aðeins 7,6 stig á nýliðaári sínu en hinsvegar toppar sjálfur kóngurinn alla, Michael Jordan, með 28,2 stig á nýliðaári sínu.





Annar nýliði stóð í skugga LeBron’s í upphafi þessa tímabils en er þó að afla sér hægt og bítandi frægðar og gefur LeBron mikla samkeppni um “nýliða ársins” verðlaunin.

LeBron ákvað að fara ekki í háskólann en það gerði Carmelo Anthony eða “Melo” eins og hann er oft kallaður. Carmelo spilaði með Syracuse háskólanum en hann stoppaði aðeins þar í eitt. Sló hann þar í gegn og leiddi Syracuse skólann til síns fyrsta NCAA titils. Skoraði hann í þessum 35 leikjum 22,2 stig að meðaltali og tók 10 fráköst. Eftir þetta eina ár sitt í Syracuse ákvað hann að fara í nýliðaval NBA.

Melo var valinn þriðji í nýliðavalinu og voru Denver Nuggets svo heppnir að fá hann. Denver hefur gengið mun betur en Cleveland í deildinni í ár og er það að stórum hluta Melo að þakka. Það mætti segja að Denver hafi verið sputnik lið deildarinnar í ár en eru óheppnir að vera í erfiðasta riðli deildarinnar. Þrátt fyrir það eru þeir með yfir 50% vinningshlutfall sem er mun betra en í fyrra þegar þeir enduðu með rúmlega 21% vinningshlutfall.

Melo er jafn stór og LeBron en um 10 kg léttari. Melo er mun betri skotmaður utan af velli og er hættulegur í teignum. Þó að hann sé léttari hefur hann ekki þann hraða og sprengikraft sem LeBron hefur en er duglegur að bakka menn niður og fá auðvelda körfu eða villu.

Ekki er LeBron einn um vinsældir af nýliðunum. Treyjan hans Carmelo er önnur
mest selda treyjan í deildinni (á eftir LeBron) og áhorfendur berjast um sæti til þess að fá að sjá þennan leikmann spila. Stjórnarformaður deildarinnar, David Stern, telur Carmelo og LeBron vera nýju andlit markaðssetningar í deildinni.

Melo byrjaði ekki eins vel og LeBron en er þó að klóra í bakkann og er búinn að jafna LeBron í stigaskori. Melo er að skora rétt yfir 20 stig í leik og taka 6,2 fráköst. Þessar tölur munu eflaust verða hærri og sem dæmi má nefna hefur hann skorað 27 stig í leik í síðustu 13 leikjum er þetta er skrifað. Samvinna Melo og Andre Miller hefur skipt sköpum hjá Denver. Til gamans má geta þess að minnsti maður deildarinnar, Earl Boykins, (165 cm að hæð) er að skora rétt rúm 10 stig í leik.
Ekki má gleyma Voshon Lenard sem hefur átt eitt sitt besta tímabil í ár.
Það verður fróðlegt að fylgjast með Denver Nuggets á komandi árum.

Carmelo Anthony og LeBron James eru eitthvað það forvitnilegasta og skemmtilegasta nýliðapar” sem komið hefur fram undanfarin ár. Ný kynslóð er að taka við af þeim eldri og ungir leikmenn verða æ meira áberandi í deildinni. . Það verður mjög skemmtilegt að fylgjast með þessum tveimur leikmönnum í framtíðinni og hver veit nema tvö ný stórveldi eru að verða til.

Arnar Freyr Magnússon