Round two Jæja, nú er ömurleg fyrsta sería að klárast og aðeins eina spennandi serían eftir, Miami-New Orleans. Núna fer þetta hins vegar að verða spennandi og ég leyfi mér að fullyrða að að minnsta kosti tvær af þessum seríum munu verða hörkuspennandi. Þrátt fyrir að allt getur gerst ætla ég að reyna að spá í þetta.


Minnesota - Sacramento

Lið númer 1. og 4. Vesturdeildin var rosalega jöfn í vetur og þrátt fyrir að það munaði 3. sætum á þessum liðum voru þau nánast með sama árangur í vetur. Wolves þurfa að ná að nota heimavallarréttinn ef þeir ætla að vinna þessa seríu en Kings mun örugglega mest leggja upp úr því að stoppa Garnett, sem þeir eiga að geta með Webber á honum og Divac og Brad Miller tilbúna í hjálparvörn. Þá mega þeir hins vegar ekki gleyma Sam Cassell og Spree úti. Samt held ég að Garnett muni, eins og alltaf ná einhvern vegin að ráða við þá og halda áfram að brillera í úrslitakeppninni.

Ég held að helsti þátturinn í þessari seríu verði einvígi Cassell og Bibby. Bibby spilaði mjög vel í Kings-Mavs og var maðurinn á bakvið 4. sigurinn. Cassell hefur einnig verið að spila vel og það sem hann hefur gegn Bibby er reynslan. Hann er tvöfaldur NBA meistari og búinn að spila 11 tímabil. Í stuttu máli, Bibby er betri en Cassell reynslumeiri.

Wolves í sjö leikjum.


San Antonio - LA Lakers

Þetta á eftir að verða rosaleg sería. Stjörnufans Lakers á móti öguðum leik Spurs. Fyrsti leikurinn var í gær og hann var nokkuð merkilegur. Reyndar var fyrri hálfleikur hundleiðinlegur. Lakers hitti ekki neitt utan af velli og var að spila hreint út sagt ömurlega en þeir héldu í San Antonio þar sem SA hitti ekkert úr vítunum (1-10! Fáránlegt). Í seinni hálfleik var þetta mun betra. Kobe setti upp sýningu í þriðja fjórðung og gaf Lakers 3 stiga mun fyrir 4. leikhluta. Þá brást hins vegar allt hjá Lakers, Duncan hitti úr öllu og SA tók þetta með 10 stigum.

Það sem Lakers þarf að gera er að koma Shaq og Payton í gang. Þeir eru búnir að vera langt undir sínu venjulega leikformi í úrslitunum, sérstaklega Payton og Lakers mun pottþétt ekki komast alla leið haldi þeir áfram að slugsa svona. Síðan þarf bekkurinn einnig að gera eitthvað. Auðvitað eiga stjörnunar að halda þessu gangandi en 6 stig frá bekknum eins og sást í gær er einfaldlega óásættanlegt.

Spurs eru hins vegar á fínu róli. Þetta var 16. sigurinn í röð hjá þeim og þeir virðast ekkert á leiðinni að hætta sigurgöngunni. Vörnin er outstanding, Duncan að skila sínu og gott meira en það og Tony Parker, sem virðist alltaf verða helmingi betri í úrslitakeppninni hefur verið að spila frábærlega. Ef Spurs halda áfram að spila svona vel geta þeir alveg komist alla leið.

Eins og staðan er í dag er ég ekki í nokkrum vafa með þessa seríu. Agað spil Spurs á eftir að fara illa með Lakers. Spurs taka þetta í 6 leikjum.

Detroit - New Jersey


Þetta verður einnig frábært einvígi. Nets voru rosalega sterkir á móti Knicks og tóku þá í fjórum. Þeir hafa einnig Austurdeildartitil að verja og munu ekki gefa hann frá sér án baráttu. Detroit hefur aftur á móti harma að hefna. Nets rúlluðu þeim upp í fyrra og þeir munu einnig koma brjálaðir til leiks, þá meina ég brjálaðari en venjulega.

Ég held að þessi sería muni snúast mikið um stök einvígi. Þá meina ég Kidd-Billups, Jefferson-Prince og K-Mart-Williams systurnar. Martin á við ofurefli að etja inn í teig þar sem tveir öflugustu varnarmenn deildarinnar eru, Ben og Sheed, og Nets mun þurfa að leita af Jefferson til að klára sóknirnar. Hann hefur bætt sig mikið en prinsinn með löngu hendurnar er öflugur varnarmaður og það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir munu kljást. Þá er það Kidd á móti Billups. Kidd er betri ás, bæði varnar- og sóknarlega séð og það mun mikið mæða á honum í þessari seríu. Hann er kóngurinn í Nets, maðurinn sem stjórnar hinum frábæru hraðaupphlaupum þeirra og það fer allt eftir því hvernig honum gengur hvort Nets kemst áfram.

Pistons hafa allt sem til þarf. Þeir hafa náttúrulega bestu vörnina og í sókninni hafa þeir marga úrkosti. Það kæmi mér ekkert á óvart ef Rip Hamilton myndi koma sterkur í þessum leikjum og ég býst við því að hann og Tayshaun Prince munu verða það sem sker úr um hvort liðið kemst áfram.

Pistons í sjö


Indiana - Miami/New Orleans

Ekki erfitt að spá um þetta. Það skiptir voða litlu máli hvort liðið kemst áfram, Indiana á eftir að fara illa með þau bæði. Miami er samt sterkara liðið og þess vegna held ég að þeir gætu jafnvel unnið einn leik komist þeir áfram.

Indiana tæki Miami í fimm, Hornets í fjórum.