Leikirnir 18. og 19. apríl 18. Apríl
Detroit Pistons 108 - 82 Milwaukee Bucks
Í sjónvarpsleik sunnudagsins tóku Detroit á móti Milwaukee. Leikurinn var frábær skemmtun, mikið af flottum tilþrifum og mjög gaman að sjá hina frábæru pressuvörn Detroit. Bucks, sem vantar aðal leikstjóranda sinn, TJ Ford, komst varla upp völlinn og liðið endaði með 25 tapaða bolta. Liðið réð hreinlega ekkert við sterka vörn Detroit og þess vegna fór sem fór. Eini leikmaður Bucks sem gerði eitthvað í leiknum var Desmond Mason og m.a. tróð hann glæsilega yfir Ben Wallace.
Það gekk hins vegar allt upp hjá Detroit. Ben og Rasheed Wallace spiluðu frábærlega, Tayshaun Prince var líka mjög góður og Corliss Williamson kom sterkur af bekknum. Bucks þarf greinilega að breyta einhverju ef þeir ætla að eiga séns í Detroit í næstu leikjum.

Miami Heat 81 - 79 New Orleans Hornets
Dwyane Wade hefði ekki getað byrjað playoff feril sinn betur en hann gerði í þessum leik. Auk þess sem hann átti góðan alhliða leik tryggði hann Miami sigurinn með erfiðu skoti þegar 1,3 sek voru eftir. Þegar 7 mínútur voru eftir virtist sem Miami ætlaði að vinna þetta en þá leiddu þeir 77-65. Þá komust hinsvegar Hornets í gang og náðu að jafna muninn 79-79 þegar 53 sek voru eftir. Miami fór í sókn og klúðruðu og það sama gerðist hjá Hornets í næstu sókn. Dwyane Wade dripplaði þá upp völlinn, drævar inn í og tekur skot nálægt vítalínunni yfir Baron Davis og Jamaal Maglorie beint ofan í.
Maður leiksins var náttúrulega Wade en Lamar Odom átti einnig góðan leik fyrir Heat með 17 stig og 11 fráköst. Rafer Alston kom af bekknum með 13 stig. Jamaal Maglorie var með 14 stig og 11 fráköst fyrir Hornets og Baron Davis var með 17 stig, en hann haltraði allan seinni hálfleikinn.

Minnesota Timberwolves 106 - 92 Denver Nuggets
Denver réð ekkert við þá Sam Cassell og Kevin Garnett en þeir voru báðir sjóðheitir í gær. Cassell jafnaði sinn besta árangur með því að skora 40 stig og hann hitti úr 67% skota sinna. Garnett var einnig rosalegur með 30 stig og 20 fráköst. Fólk hefur verið að tala um að Garnett muni ekki geta leitt Minnesota alla leið að meistaratitli en núna með Sam Cassell, tvöfaldann NBA meistara með Houston, hef ég trú á því að þeir komist alla leið. Að minnsta kosti eftir leikinn í gær.
Þrátt fyrir 14 stiga tap var þetta ekkert lélegur leikur hjá Denver. Earl Boykins og Marcus Camby voru báðir að spila mjög vel og Carmelo var góður þótt hann hitti aðeins úr 6 af 17 skotum sínum. Þeir þurfa samt allir að vera frábærir ætli þeir að vinna Minnesota liðið.

Sacramento Kings 116 - 105 Dallas Mavericks
Sacramento sýndi hversu gott lið þeir eru í þessum frábæra leik. Með því að spila vörn í 4. leikhluta náðu þeir að yfirspila Dallas og þeir unnu 4. leikhluta 30-20. Það var sérstaklega frábær vörn Doug Christie á Michael Finley sem gerði það að verkum en hann rústaði Finley sem hitti aðeins úr 4 af 13 skotum sínum. Peja og C-Web áttu einnig báðir mjög góðan leik. Peja var með 28 stig og 5 þrista og Webber var að taka réttu skotin, 28 stig, 12 fráköst og 12-19 í skotum. Það hefur einmitt háð honum í vetur að hann hefur verið að taka of erfið skot.
Þrátt fyrir tap var Dallas liðið að spila mjög vel. Dirk Nowitzki átti stórleik og var með 32 stig, 13 fráköst og 5 varin. Nýliðinn Marquis Daniels hélt áfram að spila vel og var með 13 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar, 4 stolna og 2 varin. Einnig kom Antawn Jamison sterkur af bekknum og var með 18 stig og Steve Nash stjórnaði spilinu vel þrátt fyrir að hitta illa.
Samt sem áður er Doug Christie maður leiksins. Auk þess að spila frábæra vörn var hann með 21 stig, 8 stoðsendingar og 8 fráköst.

19. apríl

Los Angeles Lakers 98 - 84 Houston Rockets
Yao vann kannski Shaq í þessum leik en Lakers vann leikinn örugglega. Shaq og Payton voru báðir ískaldir í leiknum en það skipti litlu máli því að Kobe og Malone sáu um þetta og unnu leikinn fyrir Lakers.
Leikurinn var jafn framan af en í 3. leikhluta rústaði Lakers þessu og vann hann 30-18. Þeir bættu við í 4. leikhluta og enduðu með 14 stiga sigri. Kobe bætti fyrir lélegan 1. leik og var með 36 stig, þar af 16-17 á línunni. Malone var með 17 stig og 8 fráköst en hann spilaði mjög góða vörn og hjálparvörn hans á Yao stoppaði margar sóknir.
Steve Francis var besti leikmaður Houston. Hann náði þrefaldri tvennu, 18 stigum, 10 fráköstum og 12 stoðsendingum. Jimmy Jackson var með 19 stig fyrir Houston og Yao 21.

San Antonio Spurs 87 - 70 Memphis Grizzles
Spurs virðast ætla að fara létt í gegnum Memphis. Þeir fóru aftur illa með þá og unnu nú með 17 stigum en fyrsti leikurinn endaði 98-74. Memphis hélt áfram að hitta illa og núna var Pau Gasol sá eini sem var að spila vel. Reyndar var Memphis nálægt því að komast yfir í 3. leikhluta þegar þeir minnkuðu muninn í 1 stig, 55-54. Þá kom Robert Horry og setti tvær þriggja stiga körfur og það sem eftir var af leiknum sáu Memphis ekki til sólar.
Hjá Spurs áttu Duncan og Tony Parker báðir mjög góðan leik. Duncan var með 23 stig og 12 fráköst auk þess sem hann varði 5 skot og Parker skoraði 27 stig og gaf 7 stoðsendingar. Robert Horry kom einnig sterkur af bekknum og skoraði 14 stig og tók 10 fráköst plús að setja niður tvo þrista á mjög mikilvægum tíma.

Í kvöld spila svo Nets og Knicks annars vegar og hins vegar Indiana og Boston. Ég hvet alla til að horfa á þá, hvort sem er í gegnum gervihnattardisk ef þið hafið aðgang að því eða í gegnum live stats á www.espn.com eða www.nba.com